fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Sennilega

er veiðitímabilinu lokið í bili hjá Hali og er minnisstæðast sökum þess að þetta er eða var fyrsta árið þar sem öllum "lifandi" fiski er á land kom var sleppt eða svo gott sem; tveir veiddir og gefnir veiðifélaga nýverið og einn tekinn til uppstoppunar. Það var gaman að koma við hjá Halla uppstoppara á Akureyri í dag, en ferð sú var farin fyrir algjöra tilviljun með taumefni sem nota skyldi við verkið. Viti menn, er Halur kom þar inn sem verkstæðið stendur, hélt sjálfur meistarinn á fiski sem Hali þótti helst til kunnugur. Var þetta þá sjálf 8,6 punda hrygnan er Halur dró á land neðst á "Hagatánni" fyrr í sumar og ákvað að gaman væri að ylja sér við á vetrarkvöldum ofan við hnýtingarborðið eða annars staðar innan Vinaminnis. Stutt, þykk og falleg en viss tregi í hjarta veiðimanns að drepa fiskinn sem reyndar var hálf-dauður er á land kom vegna slýs á taumi sem lagðist fyrir kjaft og kæfði nærri. Það hefði verið gegn lögmálinu að sleppa slíkum fiski. Því má við bæta að góður gestur kom við í Vinaminni nýverið og náði að létta aðeins á "koníaksbirgðum" Vinaminnis eftir að hafa verið við veiðar í Mývatnssveitinni nokkru áður. Halur hefur aldrei verið mikill koníaksmaður enda fyrst og fremst verið með slíkar veigar í geymslu fyrir gesti og gangandi. Einstaka sinnum stelst einhver í birgðirnar. En ánægjulegt var að sjá fiskinn á vinnslustiginu og tilhlökkun Hals talsverð að fá hann í hendur; óskin var að eiga einn fisk úr uppáhaldsánni og hann er kominn eða svo gott sem.

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Breytingar

ganga sums staðar hægt og annars staðar vart eða ekki. Þannig er það þegar unnið er í heilbrigðiskerfinu. Hali var bent á það fyrir skömmu að þar gæti kannski einhver dáið; það mundi kalla á breytingar. Kannski er það rétt. Svipað og í fótboltanum, einhver þarf að meiðast til að "næsti maður komist inn". Sennilega best að skreppa á skíði.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Græn

litarafbrigði verða að teljast með hinum fegurstu í náttúrunni, fjölbreytt með afbrigðum að sumri til á Íslandi. Nokkur slík sá Halur í Fnjóskadal fyrir skömmu og auðvelt að hrífast, stöðva bílinn eða annað og horfa. Erfitt að ná ágætum ljósmyndum (nema bíða og bíða) og það var reyndar eigi gert (nema með auganu og minnisbanka innra). Við hin síbreytilegu birtuskilyrði sem á landinu eru, má mæla með því að taka afleggjarann til vinstri (malarvegur) rétt þegar ekið er austur yfir Fnjóskárbrúna við Vaglaskóg. Margir grænir litir bera brátt við augu og sem sagt rétt að bíða eftir réttu birtunni. Það er ennfremur talsverður búskapur þarna og á einu skiltinu við veginn stendur svo lesa má janvel fyrir litblinda (e-ð á þá leið): "Hestar ekki leyfðir". Svo mörg voru þau orð. Merkilegt að litblindur maður eins og Halur haldi upp á græna litinn með alla sína rauð-grænu litblindu.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Margt

má læra af frændum eða nágrönnum hverjir sem þeir nú eru þrátt fyrir allt; margt heldur margur halur sig kunna. Altalað er hversu mikil mengun er víða í Rússlandi hinu forna, slíkt stendur í blöðum og sumt af því er sannarlega rétt, það hefir Halur sjálfur séð í ferðum austur þangað, þ.e.a.s. á Kólaskagann. Hitt má og skal einnig fram koma að sóðaskapur er víða mikill hér á landi "tærleikans". Skítur það skökku við að sjá sígarettustubba víða ásamt bjórdósum við margar ár á Íslandi sem og gönguleiðir, bílastæði, sums staðar betra en annars staðar eins og alltaf. Það kom því skemmtilega á óvart í síðustu ferðinni á Kóla að sjá hversu þrifnir Rússarnir voru, feðgarnir þrír; nóg reyktu þeir synirnir og alls staðar en gerðu hins vegar hitt að safna stubbum í lítil vindlabox, dömuvindlabox. Tóku stubbana með sér en skildu eigi eftir. Þetta mættu margir sér til fyrirmyndar taka. Fyrir utan gömul skriðdrekaspor voru engin merki um eitt né neitt sem minnti á mengun eða ferðir manna. Þetta voru svona fréttir af manni sem er þekktastur fyrir að kenna öðrum en hvað gerir hann sjálfur!? Dauðablogg.

fimmtudagur, ágúst 09, 2007

Ævintýrin

eru oft nærri en maður heldur. Lengi hafði Halur haft hug á því að ganga að eða nálægt Hraunsvatni í Öxnadal, og þá frá Hrauni enda talsverður andlegur skyldleiki við Jónas Hallgrímsson (nú mega allir brosa). Svo fór að húsfreyjan rak Hal af stað einn góðviðrisdag um hina hörmulega ömurlegu verslunarmannahelgi (sama hvort maður telji sig með eða á móti 18 ára aldurshópi) og sem sagt frá Hrauni. Leið þessi verður að flokkast með þeim fegurstu og skemmtilegustu sem Halur hefir skroppið á tveimur mis-jafnfljótum og það ekki lengri en 2,6 km. Nálægðin við skáldið og náttúrufræðinginn greinileg (ímyndun Hals!) og sérlega er Hraundrangi stóð næstur en hann var látinn bíða sökum tímaleysis. Mikilvægt að komast eða fara sem næst honum. "Þar sem háir hólar......" eru og ekki oft sem Halur gengur á ljóðum eða kveðskap. Þeir munu hafa myndast þegar fjallið fyrir ofan Hraun féll fram þannig að eftir stóðu Hraundrangarnir. Þetta var tóm dýrð og endaði síðan í matardýrð að Hálsi á Halastjörnunni þar sem stúlkur reiddu fram ágætis kvöldverð og vatn drukkið með. Leiðin sú frá vatni að Hálsi er ekki nema hálfdrættingur á við hina efri frá Hrauni. Það er áreiðanlegt svar. Þarna er ágætt að nota göngustafi sökum hallans og mismunandi jarðvegs.

Ævintýri á gönguför.