fimmtudagur, janúar 26, 2006

"Rum Sodomy and the Lash"

er eitt af meistaraverkum Shane MacGowan sem lék í The Pogues, einni örfárra sveita sem tekist hefir að sameina arfleiðina með nýjungum. Eigi er vitað hversu mikið hann hefir drukkið af etanóli um dagana í mismunandi myndum eða styrk og enn síður hvar hann heldur til þessa stundina, nema ef væri nærri írskri krá. Hins vegar er ljóst að stundir þær, sem hann settist örlítið afsíðis með flöskuna og nóteraði lög og kvæði, verða að teljast vel lukkaðar. Shane MacGowan er sannarlega enginn meðalmaður. Greinilegt að sumir hafa átt stærri og meiri kvóta en aðrir.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Pappírslaust

umhverfi, pappírslaus viðskipti, rafræn kerfi alls konar eru málið í dag. Pappírsleysið er stöku sinnum erfitt í upphafi. Breytingin að fá eigi lengur í hendur þykkar möppur með upplýsingum hverju sinni, heldur þurfa að lesa allt af skjá, reynist nokkuð þungvinn nema hugarfarið sé gott; best er að hugsa til regnskóganna, en samt sem áður virðist pappírinn minnka lítið , a. m. k. sums staðar. Sennilega er betra að sitja framan við skjáinn og líta yfir e-ð sem máli skiptir fremur en að prenta út eða fara á fund. Það má vel sofa á fundum, þótt sumum finnist það leiðigjarnt; einnig má biðja um salernisleyfi eða segjast vera slæmur í maganum.

Eina herbergið eða stöðin, sem sennilega verður fyrst um sinn hvorki pappírs- né vatnslaus er salernisstöðin, salernið. Pappírslaus viðskipti á salerninu eru eigi langt á veg komin í Vinaminni enda vel yfir 200 rúllur á skúrnum sem bíða notkunar í viðskiptum við þarma- og þvagvegi.

mánudagur, janúar 23, 2006

Fundagleðin

hefur ekki náð fótfestu hjá Hali; nær væri að kalla hana ógleði. Í stað gömlu þunnu möppunnar sem fundameistarinn hafði meðferðis hefur komið fartölva með litskyggnum og svo miklum upplýsingum að fáir fylgja, nema þeir þekki efnið afturábak og áfram. Það eina sem getur bjargað fundi þar sem fleiri en tveir koma saman er það, ef fartölvan er biluð eða sem betra er, bilar á fundinum. Halur hélt einu sinni að fundir mættu standa í 30-40 mín., en er kominn á þá skoðun að hámarkstími teljist 10-15 mín., en það er sá tími sem tekur fundarmenn að mæta, þannig að best er að koma sér út þegar fundurinn hefst. Síðan eru það þessir sem "tala á fundinum, hafa orðið og með miklum þunga segja okkur frá því sem öllum var ljóst áður en fundurinn hófst". Þannig: fundir (flestir) eru þarflausir. Þessi skrif eru undir áhrifum frá húsfreyjunni í Vinaminni, sem hefur vakið áhuga Hals á alls kyns funda- og stjórnunarmálefnum!

föstudagur, janúar 20, 2006

Sannleikurinn, síðasta takan og sú mikilvægasta!

Sannleikurinn kemur stundum fram síðar ofan jarðar, en sumir halda. Fátt eitt gæti Halur í verk komið nema væri fyrir tilstuðlan húsfreyjunnar í Vinaminni. Hún hefir stundum verið að vesenast með þetta nám sitt og sérstaklega það, að lítið hafi nú út úr náminu komið. Því er til að svara, að þótt ekki væri nema fátt eitt af því fram tekið eða talið, sem Halur hefir lært af setu hennar í sölum þess skóla er rekinn er hér í bæ, þá hefir skólavistin borgað sig. Lítið dæmi er hugtakið "tímastjórnun". Það lærði Halur að tímastjórnun er lykillinn að farsæld í starfi (einn af nokkrum segja sumir, en hinir nýtast lítt ef enginn er tíminn aflögu). Skrif þessi eru möguleg sökum tímastjórnunar (nú má brosa). Þar sannast að velgengni ræðst ekki hvað síst af því, sem maður lærir af öðrum; sérstaklega húsfreyjunni og Halur væri hælismatur án hennar.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Sannleikurinn, taka þrjú

er óhjákvæmileg, þegar fylgst er með því sem gerist útí hinum stóra heimi, sem og meðal kvenna sem sálarlausar munu einhverjar vera, ef mark skal tekið á athugasemd ónefndrar baunar. Halur leggur til að stofnað verði að ráði baunarinnar félag sem bera skal heitið: "Hið íslenska hvekklausa (hrekklausa) kvenfélag". Þessi skrif styðja ennfremur skilning Hals á fremur fáu í raun, en ekki hvað síst því að oft er erfitt að skilja á milli karls og konu; hvort ertu karl eða kerling? Konur skulu þó varaðar við körlum sem segjast eigi hvekklausir, því margir þeirra eru með öllu getulausir, sem og hinir sem hvekklausir ganga milli garða. Stórir fiskar gefa ekki alltaf bestu átökin. Hver inntökuskilyrðin verða, veit Halur nú eigi, en fróðlegt væri að frétta af gangi mála.

