mánudagur, september 26, 2005

Í tilefni

umræðunnar (er einhver umræða í gangi?) í þjófélaginu (veit ekki hvernig þjóðfélag er hérlendis) sem Halur veit ekkert um, en hefur heyrt fleygt á ganginum og í fjarska án þess að leggja við hlustir, þá vill hann gera undantekningu og birta ljóðaþýðingu manns sem grafinn var í dag (Geirlaugur Magnússon):

Apakettir Brueghels

Draumur minn um stúdentsprófið
tveir hlekkjaðir apar við gluggann
fyrir utan hoppar himinninn
og hafið svamlar í makindum hjá
á mannkynssöguprófi
stama og svitna

annar apinn skoðar mig glottandi
hinn virðist sofa
meðan þögnin gleypir spurninguna
hvíslar hann að mér svari
með því að hrista hlekkina

Betra verður það varla enda enginn vinsældalisti hér á ferðinni, einungis Wislawa Szymborska að kveða sér hljóðs. Það minnir Hal aftur á það hversu mikla yfirburði hið ritaða og talaða orð hefir fram yfir sjónorð. Sjónorð er bónorð um glæp og minnisleysi. Ótrúlegt hversu mikið af góðu efni er annars á Gufunni.

Skemmtilegir

hlutir eru iðulega nærri Hali, eftir því sem aðrir segja, en hann sér eigi. Sumt er þannig gert að því er eigi unnt að gleyma eða klúðra. Um daginn hitti Halur mann sem minnti hann á sjómenn Íslands eins og þeir voru fyrir nokkrum áratugum; vatnsgreiddir (einnig þegar þeir voru edrú), í peysu og buxum, berhentir í hvaða veðri sem er og skófatnaði við hæfi, oftast berhöfðaðir. Þessi ágæti maður var með þessa skemmtilegu sjómannsgreiðslu, vatnsgreiddur með bylgju eða bugðu í hárinu að framanverðu, en þó ekki alveg í píku að aftan eins og margir voru. Greiðslan óhagganleg í stormi. Þessi greiðsla var einnig algeng eða afbrigði hennar hjá þeim er klæddust Iðunnarúlpum og drukku kogara þegar Halur var aðeins minni en nú er, þótt munurinn teljist vart mikill í sentímetrum.

Meiri mjólk

og meiri mjólk, hún bætir börnin ef mið skal tekið af ráðleggingum Manneldisráðs og auglýsingaherferðar mjólkurfyrirtækjanna, sleppum skrípanöfnum mjólkurvara. Mjólk er óþverri, það er auðvelt að sanna. "MS-Stoðmjólk er barnsins stoð og stytta" og á að tryggja betri líðan og minna blóðleysi meðal smábarna eða þeirra sem hætt eru á brjósti (vísbending: nú er árið 2005 og allt unnt að mæla). Halur rakst fyrir tilviljun á þessa nýju vöru (?) í kæli verslunar, en mjólk er eins og annað í dag, selst einungis með endalausum auglýsingum og umbúðum sem minna á ég veit ekki hvað. Halur hefir ekkert á móti mjólk í sjálfu sér, þótt einhverjir haldi það eftir þennan lestur; honum er hér með lokið og Halur mun ekki frekar skrifa neitt um mjólk framvegis. Mjólk er eins og þungamálmurinn baríum fyrir þarmana, hálgferður óþverri fyrir flesta. Halur neitar sér þó ekki um pönnukökur eða vöflur með rjóma eða Brynju-ís, en það er sjaldan sem það skeður. Eins og allt sem Halur segir, þá er þetta öfugsnúið.

