sunnudagur, maí 27, 2007

Síðasta

krotið á síðu þessa í bili (og kannski alveg, ekki hótun!) tengist starfsheitum fólks; hversu mikils virði þau eru hverjum og einum. Halur sá andlátsfregn um gamlan mann sem var titlaður bréfberi. Koma þá í hugann breytingar þær sem orðið hafa á þjóðfélaginu síðustu áratugina eða 100 árin skulum vér segja. Algengara verður að dæma og fjalla um fólk eftir eignum og fjárhagstengdu hátterni eða möguleikum, en eigi getu eða viðhorfi; Halur mun halda áfram að reyna að bæta sig með því að breyta rétt og hugsa öðruvísi þegar það á við. Verður það að teljast fullt starf fyrir hann eins og hjá bréfberanum forðum að koma bréfum og pósti, bæja, húsa, sveita á milli.

föstudagur, maí 25, 2007

Kona ein

sem gift er náfrænda Hals á nokkuð sem hún segir vera ástarhreiður og margar konur öfundi hana af. Sú hin sama hefur skipt um nærbuxur í eldhúsi í Reykjavík hjá frænda eiginmannsins. Nærbuxurnur fóru víst ekki í uppþvottavélina. Þetta var fyrir hádegið. Halur spyr því hvort rétt geti talist fyrir hann að koma sér upp ástarhreiðri eða annesíu á lóðinni? Hverju gæti það skilað? Þeir eða þær sem koma í Vinaminni mega hvenær sem er skipta um nærbuxur, auðvelt er að fara í búrið ef menn vilja vera út af fyrir sig en það skiptir væntanlega fáa máli. Svo eru einhverjir oftast nærbuxnalausir.

fimmtudagur, maí 24, 2007

Eitt athyglisverðasta

málið sem fyrir augu Hals hefur borið undanfarið er hið s.k. "gjaldeyriskaupa- og sölumál bræðra á Akureyri hjá Glitni". Öðruvísi mér áður brá. Dómgreind, dómgreindarleysi, siðvitund, ásetningur, hagnaður, lögbrot, siðlaust, löglegt, ólöglegt, allt í lagi, eðlilegt, óeðlilegt. Fleira kemur upp í hugann, en sleppum því. Mál þetta er eða verður að teljast einn besti mælikvarðinn sem lengi hefur skotið upp kollinum varðandi siðferði banka og það frá mörgum hliðum. Í fyrstu má spyrja hvers vegna bankinn fór ekki strax í upphafi fram á það að ná sátt í málinu. Hverjir hafa hagnast á viðskiptum við banka á Íslandi af þeim sem kalla má "almenningur"? Það verður áhugavert að sjá hvernig málarekstur þessi endar, endar með ósköpum sjálfsagt. Halur sá ágætt innskot um efnið á bloggsíðu sem var þannig: "Hvaða munur er á að stofna banka og ræna banka?" Þetta mun Makki hnífur hafa sagt í Túskildingsóperunni eftir B. Brecht.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Ekki

mátti Halur við því að uppgötva fleiri hættur í umferðinni en þegar eru, en því miður hefur hann í nokkur skipti sannreynt hættuna sem er afar varasöm. Hættan sem um ræðir tengist fólki er gengur eða hjólar um götur bæjarins með hlustpíputól, hljómtól í eyrunum, gengur eða hjólar sem sagt, heyrir ekki flaut né köll, jafnvel þótt stórir trukkar aki nærri, ganga þvert á umferðavenjur og hvar sem er yfir götur og annað, gá ekki að sér, lifa í eigin hljómheimi, sem er auðvitað ágætt nema nærri umferðinni. Halur hefur bæði lent í þessu á hjóli og akandi ensku landbúnaðarfarartæki, sem þrátt fyrir að vera lipurt á allan hátt og veitir góða yfirsýn, með svolítinn hljómgrunn í umhverfið, varð t.d. nokkuð tæpur fyrripartinn er ung blómarós gekk á ská fyrir farartækið og leit sí svona við eða til baka á Hal þegar yfir götuna var komið; það vildi svo vel til að Halur er hægfara maður í bifreiðinni, gat hemlað í öðru veldi og varð það stúlkunni til happs. Landbúnaðartækið hefði eigi hlíft stúlkunni ef á hefði lent. Það er hins vegar ótrúlegt en auðvelt að skilja hversu margir ganga með hljóm í eyrum alla daga, það sést vel í púlstöðinni við sjóinn. Þögnin verður æ eftirsóttari.

