sunnudagur, ágúst 08, 2004

Verndun dýrastofna

Í dag fór ég með Ísaki syni mínum að skoða skútu IFAW sem lá við bryggju á Akureyri í blíðskaparveðri. Skútan er glæný stálskúta, 70 fet að lengd og mastrið 26 m ef ég man rétt sem er engin smáhæð. Hún er búin ýmsum sértækum tólum t. a. fylgjast með ferli hvala í höfunum og þá einnig umhverfis Ísland. Það væri áreiðanlega vel gert að styðja slík samtök ef tryggt er að þau væru ekki athvarf iðjulausra fyrirmanna, konunga og prinsa, eins og sum eru reyndar; ég hygg að þessu séu það ekki og veitir víst ekki af að styðja verndun dýrastofna og hindra ómanneskjulegar tilhneigingar í garð dýra. Nýlega voru fregnir af "hálfgerðum" kattadrápum hérlendis í stórum stíl. Íslendingar hafa í gegnum tíðina drepið allt sem hreyfist, það hefur lítið breyst og hver getur varið dráp eins manns á 100-200 gæsum eða 50 löxum eða silungi á e-m dagsparti eða degi, hreykt sér af slíkri veiði og látið mynda sig fyrir blöð og tímarit. Sjálfur styð ég dráp til hóflegrar neyslu. Ef Íslendingar væru fleiri en reyndin er, þá væru sennilega fáir skotfuglar á himni eða fiskar í ám og vötnum. Það er einnig merkilegt að fylgjast með umræðu um hvalkjöt, kjöt sem var kreppukjöt í mínu ungdæmi.

Þessi dagur fer ekki í sögubækurnar sökum dugnaðar, en suma daga er gott að gera lítið, hafa ekkert fyrir stafni, lesa útí garði, horfa á síamskettina Mána og Birtu, en kattardýr hef ég ætíð öfundað svolítið af byggingarlaginu og fiminni; konan mín líkist ketti hvað þetta varðar en sjálfur er ég líkari trjádrumb sem hreyfist en beygist ekki. Listinn yfir ógerða hluti er þó ennþá alltof langur en margar útgáfur hafa verið skrifaðar af honum í sumar.

Gardínurnar koma vel út í kjallaranum og rétt sem konan segir hvað varðar biðtíma eftir öðrum gardínum, best að klára þetta strax. Hún bakaði rababarapæ með síðdegiskaffinu, sem var gott, rababarinn úr garðinum og ég sá að brokkólíið fer stækkandi, einnig kálið og jarðarberjaplönturnar dafna vel og líklegt að ég rækti meira næsta sumar.

Í lokin má nefna að bestu skrif mín lengi þurrkuðust óvart út í gær og var þar engum um að kenna nema tækninni sem er hverful. Tók nokkrar stafrænar myndir í dag af grasi og e-u álíka auk skútunnar sem skoðuð var eftir hádegið.

Þessi texti er skrifaður þannig að allir sjái að ég kann enn að skrifa venjulegan stíl þar sem ekkert kemur á óvart eða neinum stílbrögðum var beitt, engar gátur innanborðs.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home