laugardagur, september 24, 2005

Matur, mjólk og mannanna mein

eru efni og afurðir sem aldrei komast úr tísku. Nýverið hlustaði Halur á erindi Jane Plant sem ku vera allþekkt vísindakona í sínu fagi, en kannski þekktari meðal almennings sökum skrifa sinna og hugmynda um ýmis krabbamein í vestri og óhagstæðan samanburð við austrið (Asíu, Kína). Sérlega hefur hún verið mótfallin allri neyslu mjólkurafurða, en eigi veit Halur hversu margar vörutegundir fást núorðið í verslunum landsins; þeim virðist fjölga um eina á viku. Rök hennar eru að ýmsu leiti athyglisverð og góð þegar best lætur og tíminn leiðir allan sannleika í ljós; Kínverjar eru að verða eins og vestrænir menn í neyslu og háttum smám saman og afleiðingin er sú að hinir gömlu sjúkdómar, berklar, sýkingar og þess háttar eru minnkandi en allt hitt kemur í staðinn. Mjólkuráróðurinn á sér marga bandamenn, þrátt fyrir að ágæt rök finnist um gagnsleysi eða ónauðsyn mjólkurafurðaneyslu. Fyrir marga landa vora er þetta fyrst og fremst mikið tilfinningamál eins og t. d. með skyrið. Hinum íslensku mjólkurafurðum má varla hallmæla opinberlega. Halur fer á stundum á æfingar og þar er skyrbar og alls kyns mjólkurdrykkir, eggjahvíta í mismunandi formi sem bætir og styrkir kroppinn að sagt er auk allra baukanna með með hinu og þessu fyrir 5000 kall eða meira. Halur er eigi stuðningsmaður í nokkru prófkjöri neysluafurða, en vill koma því á framfæri að fólk endurskoði mjólkurafurðaneyslu sína. Annars var skemmtilegt á stuttri æfingu nýverið þar sem Halur sá vöðvabúnt, en áður sáust skyr- og mjólkurdrykkir í anddyri og á skyrbarnum eins og í erfidrykkju væri eftir andlát Kóngsins. Vöðvabúntið var skemmtilegt, handleggir beint út af öxlum í hvíldarstöðu, kastaði fótum aðeins út vegna læranna og annað misgott. Þetta minnir Hal á andstæður nútímans og mjólkurafurðaneyslunnar; einnig að þetta er að verða "kellíngablogg" og því best að snúa sér að öðru.

þriðjudagur, september 20, 2005

Freyja

hússins í Vinaminni benti Hali á að næg verkefni væru fyrir hann í skúrnum eftir allar framkvæmdir sumarsins og haustsins sem reyndar kom snemma síðasta vetur en sumarið sleppti árvissri komu sinni norðan heiða. Hali var einnig bent á hangandi fugla aftan við hús og hvort tími væri eigi kominn á að verka þetta eins og sagt var til sveita; Halur reiknaði með að freyjan færi í þetta og hann minnist gamla tímans þegar karlmennirnir komu úr veiðitúr, konan beið á tröppunum með tilbúinn mat, tók við skítugum fötum, lét renna í bað en áður hafði hún verið allan daginn að undirbúa móttökuna og til að gera langa sögu stutta og sleppa aðalatriðunum, sem Halur gjarnan gerir, þá var bráðinni ætíð kastað fyrir fætur eiginkonunnar og hún orðalaust gekk frá öllu með sóma og mikilli gleði. Hali leið vel að handleika hinar fögru bringur af fuglverki aftan við hús. Það var fljótgert að ganga frá þessu enda það sem einu sinni var lært, það verður manni ætíð fært. Halur hundskaðist síðan aftur í skúrinn, náði í birtulampa fyrir húsfreyju og aðra sem þar vilja sitja í framhjáhlaupi í leynigeymslu, hafði reyndar minnst á það skömmu áður en engin viðbrögð þá. Aftur í skúrinn, ruskast þar og hlustað á tónlist af ýmsu tagi, endaði með gömlum Rollíngalögum. Karið síðan sett í skúrinn fyrir freyjuna þannig að kalsár myndist eigi að morgni.

