fimmtudagur, mars 30, 2006

Hrein íslensk

leiðindi eru sitthvað. Halur er t. d. ágætt leiðindadæmi, karlpungur, stundum hálfgerð kellíng, jafnvel með kellíngabloggtilhneigingar, öfundsjúkur sjálfsagt, borðar All-Bran alla daga, hægðir í sama stíl, ekkert kemur á óvart hjá honum eða með hann. Dæmigerður úlpumaður með húfu. Halur er maðurinn, sem þú forðast og ferð hringinn þegar hann nálgast. Hann kann þó á ryksugu og getur sett í uppþvottavél, jafnvel tekið úr henni.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Tveir

menn, karlmenn, komu inn í litla búð sem er ein af fáum minjum kaupmannsins á horninu ekki alls fyrir löngu. Halur var í búðinni og með húfu. Þessir komu í taxa og voru í svörtum regnfrökkum, terlínbuxum annar en dením hinn, miðaldra og í meðallagi þéttir á velli, glaðlegir og litu í hillurnar. Þeir spurðu um tannbursta og tannkrem en vantaði einnig rakvél og jafnvel sápu. Þeir lyktuðu af spíra eða alkóhóli, þó ekki gífurlega. Nefstærð Hals er talsverð en einhverjar skemmdir samt þegar orðnar hvað lyktarskyn snertir finnst honum. Það er undantekning ef Halur rekst á slíka menn í dag, en þetta var algengara áður. Betra hefði verið ef almennileg kona (ekki Halur) hefði verið stödd í búðinni og tekið þessa tvo uppá sína arma eða jafnvel bara annan þeirra; því þurftu þeir á að halda. Hurfu síðan aftur í taxann og voru áfram glaðir. Þeir hættu hins vegar við að kaupa tannburstana þar eð tannkremið fékkst eigi; vildu kaupa allt í einu á sama staðnum. Halur hélt út á vit óvissunnar og vínleysisins. Hans beið tannbursti og tannkrem fyrir nóttina. Eins og sjá má af þessu, þá gerist ekkert hjá Hali sjálfum sem fréttnæmt má teljast, allir dagar án tíðinda. Halur hefði betur verið í drag þetta kvöld. Hann á t.d. grænan útivistarjakka sem væri ágætur drag-jakki heldur hann.

sunnudagur, mars 26, 2006

Vatn

er víða af skornum skammti. Það flaug í huga Hals er hann snæddi kvöldverð, hversu mikil gæfa það væri að eiga vatn í eða úr krana. "Vatn er vökva best" sagði vinur Hals á sínum tíma. Vatnið á Akureyri er frábrugðið vatninu sunnan heiða; í norðanvatni er mikið loft eins og sagt er enda norðlenskt vatn. Sunnanmenn hafa gert athugasemdir við vatnið í Vinaminni og varla viljað drekka það í fyrstu. Heita vatnið er einnig allt öðruvísi. Halur er í vafa hversu lengi hann nær að skrúfa frá krana eða drekka vatn úr læk í náttúrunni. Orsökin er virkjanastefna ekki-lýðræðisríkisins Íslands; það mun koma að því að vatn mun hætta að renna úr krönum landsmanna ef mið er tekið af virkjanbábiljustefnunni sem tröllríður norðansveitum, hvað þá austansveitum þegar. Vatn á Nýja-Sjálandi mun vera tært, það hefir Halur lesið í veiðilýsingum fremur en skyggnilýsingum.

föstudagur, mars 24, 2006

Syndaaflausn Hals

var fólgin í því að hlusta á "Chocolate Jesus" með T. Waits, kannski ekki hans þekktasti söngur eða dýpsti texti spúsunnar, en sætur Jesús er örugglega betri en ýmsir aðrir. Leynir á sér innan um hænur, hörpu, bassa og gítar að ógleymdum barka meistarans sem fáum líkist. Það sem meira er, þá er eldri sonur Vinaminnishjóna farinn að gjóa eyrunum að slætti Waits. Það hlýtur að vera á við fimm fermingar. Trúarskírskotun víða í tónum og tali.

fimmtudagur, mars 23, 2006

Jesús

Kristur er orðinn bankastjóri í Landsbankanum; ekki er annað að sjá á netauglýsingum bankans. Kemur þetta Hali eigi á óvart þar sem fermingin er orðin eitthvað sem enginn veit; varla neinu skárri á ungdómsárum Hals, það er öruggt. Ferming þýðir staðfesting, en þar staðfestir "barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni". Halur telur víða framkvæmd mannréttindabrot, en ferming á þeim aldri sem á Íslandi er viðhöfð, er lítið annað en mannréttindabrot í eiginlegri merkingu. Það er ekkert nýtt að kirkjan skuli fremja slíka glæpi. Halur styður þó öll góðverk (góð verk) og boðskapurinn er margur hver mannbætandi.

