laugardagur, apríl 26, 2008

"Gulli betri"

-já, Gulli betri eða hugsanlega gulli betri. Hitti Gulla síðdegis í fermingarveislu, þeirri fyrstu sem Halur hefir í farið árum saman, já hann Gulli er ekkert blávatn. Einhverjir kannski farnir að þreytast á honum en hann er með hluta gömlu snilligáfunnar innan borðs, sem sagt ljóðmælin, frásagnargáfuna; það var þegar talað mál eða ritað var það sem miklu (mestu) skipti. Hann bað auðvitað að heilsa Guðjóni bróður, sem minnti hann á það er hann sjálfur mundi ekki eða gleymdi (og það gat verið margt). Það sagði Hali maður fyrir nokkru sögur af Gulla áður en hann veiktist; hann var ekki venjulegur maður. Ennfremur góðmennskan uppmáluð. "Gleðstu yfir góðum degi, gleymdu því sem miður fer" var eitt af því sem Halur mundi rétt af því sem hann fór með síðdegis; höfundur hinn gleymdi Heiðrekur frá Sandi; mann þann sá Halur á sínum tíma norðan heiða eins og nokkra aðra frá Sandi síðar. Gulli hefir að manni sýnist farið eftir einhverjum álíka linum í lífinu. Hann Gulli frá Hraukbæ er sko enginn venjulegur maður og orðinn 75 ára síðan í fyrra. Hann ætlaði að skrifa bóndanum í Bjarmalandi nokkrar línur.

föstudagur, apríl 04, 2008

Sumt er algengt

verður eða telst, verður á stundum "verðlaust" í eiginlegri merkingu og þá í hróplegri mótsögn við óskir eigenda. Einu sinni var fínt að eiga útlenska bjórdós, jafnvel kókdós. Á Íslandi hefir hönnunaræðið gefið Hali tilefni til slíkra vangaveltna; einnig kaup á bensín- eða díselfákum. Það að aka framhjá Arnarnesinu og sjá fúnkíshús með tveimur reinsróverum svörtum utan dyra (kannski þeir séu einnig í stofunni) er svipað og sturta niður úr salerninu og þá sama hvort harðlífi eða skita sé þar á ferð. Svipað og verra eru nýju íslensku "skurðstofueldhúsin", jú, Halur nefnir þau nafni því þar sem þau minna á skurðstofu að flestu leiti og í leiðinni dauð hönnun, dautt fyrirbæri. Þó ef væri ekki nema ein sveigja, þá litu sum hver skár út. Hvað þá rispa eða ójafna. Ekki batnar það þegar sömu "inn"-húsgögnin eru alls staðar nema hvað!? Sjálfsagt sígild sum hver á sinn hátt en þola ekki meir. Það er hins vegar til einskis að deila um smekk.

föstudagur, mars 28, 2008

Ágætar

fréttir af klakanum milli þess sem hrærigrautur svartsýnis og myrkurs grúfir yfir "íslenska undrinu" eru nauðsynlegar. Bob kemur í maí. Það er ekki til neins að deila um smekk, en hann er lifandi goðsögn að mörgu leiti og aldurinn farið vel með'ann; frétti í gær af tónleikum sem einn kunningi í Skagafirði fór á í Danaveldi f. 1-2 árum; bjóst ekki við neinu af gamla manninum en fullt stuð í 2 klukkustundir hið minnsta. Ekkert annað en skyldumæting, enda reddaði "eini vinur Hals" miða. Hafi hann þakkir ágætar fyrir en í staðinn verður það lagt á hann að fylgja Hali suður eftir. Bob hljómar undir skrifum þessum. För í Skagafjörð í vikunni hressti Hal mjög að sumu leiti þar eð hann hitti að minnsta kosti einn órigínal bónda úr Húnaþingi sem m.a. notaði orðið "allavega" á sama gamla hátt og Halur gerir, það er sjaldan að Halur verði vitni að slíku og öðru eins. Hann var með heimasmíðaðan staf, gerðan úr járnstöng og þungur mjög, hálfgerður atgeir. Halur spurði hvort ekki mætti lemja eitt og annað með stafnum og bóndi svaraði að nýlega hefði hundshelvítið verið með mink í kjaftinum en eigi við ráðið. Tók hann þá stafinn og lamdi með einu höggi í hel minkinn og sagði: "Þolir ekki mikið þótt grimmt væri" og undir það síðasta þegar Halur var að nótera hjá sér: "Mikið skal skrifað um skoffínið". Svo mörg voru þau orð en gott hefði verið að ræða við bónda a.m.k. (í dag segja flestir allavega í staðinn) í 2 klukkustundir; eigi var tími til þessa þá stundina, því miður. En Bob kemur.