Nú vandast

málið. Halur er tregur maður eða jafnvel kona, ekki veit hann. Heimskur segja margir á þriðjudegi er loks sést til sólar. Það sagði Hali bóndakona að Leifsstöðum í Kelduhverfi um nýliðna helgi, þegar bóndinn var á fjalli (Halur hafði kannað það áður, enda alltaf vonað að einhver kona félli fyrir honum á þessum slóðum og hann gæti gerst bóndi og veiðimaður að atvinnu, verður vart úr þessu nema húsfreyjan í Vinaminni fari austur og sjái á Hali aumur), að sumarið hefði verið með afbrigðum blautt, votviðrasamt mjög og vart unnt að ná heyi í hús. Þennan dag var votviðrasamt, norðangarri, kuldi og napurt en með afbrigðum fagurt þar sem sást nærri auga jafnt sem fjær, enda Halur bæði nær- og fjærsýnn. Litaspjald náttúrunnar sennilega eitt hið fegursta í veröldinni á þessum slóðum. Þarna var mikið um gæs og siðferðislögmál skotmennsku öllum kunn; aldrei skjóta meira en þú getur verkað eða etið, segir Halur. Halur var ekki með vopn á öxl þennan dag, heldur stöng. Það þýðir eigi að deila við dómarann þegar upp er komið eða niður farið, allt er fyrirfram ákveðið segja sumir. 64 gæsir lágu í valnum sagði mér önnur kona eftir morgunflugsveiðar einhverra í vikunni. Slíkar veiðar dæma sig sjálfar, segir Halur eða hvað veit hann!? Vandinn við skotveiðarnar er sá að þegar hleypt hefir verið af, þá verður engu sleppt er höglum verður fyrir (Halur kemur alltaf með gáfulegar athugasemdir). Skárra með fiskinn, auðvelt þar að sleppa yfirleitt. Siðferðið í öllum veiðiskap þar sem bráðin er drepin á sér margar hliðar; skothvellir að morgni við sólarupprás, eða að kveldi við sólhvörf, ljósaskipti (skrítið orð), sá tími sem jafnan er hvað fegurstur, fiskur á öngli í ljósaskiptum eða í morgunsárið. Veiðar eiga vissulega undir högg að sækja í nútímanum þar sem neyslan er yfirgengileg fyrir; Halur mun þó stunda veiðar áfram ef unnt verður, en ýmsar blikur eru á lofti og sýnist einungis tímaspursmál hvenær fjármagnseigendur yfirtaka þetta eins og annað á Íslandi. Enn er þó von - svæðisbundið. Þetta sem áður er sagt hér að ofan var innskot, en nú vandast málið þar sem Halur hefir verið klukkaður og eftir margra daga rannsóknir og viðtöl við kunnuga, þá er hann enn að velta þessu klukki fyrir sér ef ekki kukli. Það er hins vegar skrítið að Halur þreytist aldrei á veiðum.

fimmtudagur, september 15, 2005

Óbrigðul ráð

eru fá tiltæk. Sökum ístruvandans er suma virðist hrjá og það víða, sem sannarlega er fótur fyrir, ef mið er tekið af gömlum bekkjarmyndum úr barna- og unglingaskóla í Reykjavík nokkuð eftir miðja síðustu öld, er rétt að benda á eitt óbrigðult ráð til þeirra er fitulosun stunda. Þó ekki fitusog eftir reikningi eða þyngd sem Hryggingarstofnun ríkisins tekur ekki þátt í að niðurgreiða. Allir kannast við sönginn "Komdu niður segir pabbi og mamma" og leggja má útaf honum sem hver og einn vill. Halur bendir fitulosendum á að hafa regluna eða sönginn svohljóðandi: "Horfðu niður!" Fyrir karlmenn sem ístru eða aukamagamál hinn neðri hafa, þá skulu þeir standa teinréttir og horfa niður; ef eigi sést í líkamshluta þann er einu sinni var vel sýnilegur, þá skulu hinir sömu taka sig á í ræktinni og ekki hætta þjálfun fyrr en sést í fremsta partinn eða svo. Frekari losun mun þá sýna þeim partinn (vininn) í nýju ljósi frá hæstu hæðum ef horft er niður. Sannarlega verður um landvinninga að ræða. Fyrir sambýlinga, maka, eiginkonur eða hvað eina sem nærri er hverju sinni, má nefna sönginn: "Horfðu upp vinur!"

