fimmtudagur, mars 31, 2005

Unglingar eru

sennilega einn besti mælikvarðinn á ríkjandi hugmyndir talsvert margra í landi hverju; því er það áhyggjuefni ef stór hluti þeirra er andsnúinn nýbúum eða innflytjendum. Velvild þjóðar og gæska í garð nýbúa er háð umburðarlyndi, þekkingu og upplýsingu svo e-ð verði nefnt í fljótheitum. Sjálfur þekki ég vel þá góðu tilfinningu að vera vel tekið í erlendu landi og jafnframt orðið vitni að hinu gagnstæða meðal annarra. Það er undarlegt að unglingar hérlendis skuli vera með slíkar skoðanir eins og fram hafa komið í blöðum á sama tíma og allt sem erlent eða útlent er virðist sannarlega vera í tísku. Hinir sömu Íslendingar vilja nýta sér allt erlent; tónlist, bækur, tímarit, netið, ferðast til útlanda........................á eigin forsendum.

Sjálfur reyni ég að viðhalda lýðræði meðal nærstaddra og allt sem ég segi heimavið eru leiðbeiningar eða ráðleggingar (nú verður almennur hlátur hjá netbúum, nema Andra syni mínum), engin lög; frjálshyggjuhugur ríkir segi ég, aðrir e.t.v. ekki. Umburðarlyndi í garð útlendinga hérlendis er afar mikilvægt og geðbætandi að hafa fleiri slíka sem auðvitað eru jafn misjafnir og við hin.

Útlendingar eru oft með skemmtilegar hugmyndir og framkvæma öðruvísi hluti sem betur fer. Einn vinur minn er útlendur. Sá hinn sami hefur nýverið keypt sér hanska eða grifflur sem gefa hita á kalda fingur eða hendur að vetri til, með rafhlöðu sem er innbyggð í hanskana. Það að slíkir hanskar skuli vera til á Íslandi er gott vitni um þá fjölbreytni sem nýbúar gefa okkur, auka eða bæta hina líðandi stund.

"I dunno............."

mánudagur, mars 28, 2005

Reiðskjótar

eru af ýmsu tagi, lifandi og dauðir. Reiðskjóti minn hefir aldrei verið tekinn eins snemma úr húsi og þennan veturinn eða vorið ef miðað er við tíðarfarið. Búinn að gera við hemla, járna öðru nafni, vindur í börðum. Þessi millileikur minn er ágætur í sjálfu sér áður en ég stíg á stokk í hesthúsi innan um jafningja sem sennilega engir verða sýnilegir. Sunnanmenn leika sér alla daga í hesthúsum sínum og brátt verða hestar þar fleiri en menn, jafnvel fleiri en hefðbundnir reiðskjótar bensínknúnir. Það er kominn tími til að gera reiðgötur innan borgar- og bæjarmarka; þær yrðu engum til minnkunnar á dögum ólýðræðis og óþefs.

föstudagur, mars 25, 2005

Heimtur úr helju

er Halur loks og vályndir atburðir margir gerst á för hans um undirheima. Einhverjum verða kannski skil gerð síðar ef Halur sér ljósið. Æði langt er síðan hann lá við hauginn en þá heyrði hann skyndilega hanagal Fjalars og stóð upp. Upp úr því heyrði hann gal hans í sífellu við eyra sér en það hljóð skyldi hann ekki til fullnustu þá stundina né samhengið. Er Halur reis upp féll hann aftur fyrir sig vegna höfgi og féll niður gap nokkurt er aðrir velþekktir menn hafa dvalið fyrrum og aðrir aldrei þaðan upp komist. Fór hann framhjá völvu nokkurri er vildi við hann tala og segja frá veraldarsögunni. Halur steig af fáki sínum og tók sér stað nærri konu þessari sem hann aftur átti erfitt með að greina; ímynd hennar breyttist í sífellu og á stundum þurfti hann að gefa henni gjafir og jafnvel reyndi hún að fá hann til við sig (sem og aðrar meyjar er þarna voru) en varð þeim eigi ágengt.
Halur kvað:

Varast skal ég völvunnar kynni,
válegt getur hennar sinni.
Völvur eða menn,
vituð þér enn?
Hvar í veröld folanum brynni?

Halur lenti þar í pytti hvar hiti var mikill og allmiklar eldglæringar. Eigi vissi hann hvar staðsetning hans var þá stundina fyrr en hann hitti skákmenn þar neðra. Munu þeir hafa setið að tafli í túni. Minnti þetta hann á löngu liðna tíð sem hann sjálfur var þátttakandi í en þurfti að þá að berjast við Fenrisúlf sem reyndar sat þarna innan um hinar "gullnu töflur". Er hann dvaldist þarna sá hann bæði framtíð og þátíð og mikil var undrun hans er hann sá jörðu rísa upp hið þriðja sinni á Íslandi þar sem skák og taflmenn hafa verið hafðir í hávegum. Hann kannaðist þó ekki við hina nýju ásjónu Fenrisúlfs, en hann mun hafa verið klæddur nútíma klæðum, skeggmikill og með derhúfu. Slíkar húfur þekkti hann ekki frá fyrri tíð. Sá einnig þarna neðra að bein tengsl voru milli allra eldstöðva veraldarinnar en hending hvað kæmi upp á yfirborðið hverju sinni - kvika, menn eða úlfar; því réði eigi neinn viskubrunnur.