sunnudagur, maí 20, 2007

Undarlegt

að sjá hvernig heilu byggðarlögin eru að falla í sjó fram fyrir vestan, ekki af völdum náttúruhamfara heldur eru orsakir aðrar og öllum kunnar. Skrítið að sjá Flateyri verða næsta á dagskrá, en þar vann Halur þegar hann var ungur, myrkra á milli, þar var næga vinnu og fisk að hafa alla daga eins og víða fyrir vestan. Útlendingar voru byrjaðir að vinna á þessum árum í sjávarþorpum, pólskir og ástralskir á sínum tíma og einnig frá öðrum löndum, nær og fjær. Út af fyrir sig má það teljast allnokkuð kraftaverk að Flateyringar skuli hafa haldið út svo lengi eftir síðustu náttúruhamfarir. Þeir ráða þó ekki við lýðræðisríkið Ísland og stjórnun fiskveiða sem sett var á laggirnar á þeim tíma er menn gáðu ekki að sér, nema örfáir sem "vissu út á hvað þetta gekk". Sennilega stærsta mannréttindabrot á landi hér eftir 1262.

laugardagur, maí 19, 2007

Sumt

er alltaf jafn skemmtilegt að gera, sumt er ókeypis en annað eigi. Sumt er rétt að spara til að finnast það jafn gott eða ágætt lengi vel, eitt svoleiðis má nefna óhikað, en það er Brynjuís. Hann er reyndar ekki allra frekar en annað og einn ókostur (kannski kostur) er sá að hann er "aldrei eins", misharður eða -mjúkur, sumir vilja mjúkan, aðrir ekki, bragðið aðeins breytilegt og vélarnar gefa sína útgáfuna hver af ísnum. Hitt er þó öruggt að Brynjuís gleður alla sem hann vilja; það er alltaf gaman að fá sér Brynju.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Sjónin

og minnið hafa látið á sjá með árunum, hvað þá litasjón. Halur sér enn mun á gráu og svörtu hélt hann, en var í vafa þegar erindi átti í nýja hverfið á Eyrarlandsholti, Naustahverfi mun það heita. Þar bar fyrir augu nýbyggður "Berlínarmúr" í miðju hverfi, nánast eins og skjöldur eða þil til að sitja undir ef veður væru válynd fyrir alla íbúa bæjarins. Mörg ný hús á Akureyri eru verri hvað hönnun varðar en allt annað sem Halur hefir séð, Breiðholtið með talið. Skipulag slíkra hverfa með þess háttar byggingu má telja með ólíkindum og kemur vart neinum til góða nema verktökum. Halur hélt að hann vissi muninn á gráu og svörtu, en þetta mun sannarlega vera að bæta gráu............

Hann fagnar hins vegar lýðræðisreglum Ríkisins, en nefnir ekki pólitík, enda lofað því margsinnis áður. Hann veit um yfirmenn hjá "Bænum" sem fylgjast með hverri hugsun og hverju fótmáli.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Magn

og gæði fara ekki alltaf saman en sambandið þar á milli er flókið. Lokaorðin í pólítíkinni er saga sú er Halur heyrði af frambjóðendum f. austan í öðru fjölmennasta plássinu þar nýverið. Boðað hafði verið til fundar um málaflokk þann sem mest tekur til sín af öllum hvað fjármagn snertir; áhuginn var bara all nokkur eða fimm -5- manns sem mættu og þar voru með taldir tveir er "þurftu" að mæta. Sem sagt lýðræðið er í sókn.

Lýðræðið

birtist Hali í ýmsum myndum; eitt farganið eru skoðanakannanir. Þær hafa riðið húsum í heilbrigðisgeiranum árum saman eins og víða annars staðar, sleppum ekki blessuðum stjórnmálunum. Enginn árangur eða bati komið í kjölfarið innan heilsugeirans; þeir einu sem "græða" eru IMG og geldingar með töflureikna og línurit. Halur styður frelsið en í t.d. pólitíkinni er þetta svipað orðið og í fótboltanum, ekkert kemur lengur á óvart. Kannski segir þetta mörgum hversu litlu máli kosningar yfir höfuð skipta; Halur telur mikilvægara að fyrirtækin blómstri án afskipta ríkisins, það tryggir fleirum lífsgæði en flest annað, betur en kosningar enda spillir "valdið".