"Trúarstaðfestingarfjármagnsfjárfestingarhlutabréfainnlagnarupphæðartalningarlota" nefnir Halur ferminguna, en fyrir þetta fær hann sjálfsagt skammir í húfu eins og svo margt annað. Hann mun því eigi aðhafast neitt frekar þessu tengt. Viðbót, letur minnkað í samræmi við innihaldið.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Skagafjörður

er ætíð tilefni vangaveltna. Halur hefir alla tíð verið hugsi (hugsa sér) yfir heitinu Blönduhlíð í Skagafirði og hví nafnið væri ekki betur sett í Húnaþingi. Blönduhlíðin er iðulaga afar falleg þegar farið er um Skagafjörð og oft hefur Halur verið hugsi yfir Örlygsstaðabardaga sem háður var árið 1238 í ágústmánuði þann 21ta. Þar voru þrjár voldugustu ættir landsins á þeim tíma á vígvellinum, Sturlungar fóru halloka. Þegar komið er úr vestri nærri Víðivöllum og áður en komið er að Miklabæ, má sjá skál milli tveggja fjalla í hlíðinni, eiginlegt leiksvið sem er hálfhringur, nærri dreginn með sirkli ef vel er að gáð. Þetta eru hálfgerðar dyr, dyr til þeirra sem hurfu í kjölfar Örlygsstaðabardaga hugsar Halur sér. Þær loka sér þegar farið er austar.

sunnudagur, mars 19, 2006

Ýmissa grasa

kennir í skýli því er hýsir m. a. frúarbílinn í Vinaminni. Margt hefir bæst við í vetur og margt er unnt að gera í skýlinu eins og herskýlunum forðum, með eða án skýlu. Nú er mögulegt að fara í bað, jafnvel með nuddi, láta sprauta á sig köldu eða heitu vatni, háþrýstiþvottur á erfiða og leynda staði getur hjálpað enda tiltækur í skýlinu. Ómlist, tónlist, hljómlist, lifandi eða úr tækjum er á staðnum. Síðasta undratækið sem kom í skýlið er skoðunarbekkur kvenna sem liggur í vari neðan skíðafestinganna, nærri skíðaskónum og stöfunum. Þannig að litlu er við þetta að bæta og aðeins ímyndunaraflið sem setur þeim skorður er í skýlið fara.

föstudagur, mars 17, 2006

Forlagatrú

er mörgum töm og Halur telur að hún sé langt því frá gengin til feðra sinna þótt meira hafi verið um hana fjallað á öldum áður. Örlagatrú, forlagatrú. Halur hefur til ráðstöfunar 35 cm breiðan og 190 cm háan skáp á fjórðungshælinu, þar sem hann getur kastað af sér þyngri klæðum og farið í léttari. Nokkuð ryk var í botni en auk þess var krónumynt í hæ. neðra horninu. Skápurinn var þrifinn af þeim sem betur kunna, en viðkomandi tjáði Hali skömmu síðar að krónan hefði verið skilin eftir á hillu í skápnum. Svo fór að Halur tók krónuna og kom henni fyrir í hæ. neðra horninu. Þar mun hún sjálfsagt safna einhverri ávöxtun í formi ryks.