Nú ríður

yfir alda líkamsræktar og hreysti, ef e-ð mark er takandi á auglýsingum er inn koma í Vinaminni, um nýju bréfalúguna. Halur var nýlega við æfingar og varð þá litið til hægri og sá þar miðaldra (?) konu liggjandi á bekk eða réttara sagt í fóta- eða hnépressutæki þar sem hausinn er andsteyptur. Vaxtarlagið sást ágætlega og var það aðeins yfir meðallagi, en annars ætti þessi kona að vera fær flestan sjó. Konan var hins vega hálf-föst í tækinu, gat ekki lyft sér upp og stigið úr tækinu fyrr en eftir drjúga stund og var þá orðin móð og andlitið blátt, en þess má geta að litblinda ásamt nær- og fjærsýni háir Hali. Enginn aðstoðarmaður (eða kona) var nærri, enda er í stöð þessari litla sem enga aðstoð að fá nema fyrir greiðslu og fjárútlát nokkur. All oft sér Halur fólk í stöðinni sem er í hálfgerðri sjálfheldu innan í tækjunum eða álíka. Þetta leiðir einnig hugann að þéttvöxnum bæklunarlækni, sem sat í Leisíbój-stól af minni gerðinni á Sauðárkróki og festi sig sjálfur í stólnum og fyrir slysni náði hann að losa sig hálftíma síðar. Honum var það nokkur nauð og stólinn verið ósetinn síðan af hans hálfu.

þriðjudagur, september 13, 2005

Hin mislitu kort

birtast víða. Halur ræddi við mann fyrir nokkru sem haldinn er langvinnum sjúkleika að talið er og flestir frægir læknar búnir að gefst upp á honum sagð´ann. Fram kom af hans hálfu, að hann gæti sagst vera með "gula kortið" hvað heilsufar varðaði og dauðlega sjúkdóma. Ekki vildi hann gefa sér "rauða kortið" og var það vel, en "græna kortið" mun þá vera ávísun á heilbrigði, sem reyndar er ekki til ef vel er að gáð í nútíma skræðum og fræðum. "Sá er einungis frískur, sem eigi hefir verið rannsakaður á háskólasjúkrahúsi" verður að teljast afar þreyttur frasi, en verst er hversu margir trúa þessu og ekki batnar það ef orðið hátæknisjúkrahús er sett í stað háskólasjúkrahúss. Einhver sagði Hali um daginn að enginn Alþingismaður vissi hvað hátæknisjúkrahús væri, en allir töluðu þó um slíkt, en það mun engin nýlunda vera hérlendis eða á þeim stað (Halur þekkir ekki nafn á nokkrum Alþingismanni). Halur gefur engin kort, en fær þau hins vegar ef óþægur er, þó ekki heilbrigðiskort og það er nú gott sökum litblindu hans. Manninum var það nokkur nauð að ganga með "gula kortið", en sættist á það, þar sem hið rauða var ekki álengdar eða var það kannski hið græna!?