föstudagur, janúar 13, 2006

Sannleikurinn, taka tvö

er næst á dagskrá. Halur var að væflast e-ð um jólin og rakst þar á eldri son (sinn) þeirra Vinaminnishjóna en sá var nýlega risinn úr rekkju enda brátt myrkur á ný úti við. Strákurinn kastaði þessari kveðju til Hals: "Maðurinn sem aldrei sefur!" Er einhver sannleikur í orðum þessum? Svefn er hins vegar fyrirbæri sem mannskepnan veit lítið að viti um þannig að það teljist áreiðanlegt, en öll vísindi eru í eðli sínu óáreiðanleg og unnt afsanna. Nota má orðið svefn um allt annað en hinn venjubundna svefn, svefn eða hvíld, það vita allir, en samt sem áður má deila um hversu mikla hvíld maðurinn hlýtur eftir svefninn. Svefn og draumar eru annað viðfangsefni sem Halur hefir stolist að lesa sér aðeins til um í kellíngabókum, en þar er sjaldan ein báran stök og versnar þegar kemur að (sálar) dulfræði svefnsins. Þvagfæralæknar segja að sálin sé í hvekk (blöðruhálskirtli) karla, en hvar hún leynist í konum er vart vitað, ef flett er í kverum. Það mál mætti betur kanna.

Sannleikurinn

reynist oft á tíðum lygilegur. Halur hefir nýlokið lestri bókar, sem mun vera skáldsaga og heitir "Flugdrekahlauparinn" eftir Khaled Hosseini og gerist að mestu í því stíðshrjáða landi Afganistan; mest vissi Halur lítið um land þetta fyrir lesturinn, en eftir á veit hann öllu meira þótt ekki nema lítið brot af því sem þar kemur fram, væri sannleikanum samkvæmt. Höfundinum tekst að koma til skila e-s konar fræðslu um hörmungar þessa lands, sem liggur þar nærri, hvar menningin var fóstruð í árdaga (ekki á Íslandi þótt halda mætti slíkt ef fjölmiðlar réðu hérlendir), sem og söguþræði er löngum heldur manni við efnið og persónum er hrífa eður ei með gjörðum sínum, handritið er í söguformi! Honum tekst að mestu að komast hjá "Lolly-wood" endi. Bókarkápan á íslensku útgáfunni er afbragðsgóð. Þegar hugsað er til sannleikans þá er rétt að hugsa til stofnfrumurannsakandans Hwang Woo-suk og stofnfrumukonunnar íslensku sem segist geta talað við stofnfrumur; hverju má eða skal trúa? Það skánar vart þegar fjallað er um styrjaldir eða hörmungar.

laugardagur, janúar 07, 2006

Komst

ekki á tónleikana í Höllinni (kaupi á netinu síðar vonandi), en frúin kom að sunnan og færði "fair trade" kaffi frá Ítalíu, sem þrátt fyrir allt er eina sanna kaffið (alhæfing- nei!), unnið með öðrum aðferðum en þetta hefðbundna. Bætti tónleikana upp með því að fá mér bolla af espressó og hlustaði á Dylan, "Blonde On Blonde" er sannarlega meistaraverk og ekki er hún síðri skífan "Time out of Mind", sama reyndar hvað það er með kallinum, hann hefur samið soddann haug af tón- og textasnilld í sinni grein! Ítalska aðferðin er að hita baunirnar við tiltölulega lágan hita (213 gráður í 13 mínútur). Þetta er öfugt við hina svo kölluðu "íslensk-amerísku" aðferð (en þar eru baunirnar fyrst forhitaðar og síðan brenndar við hærra hitastig). Þessa upplýsingar fengnar frá Einari í Kaffiboði. Kaffi er sitthvað eins og allt annað. Frúin lagði sannarlega talsvert á sig að ná í ítalska kaffipoka fyrir Hal, kanna til mjólkurflóunar fylgdi með í skottinu. Ótrúlegt hvað gert er fyrir Hal.