Halur uppgötvaði síðan að hann væri kominn til mannheima nærri Vinaminni er hann sá freyju sína ágæta og prúðbúna setja tebollann í ísskápinn til upphitunar og næsta dag fann hann gúrkuna í plastpokaskúffunni, klædda plastþynnu.

Halur kvað:
Heimtur úr helju seggur,
hann eins og steggur.
Er tebollans beið
beinust ísaleið
og brátt freyjuna heggur.

Halur beitti vopni sínu og forðaði voðaverkum. Því næst fór hann í haughúsið. Enn heyrði hann hanagal.

mánudagur, mars 14, 2005

Halur er þakklátur

þeim höfðinglegu skrifum sem frændur og bræður sendu honum nýverið á síðunni og er þetta honum mikill vegsauki og styrkur á þeim stað er hann liggur nú í vari á. Allur liðsauki er honum mikilvægur en þegar stórmenni eru annars vegar þá verða vígaferli váleg mjög.

Halur átti undarlegan draum sem hann heldur að tengist bæði nútíð og fortíð og jafnvel sé undir einhverjum áhrifum frá hinu flata Vínlandi þaðan sem Golfstraumurinn kom á sínum tíma en er nú nærri horfinn í sinni gömlu mynd. Margir mikilvægir draumar voru í sögunum og marga þeirra hafði Halur ráðið. Draumur Hals var þannig er hann lá í vari eina nóttina við haug nokkurn í Skagafirði:
Halur hafði átt órólegar mínútur tíma þann rétt áður en hann lagðist við hauginn. Fór þar næst flugvél hjá og nauðlenti harðan. Eigi hafði Halur séð slíkt tæki eða hlut enda allur tengdur gömlum tíma. Hins vegar fór það svo að er vélin hafði brotlent á flugbraut þarna nærri, varð úr að Halur steig úr vélinni, leit aftur og sá að lið hans var ómeitt og eigi höggið; er hann steig úr vélinni sá hann aðeins germanska hermenn eða vígamenn úr seinna stríði, en honum var tjáð að um væri að ræða árið 1945. Lauk þar draumnum er Halur var vakinn upp við óþef frá haugnum en þar höfðu fákar losað sig.

Spyr nú Halur vísa goða og frændur, vígamenn sunnan og norðan heiða: Hver er ráðning þessa draums?

fimmtudagur, mars 10, 2005

Halur heim

í hlað hefur riðið eftir för í vesturveg eða það sem kallað var Vínland í einhverjum lygasögum íslenskum að sumra mati. Háðsför munu margir kalla þá för. Halur hélt utan frá norðurlandi og fékk ágætan byr yfir hafið og tók land þar sem ólíklegt er að nokkur manneskja vildi lifa; landið allt slétt og þurrt mjög, hvergi holt eða hæðir, hvað þá hinn íslenski melur með sauðkind. Hafa þurfti Halur höfuðfat úr léttu efni, en það náði hann sér í nálægt haugum þar ytra. Hjálmur og vígaklæði hans hentuðu illa. Í stað hesta og þeirra afla birtust honum einungis hestöfl í málmlíki, mestmegnis með stórum palli en slík tæki hafði Halur aldrei séð en þó svolítið heyrt af. Slíkum sögum trúði hann þó eigi enda með afbrigðum trúlaus maður. Á landssvæði því sem Halur fór um var fátt sem fyrir augu bar annað en skilti með eða án ljósa, en honum var tjáð að þetta væru s. k. auglýsingaskilti sem væru nauðsynleg öllum er þarna vildu búa af e-m ástæðum. Harður melur væri Hali þó skapi nær og hin íslenska sauðkind inná þjóðbrautinni, hvað þá hrossatað í lofti. Þessa stundina heldur Halur hins vegar til í vari í Skagfirðingafjórðungi en þangað var hann kallaður til að taka þátt í nýjum bardaga nærri Örlygsstöðum; nákvæm staðsetning eigi gefin þar sem óvinir gætu sótt að honum í svefni en sú væri þeirra eina von til að ná fram hefndum fyrir fyrri voðaverk Hals hver sem þau kallast. Höfðingjar og leiguliðar þeirra, ójafnaðarmenn og allt tiltækt lið mun væntanlega að honum sækja og því þarf hann halla höfði milli þess sem hann hamrar járn í smiðju. Bleyðimenni verða þar hvergi nærri í hans liði. Hann óttast helst áhlaup á óttunni (ekki nóttunni!). Ekki óttast hann bleyður er í borgum búa hérlendis en svo mun til vera háttað sunnan heiða en þar hefir hann meðvitað eigi numið staðar áratugum saman.

Halur heim, Halur heim, jarm eða vein frá mörgum mun hljóma.