sunnudagur, september 11, 2005

Ýmis ráð

eru til við ráðaleysi. Halur er verkhræddur maður og haldinn verkstoli á háu stigi. Stöku sinnum tekst honum að koma áætluðu verki í framkvæmd og ljúka því, en það er sjaldgæft. Fyrir all nokkru (í fyrra eða hitteðfyrra) sá hann sérlega vel heppnaðar skíðafestingar í norsku blaði og hefur síðan gengið með þær í maganum eins og kona með barn sitt, en meðgöngutíminn verið lengri; enn ein líkingin sem karlar burðast með frá hinu kyninu. Halur greip í örvæntingu til þess ráðs ( með óráði) að senda upplýsingar um festingarnar, með mynd og tilheyrandi til vinar í götu, þar sem hann vissi að sá hinn sami ætti flest allt sem til þyrfti til að klára verkið. Enn fremur hefði sá vinur tækifæri til að fjárfesta í einhverju tæki samtímis og gæti þá slegið aðeins á tækjakaupaþörfina sem konur eru iðulegast að grínast með í fari karla, en vita ekki betur en svo, að tækin eru ætíð keypt með því markmiði að koma þeim til hjálpar; veit einhver karl um dæmi annars? Þegar Halur var farinn að óttast haustmyrkrið og þegar farinn fyrir finna fyrir þvagtregðu og enniskulda vegna tíðarinnar, viti menn, þá var hringt og á hinum endanum var þessi einstaki vinur sem færði Hali þær fréttir að skíðafestingarnar væru tilbúnar og aðeins eftir að koma þeim fyrir á vegg í skúrnum stóra. Fóru þeir saman út á laugardagskveldi enda er Halur ekki skemmtanasjúkur maður eins og konur gjarnan eru og aðrar verur sem hópsálir teljast eins og t. d. mörgæsir. Halur fékk að halda á hallamálinu og færði vini þessum allt eins og handlangari væri og komst Halur þar næst því að gerast iðnaðarmaður með bert á milli treyju og buxnastrengs. Hann fékk að ryksuga og gerði það eins og konur gerðu áður. Svona getur takmarkaður maður eins og Halur komið verki í höfn og gefur öllum ráð þetta til eftirbreytni þeim er kvíða og verkstoli eru haldnir. Festingarnar eru meistarsmíð.

föstudagur, september 09, 2005

Eftirlitsæðið

er skrítið. Nú berast upplýsingar frá Norvegi þess eðlis að nærri allir karlar > 40 ára í Þrændalögum (nyrðri) megi búast við "fatal" hjartasjúkdómi. Heldur skárri kostur hjá konum en lítið, þær eru alltaf betri, eðlislægir kostir þeirra. Þetta er angi af hátæknifræði og nútímavísundum (enter-takka heilkennið), sem hvað eftir annað skjóta sig í fótinn. Hverjum eiga slíkar niðurstöður að gagnast? Enn skrítnara er það að niðurstaðan skuli vera birtingarhæf og eigi að leiða til batnandi heims af eða á. Það er ekki nema von, að Halur geti hugsað sér að setjast að t.d. í Kelduhverfinu og fokka e-ð út á túni eða við læk fremur en að hafa áhyggjur af slíkum niðurstöðum og eftirliti. Rannsókna- og eftirlitsmiðstöðvar eru á hverju strái, ekki barasta í kynjafræði. Hverjar eru líkurnar á því að rekast á hval róandi á kæjak við Ísafjarðardjúp (þ. e. að þú eða Halur rekist á hval, má einnig vera öfugt!)? Hversu margar ferðir þyrfti Halur að róa t. a. eiga von á hvali? Hverjar eru líkurnar á því að Bíthóven fæðist aftur með fulla heyrn eða heyrnarlaus og litblindur? Færri hugsa til þess, að flestir snillingar andans og tónlistar hefðu aldrei fæðst ef genagreining í móðurkviði væri eða hefði verið stunduð og "úrvalið" aðeins með vegabréf á jörðu. Halur skilur ekki svona lagað, hann skilur lítið. Það ku vera fallegt í Kelduhverfinu á haustin, það getur Halur skrifað undir, án nokkurs eftirlits. Er leyfilegt að vera litblindur á haustliti? Hverjir skrá svoleiðis lagað?