Fögnuður

ríkir í huga Hals þegar hann sér að sumir reyna enn að hindra náttúrueyðingu aldarinnar og þeirra sem á eftir koma (þetta hættir aldrei), því tónleikarnir í kvöld eru virkilega efnilegir hvað mótmæli varðar í ekki-lýðræðisríkinu Íslandi. Sjálfsagt væri eina leiðin að stöðva þetta að tala við Marv, hann er bæði góður og illur. Það er annars alltaf tími og tækifæri til að vera góður eða bæta sig, það hefur Halur séð í samskiptum við kettina tvo, sem sakna móður sinnar; Halur hefur reynt að strjúka þeim og hann Máni, fullur af góðmennsku, var í hamingjurúsi er Ísak tók hann uppá sína arma i morgunsárið, smá leikur og strok, það nægir. Þeir bíða hins vegar eftir móður sinni og allsherjar kattarfræðingi Vinaminnis, sem og aðrir heimafyrir. Það er alltaf fögnuður þegar húsfreyjan kemur heim, jafnvel eftir stutta fjarveru.

föstudagur, janúar 06, 2006

Nú er úr vöndu

að ráða eftir góðar ábendingar Æris í vísuformi neðan við síðustu skrif, sem eins og ætíð teljast ósiðleg að hluta. Farsælt veðurfar er eins og farsælt reðurfar, allra hagur og vont er að vita af reðurvana konum (karlmannslausum konum eða þannig!). Saman fara gjarnan veðursæld og reðursæld. Mörg eru veðrabrigðin sem önnur, ekki hvað síst á síðustu dögum. Vinur Hals hefir orðið vel var við erektílan stúpor í bænum, sem oft er verstur skömmu eftir áramót.

Halur kvað:
Varlega skaltu reður reisa
ella raunir og stúpor geysa.
Ég hafði fyrir satt
að eigi hafði kvatt

þín heilaga reðurkveisa.

Til að forðast misskilning, þá er allt efni síðunnar ritskoðað af biskupsstofu fyrir og eftir úthreinsun (prédikun).

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Plöggför

er gott mál. Endalaus gleði þessa daga, þessa fyrstu dagana á nýju ári. Enn meiri gleði, þar sem frúin í Vinaminni hefur loks látið til leiðast að láta sér eigi leiðast, heldur halda í plöggför til höfuðstaðar í suðuramti þar sem flestir þekkja leiðir nú til dags. Ekki það að henni geti leiðst mikið þótt Halur sé fjarri og ekki svo að skilja að henni leiðist heimavið, svona til að fyrirbyggja misskilning. Hins vegar hefur Halur áhyggjur af ferðum kvenna suður eða almennt hittingum þeirra að kveldi til; hvað veit Halur hvað þær eru að púkast með. Hann veit þó að þar sem tvær konur eða fleiri koma saman, þar er ekki haft vín um hönd eins og ef um karla væri að ræða. Hali finnst einnig að þær mættu kaupa sér meira af undirfötum, en það hafði gamall vinur ráðlagt honum að setja á blað.

Halur kvað:
Húsfreyjan úr hofi gekk
en Hali gerði engan skrekk;
en hvort meira hún keypti
klæði eða á veigum dreypti,
karlinn aldrei vita fékk.

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Nú stendur

yfir átakstíminn hjá löndum mínum eða vorum, allir þyrpast í æfingasali og léttast tímabundið á sál og líkama; það er gott, en framhaldið verra því fáir, alltof fáir halda áfram. Þannig eru margir, taka sér tak, gera átak. Það finnst meðal annars á því að þvaglyktin á hælinu er öðruvísi en venjulegast að mati Hals, sterkari og minnir meira á ammoníak. Það minnir Hal aftur á söguna af manninum sem sagðist verða miklu betri af astma og berkjuskít í 2 vikur eftir að hafa étið skötu, en það fylgdli ekki sögunni hvers vegna hann át eigi skötu alla mánuði ársins, kannski eins og með átakið og annað; kúrar eru bestir. Halur fann þó eigi mun á sér eftir skötunart á "Þoddllák" (nýíslenska) og pústar sig til hagsbóta fyrir lyfjaglæpafyrirtæki heimsins. Sama gildir um hitt þótt hann sé alla daga að lykta af þvagi og fái það jafnvel á sig, það breytir engu, hvorki magn né gæði.

mánudagur, janúar 02, 2006

Öfugt

við það sem margir halda, þá er Halur nýjungagjarn með afbrigðum eða það telur hann. Hann hefir byrjað árið með alls kyns nýbreytni eins og að ganga mót sólu, andstreymis, ganga ekki eftir sólarklukku, ganga þannig á nýjum stöðum er hann þekkir eigi og hefir forðast á stundum áður fyrr. Ganga á móti straumnum en þó með honum einnig. Á sama hátt mun hann reyna endurbætur á biluðu hugsanaverki, ekki gangverki, það er eitt af fáu sem virkar enn hjá honum flesta daga og hikstar eigi. Margt nýtt mun Halur reyna að reyna á nýja árinu ef almættið leyfir. Hann mælir einnig með því að menn bjóði sér sjálfir í kaffi og meðí ef því er að skipta, en Íslendingar (og þar með talinn sennilegast Halur), eru meira og minna búnir að taka upp ósiði annarra þjóða, þannig að hafa þarf margra daga eða vikna fyrirvara á því sem kallað er "heimboð" eða bara að kíkja í heimsókn!