miðvikudagur, mars 15, 2006

Umhverfisstefna

er skrítið fyrirbæri. Halur reynir að vera vist- og umhverfisvænn eins og honum er framast unnt, en sumt skilur hann ekki, kannski margt þó heldur. Það fást ekki enn umhverfisvænar bifreiðar sem eru 4x4 nema í verðflokki utan alfaraleiðar, svipað gildir um hinar. Halur byrjaði að hjóla í dag á þessum vetri enda tíðarfar einstakt og birta þegar að morgni. Tók DBS reiðskjóta út í gær, pumpaði í dekkin, athugaði bremsurnar og allt sýndist í lagi síðan í fyrrahaust. Stór hluti hverrar borgar er heltekinn umferðarmannvirkjum, brýr, krossar, 2-4 faldar akreinar í allar áttir, ljós og merki en samt eru 30 km skiltin spöruð í íbúðahverfum. Það er undarlegt að þessir er aka vilja ætíð stystu leið, vilja fá tengingar milli hverfa eins og á Akureyri, jafnvel á skólalóðum grunnskóla, skuli yfir höfuð hafa einhvern hljómgrunn. Hvers konar byggðarlag er það þar sem tengibrautir hafa forgang fyrir þá sem telja sig þurfa að komast innanbæjar í smábæ eins og Akureyri innan 3-5 mín. í stað 5-8 mín. eða álíka? Halur veit það alls ekki. Hvernig má það vera að slík stefna hafi yfir höfuð einhvern málssvara í dag, en ef Halur horfir í kringum sig, þá er það augljóst þar sem meirihluti fer milli staða í bifreiðum þar sem annað hvort má hjóla eða nota tvo jafnfljóta. Ekki batnar það með stóriðjunni; hvers konar orðskrípi er það eiginlega?

miðvikudagur, mars 08, 2006

Einn er sá lundur

sem geymir eða hýsir fólk af ýmsu tagi. Lundurinn er staðsettur innan gamallrar, fyrrum kaupfélagsbúðar á Akureyri. Þarna er fólk sem flust hefir búferlum, fólk sem áður bjó í sveitum en býr nú á mölinni, fólk sem komið er á ellilaun (ef það þá hefir einhver), fólk sem fæst er að spá í hlutabréf eða ríkidæmi fjárhagslegt ef skönnun Hals er rétt. Þarna eru bæði karlar og konur og þarna má lesa dagblöð, spjalla og fá sér að borða, eiginlega gera hvað sem er. Raunveruleg félagsmiðstöð á gömlum grunni kaupfélagsins sem er farið, horfið. Þessi lundur heitir Hrísalundur.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Ellin

er merkilegt fyrirbæri; því fylgir alltaf ánægja að hitta aldrað fólk, fólk sem segir margt í fáum orðum og þegir og hlustar, öfugt við Hal. Það eru forréttindi að hitta aldraða alla daga meira og minna í starfi og leik. Aldraðir eru sérstakir og aldraðir flugmenn einnig. Eitt sinn lært að fljúgja og þá kann maður það þar til yfir líkur. Spitfire vélin fræga og fallega er klassísk að öllu leiti og henni flaug tíræður Breti í tilefni afmælisins, en vélin ku vera á svipuðu reki og flugmaðurinn. Þannig sjá allir í hendi sér að aldraðir hlutir jafnt sem einstaklingar eru nokkuð til að taka eftir og bera virðingu fyrir. Að læra að fljúga er svipað sennilegast og það að læra að veiða; alltaf jafn ánægjulegt á meðan það er mögulegt.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Íslandssagan

er meira og minna full af alls kyns skeiðum; hlýinda- og kuldaskeið eru flestum kunn, en nú hefir hafist glænýtt skeið í sögu ekki-lýðveldisins. Skeið þetta er öðrum frábrugðið á margan hátt enda tilbúið eða stjórnað af manninum sjálfum, en eins og allir vita þá stjórnar maðurinn sjálfum sér fyrr eða síðar til glötunar. Náttúran getur vel án mannsins verið. Hið nýja skeið má nefna álskeið (sbr. gullskeið í munni), skeið úr áli; hvernig skeið skyldi það nú vera? Skeið, skeiðönd, önd sem ber flensu eða hvað? Fágæt hérlendis reyndar. Brátt mun sauðfé landsins ganga meðfram álhýsum og getur þá speglað sig í álspegli. Ál munu fiskar borða í vötnum og ám þar sem áður voru hús í vík. Álgöng er nærri samheiti við álskeið. Bráðum verða álgöng víða. Halur hefir einungis áhyggjur af því að ekki fáist rafmagn í heimahús til að knýja áfram nýjung nokkra, sem er USB kælimotta fyrir drykkina.