fimmtudagur, september 08, 2005

Af sömu ástæðu

og umræðan um hátækni og kynjafræði endurtekur sig eins og síbylja (sumir segja að þetta sé síbylja - vafalaust) nægilega oft, þannig að of margir halda að í henni felist sannleikur, þá gildir hið sama um karla og kerlingar. Kerlingar vilja verða karlar og kerlingar vilja gera karla að kerlingum en ekki öfugt. Halur mun væntanlega setjast að í einhverjum eyðifirði innan e-a ára, ef ekki fyrr. Þar mun síbyljan ekki ná honum. Síbyljan er undarleg og síðasta sólarhring kom frænka hennar í heimsókn eins og um væri að ræða minningargrein um lifandi mann; gott að Halur er fráhverfur allri pólitík, það sér hann við yfirlestur fyrirsagna dagblaða, sem hann stöku sinnum rekst á í framhjáhlaupi, þegar hann gætir að veðurlýsingum og spám.

miðvikudagur, september 07, 2005

Hátækni

er afar þreytt orð, nærri eins og kynjafræði. Allt er hátækni eða skal verða hátækni. Í upphafi er hins vegar enginn munur á kynjunum, eða svo lætur nærri. Hvort þú eða hver sem er verði annað tveggja, karl eða kona er annað mál. Karlar eins og Halur eiga undir högg að sækja í nútímanum, enda með afbrigðum gamaldags og rótgrónir í nærbuxunum. Halur verður stundum fyrir aðkasti sökum þessa, en flestir sjá aumur á slíkum eymingjum og láta þá sigla. Halur hefir heyrt af vanda annarra svipaðs eðlis og það styrkir hann, þótt jafnvel nokkur misseri geti takið að fá fregnir af slíku með svo lélegum tengingum sem Halur býr yfir. Fátt geta karlar eins og Halur gert án vitneskju og afskipta Rannsókna- og eftirlitsmiðstöðvar í kynjafræði sem árvökul gjáir augum að Hali og hans líkum. Halur kvað í leyfisleysi miðstöðvarinnar þetta:

Fjaðrirnar voru fáar að reyta,
en fávíst var þeim að neita.
Því annars mín beið
þessi önnur leið:
mér aftur í konu að breyta.

Hálf-kynskiptaaðgerð gæti út af fyrir sig verið valkostur til íhugunar fyrir einhverja í svipaðri stöðu.

þriðjudagur, september 06, 2005

Kynjafræði

er hættuleg grein, en nú vandast málið; hvað er eiginlega kynjafræði? Þetta mun vera ung grein eftir því sem Halur kemst næst, en hann er eiginlega hvergi nærri þessu dæmi eins og unglingar segja. Fram hefir komið að sumir efast um kynferði sitt, jafnvel suðuramtsbrimlar ættaðir norður úr Íshafsfirði. Það er ekki skrítið að slíkt gerist þegar þeir sjá hvorki til sjávar né kvenna dögum saman. Karlar eru orðnir kerlingar, þeir gera núorðið allt er kerlingar gerðu áður, en ekki öfugt. Kynferði er einnig hálfgert vandræðaorð og mörg vandamál má rekja til orðsins. Halur kvað út í óvissuna:

Í hálfkæringi hugsana og vona,
Hali líður svona og svona;
hann fyrir sér veltir
og hraustlega geltir:
er helmingurinn kona?