fimmtudagur, mars 20, 2008

Stundum næst

betri árangur með því að eyða lengri tíma í eitthvað; besta dæmið sem upp í hugann kemur er auðvitað kaffilögun. Eftir að Halur fór að drekka eingöngu kaffi sem hann malar sjálfur í eigin malara og þjappar hæfilega áður en kaffið er sett í handfangið sem aftur er sett undir sturtuhausinn, þá hafa opnast nýjar víddir. Ókosturinn reyndar sá að hann drekkur ekki eða varla kaffi annars staðar en heima; iðulega gerir hann ráðstafanir (aðeins ýkt) til að laumast í einn bolla milli annarra verka eða áætlana. Loks er það sjálft kaffið, en allir eiga sína uppáhaldstegund. Leitinni er löngu lokið hjá Hali; hann drekkur aðeins og hefir gert á þriðja ár kaffi frá Ítalíu, kaffi frá Caffe Ottolina og hann mælir sérstaklega með kaffi þaðan, það er einstakt, unnið eftir ítölsku aðferðinni. Og fæst meira að segja á Akureyri! Að drekka bolla af heimalöguðu espressó er ekki ólíkt því að hafa landað (og síðan sleppt) sterkum urriða á litla flugustöng; það er ekki stærðin, aðeins gæðin er máli skipta.

Ekki næst alltaf

betri árangur með því að eyða minni tíma í einhvern ákveðinn hlut eða starf, verkefni eða hvað eina sem hver og einn vill nefna. Halur hefir lengi verið þeirrar skoðunar að mikið af því sem gert er, megi gera öðruvísi, á annan hátt, sérstaklega þó hraðar, á skjótvirkari hátt. Stundum tekst það, stundum ekki. Mýmörg dæmi má nefna eins og fundasetur, fundastjórn (-leysi), drepa mann lifandi með illa undirbúnum, óþörfum fundi, margmennum fundi, drepa með löngu erindi, fyrirlestri (efnið löngu tæmt), mörg er sú vitleysan og misjöfn. Halur hefir þjálfað sig í mörgum verkum á þann hátt að þau má gera betur en samt hraðar, en áður. Lítið dæmi er tími sá er hann eyðir eða notar til leikfimiæfinga, hlaupaæfinga, styrktaræfinga og álíka. Hann hefir það vel skráð að árangurinn hefir aðeins aukist, batnað, þrátt fyrir að skemmri tíma sé varið til þjálfunar. Sem sagt gamla skynsemin að nýta þann tíma sem aflögu er eins vel og kostur er. Loks koma upp atvik þar sem eyða skal lengri tíma en ella til að njóta; það er allt önnur saga.

sunnudagur, mars 16, 2008

Eitt fárra

norðlenskra fyrirtækja, já norðlenskra, sem ennþá eru ofan moldar er Skíðaþjónustan. Hú hefir lifað af í ölduróti verslana og fyrirtækja norðan heiða. Oftast opin, þjónustan þægileg, selja reyndar helst það sem "flestir þurfa", minna eða ekkert af öðru, geta þó pantað, unnt að skipta út gömlu fyrir nýtt eða nýrra eða stærra, mörg börn hafa vaxið upp með slíku. Auðvitað geta allir hafa álit á Skíðaþjónustuni, en hinu verður ekki neitað að hún verður að teljast nokkuð einstök í sinni röð, hvort heldur innanlands eða utan. Og hver væri nú staðan ef engin væri Skíðaþjónustan norðan heiða?

sunnudagur, mars 09, 2008

Tungumálið

er skemmtilegt mál, viðfangsefni. Sérlega ýmis samsett orð, einnig venjur varðandi eignarfallsendingar, allir þekkja slíkt mætavel. Ætíð ánægja samfara því að sjá eða heyra orðið ástarpungur yfir bakkelsi af ódýrari tegundinni (nema ef keypt skyldi í bakaríi á Íslandi). Skiptingar orða sem samsett eru gefa marga möguleika á skilningi jafnt sem misskilningi. Lítum t.d. á orðin "heimsendir" og "heimsenda". Í útvarpi mátti heyra "munið heim-senda atkvæðaseðla" eða voru það "heims-enda atkvæðaseðlar"? Átti að greiða atkvæði með heim-sendum seðlum ellegar um heims-enda? Raunveruleiki og skáldskapur ruglar iðulega reitum, ekki síst á Íslandi. Heimsendaspá vofir yfir landinu ef mið er tekið af lestri opinberra gangna. Sjálfsagt er það engin nýlunda.

sunnudagur, mars 02, 2008

Opnast

nú brátt nýr heimur, heimur geisladiskasafnsins, sem taka skal hendinni í vegna breytinga í innra rými Vinaminnis; mörg hljóðkorn munu þar leynast og gleðja næstu daga og vikur. Það er nefnilega svo að nálgun tónlistarefnis á hörðu formi (vínýll eða CD) hér á Akureyri er svona eins og fyrir basilíkumelskandi mann/kokk að notast við þurrkað í stað fersks; það vantar bókstaflega allt sem máli skiptir, sérlega ferskleikann, annað en það sem "vinsældra nýtur á klakanum". Auðvitað bjargar netið Hali, en tilfinningin gamla að að fara í búð og kaupa plötu er ævilöng gleði eða eign. Svipað er að horfa á snjóinn í Fjallinu, en ekki getað rennt sér á skíðum þar sem hann er! Komast í snertingu við efnið, snjóinn, basilíkum eða annað, upplifa hlutinn sem sagt. Enda er lífið of stutt fyrir lélega og leiðinlega tónlist. Hvað þá þegar mónóblokkirnar eru skrúfaðar upp; þá er gaman. Hvernig skyldu þær hljóma með vínýlnum?