þriðjudagur, maí 08, 2007

Veit

hinn eini lesandi bloggsins hvað orðið "kúskerpi" mun þýða, er reyndar bæjarnafn í Blönduhlíð?! Eða voru þeir þrír að tölu? Halur þykist vita merkinguna en spyr samt eins og sjá má enda styttist til kosninga þar sem allir sigra eins og í júróv., það er til einskis að deila um smekk. Það voru hins vegar mun fleiri helsingjar í Skagafirði en áður á sama tíma, flokkar með tugum og hundruðum fugla. Glæsilegur fugl. Kannski stendur útkoma gamla bændaflokksins og fellur með fjölda helsingja í Skagafirði, en ekki er vitað hvort um er að ræða beint eða óbeint samband þar á milli og einnig gæti talning milli dag verið breytileg eftir svæðum.

sunnudagur, maí 06, 2007

Pönnur

eru víst einnig seldar í Pottum og prikum, lítilli verslun á Eyrinni innan bæjarmarka Akureyrar. Hali áskotnaðist ný steikarpanna frá "de Buyer" og þegar reynt hana tvisvar við mismunandi matargerð. Því er unnt að segja strax; pannan lofar afar góðu, mun jafnari hiti en áður hefur verið á pönnum Vinaminnis, flestar hafa viljað hitna misjafnlega mikið, meira í norðaustur horninu þegar staðið er við eldamennskuna og horft í norður. Eigi vitað hvers vegna. Halur hefir reyndar í seinni tíð (að nýju) hrifist af fleiru og fleiru sem franskt er. Fyrirtækið framleiðir ógrynni af pönnum, í öllum stærðum og gerðum, en nú hljómar þetta eins og auglýsing, sem reyndar vart var ætlunin.

Afrek

eru ýmis konar. Eitt afrek vill Halur nefna en það er hið glæsilega og ánægjulega afrek að hafa staðið við það og komist hjá að hlusta á, heyra, eða sjá einn einasta frambjóðanda (halda ræðu) til komandi þingkosninga. Lýðræðið er nærri dautt. Annað ánægjulegt er Halur komst að í dag má nefna; hann er kominn í "elítuflokk" miðað við aldur hvað varðar þjálfun. Auðvitað trúir hvorki hann né nokkur annar þessu en samt, nokkuð til íhugunar. Svona innskot á tímum þegar allir eru að hlaupa og æfa út um allt og nálgast takmarkið, takmarkið um að bæta sig aðeins milli missera.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Frelsi

er eða hefir ætíð verið Hali hjarta næst. Vonandi gefur 1ti maí starfsfólki a.m.k. meira frelsi og í leiðinni frekari ákvörðunarrrétt í fyrirtæki því (þeim) er það starfar hjá; samtímis þyrfti sá hinn sami að eignast hlut í fyrirtækinu. Þannig væri komin tryggari leið og "allir hagnast". Þessa leið þarf að innleiða víða. Enginn er sammála þessu eða alltof fáir. Hvers vegna svona skrif og kjaftæði? Jú, vegna þess að Halur hefur verið að líta á Kólaskagann á netinu, notast við ókeypis forrit sem allir þekkja, verið að góna á gróðurinn og hæðirnar eystra þar nærri Poni via Goggle Earth sem er til komið ef satt er út úr gæluverkefnum starfsmanna Google. Starfsmenn þar munu örugglega þurfa að "afkasta miklu" en ef þú ræður þér að nokkru eða miklu í vinnunni, þótt þú starfir með eða hjá öðrum, þá er það allt önnur saga. Ef satt er, þá mega starfsmenn þessa fyrirtækis nota um fimmtung starfstímans fyrir "gæluverkefni" alveg eins og hjá íslenska ríkinu eða hvað? Alveg eins og kaupin á Grímseyjarferjunni hjá ríkinu hinu íslenska; þeir eru bara nokkuð sniðugir eða þannig þessir sem vinna í ráðuneytunum og deila aurum, mínum og þínum aurum; minnir á kjarabaráttuna.