Önnur útgáfan var þannig:

Í hálfkæringi hugsana og vona,
Hali líður svona og svona;
hann fyrir sér veltir
og hraustlega geltir:
er karlinn orðinn kona?

sunnudagur, september 04, 2005

Stampur

getur þýtt ýmislegt ef vel er að gáð. Halur var að fara með gamla borvél milli staða í Vinaminni og rakst þá á pappakassa með gömlum kortum og tungumálakverum á mismunandi málum fyrir einfalda. Í kassa þessum, segja má stampinum, rann upp fyrir honum ljós; hann minntist "heitustu" utanfarar sinnar á síðustu öld til Túnis. Þar sá hann m. a. El Djem, sem mun vera þriðja stærsta hringleikahús sem enn er uppistandandi. Þótt árin hafi liðið, þá man hann mæta vel (enda minnugur, sem er einn fárra kosta hans) er hringleikahúsið bar við sjóndeildarhringinn, nánast í eyðimörkinni sjálfri í þvílíkum hita, sem ekki er unnt að lýsa. Þetta var raunar eftirminnilegt mjög og nærri eins og gerst hafi í gær, þegar Halur bar þetta augum í skúrnum. Halur bindur vonir við að mörg ljós lifni við að nýju, sérlega er hann sá El Djem í huganum í hitanum, sólar- og hitastækjunni, sem aldrei var meiri síðustu 40 árin á svæði þessu. Hitinn fór mest um og yfir 52 gráður á Celsíus kvarða í skugga.

Rampurinn

er opinn alla daga, þessir eru að fara á eða í rampinn. Þetta er auðvitað sletta, en að sama skapi fellur hún vel að íslensku máli, fallbeygist vel og hljóðfallið er gott; minnir á orðin stampur, dampur og svampur svo nokkur séu nefnd í fljótu bragði. Nú er talsverð umferð unglinga hjá Vinaminni sem eru á leiðinni í rampinn og hljóðin þaðan berast víða, jafnvel í háborg vísinda nærri rampinum, hljóðið berst vel þangað sem og í berjamó ofan bæjarins. Yngri strákurinn í Vinaminni sagðist vera að fara í rampinn, jafnvel "Skate park" og þá vissi Halur það (með hjálp eins og annað enda tregur um margt) að um væri að ræða hjólabretta- og skautagarð sem nýopnaður er í bænum. Rampurinn er í sjálfu sér gott tökuorð, þótt Halur hafi eigi kannað uppruna þess nægilega til að segja meira um það að sinni. Önnur íslenskari orð eru sum hver ráðgáta og finnast jafnvel litlar sem engar heimildir um þau. Eitt þessara orða er heitið "steinsrass", en það er nafn á (samnefndum) þekktum veiðistað í landi Arnarvatns (Arnarvötnin eru reyndar fjögur) þar sem Eysteinn heitinn Sigurðsson átti heima numero quarto; hann var einn af "sprengjumönnunum" en þá bjuggu enn á Íslandi menn sem lifðu fyrir málstaðinn og höfðu hugsjónir sem eigi voru skammsýnar. Réttsýni hans var mikil. Steinsrassinn hefir gefið Hali marga góða urriða gegnum tíðina og fegurð staðarins mikil; það sá Halur best er hann skrapp að ánni með tæki til að mynda fugla og náttúru, engar stengur voru með í för enda veiðitímabilið búið þar. Steinsrassinn séður úr vestri, með fugla, hólma og fjallahring í baksýn, spegla og strengi þar sem fiskur tekur; það er sannarlega þess virði að berja hann augum.

laugardagur, september 03, 2005

Af heilindum

og góðum félagsskap verða allir menn betri. Halur er svo heppinn að stöku sinnum kemst hann í slíkan félagssakap þar sem þetta tvennt fer saman, jafnvel þótt hann eigi hann sjaldnast skilið, því fátt getur hann bætt um betur þar. Karlar eru taldir lokaðir og sérlunda, allt annað með konur. Þær eru ætíð að skrafa eitthvað og koma á festi. Karlar verða að konum er þeir fara til veiða, þar verða þeir eins og konur, þeir sleppa einhverju í fari sínu sem gerir þá að konum, skemmtilegri gjarnan, en á öllum reglum eru undantekningar. Samtímis halda þeir karlmennskunni. Þetta er skrítið.