Heimtur úr helju
er Halur loks og vályndir atburðir margir gerst á för hans um undirheima. Einhverjum verða kannski skil gerð síðar ef Halur sér ljósið. Æði langt er síðan hann lá við hauginn en þá heyrði hann skyndilega hanagal Fjalars og stóð upp. Upp úr því heyrði hann gal hans í sífellu við eyra sér en það hljóð skyldi hann ekki til fullnustu þá stundina né samhengið. Er Halur reis upp féll hann aftur fyrir sig vegna höfgi og féll niður gap nokkurt er aðrir velþekktir menn hafa dvalið fyrrum og aðrir aldrei þaðan upp komist. Fór hann framhjá völvu nokkurri er vildi við hann tala og segja frá veraldarsögunni. Halur steig af fáki sínum og tók sér stað nærri konu þessari sem hann aftur átti erfitt með að greina; ímynd hennar breyttist í sífellu og á stundum þurfti hann að gefa henni gjafir og jafnvel reyndi hún að fá hann til við sig (sem og aðrar meyjar er þarna voru) en varð þeim eigi ágengt.
Halur kvað:
Varast skal ég völvunnar kynni,
válegt getur hennar sinni.
Völvur eða menn,
vituð þér enn?
Hvar í veröld folanum brynni?
Halur lenti þar í pytti hvar hiti var mikill og allmiklar eldglæringar. Eigi vissi hann hvar staðsetning hans var þá stundina fyrr en hann hitti skákmenn þar neðra. Munu þeir hafa setið að tafli í túni. Minnti þetta hann á löngu liðna tíð sem hann sjálfur var þátttakandi í en þurfti að þá að berjast við Fenrisúlf sem reyndar sat þarna innan um hinar "gullnu töflur". Er hann dvaldist þarna sá hann bæði framtíð og þátíð og mikil var undrun hans er hann sá jörðu rísa upp hið þriðja sinni á Íslandi þar sem skák og taflmenn hafa verið hafðir í hávegum. Hann kannaðist þó ekki við hina nýju ásjónu Fenrisúlfs, en hann mun hafa verið klæddur nútíma klæðum, skeggmikill og með derhúfu. Slíkar húfur þekkti hann ekki frá fyrri tíð. Sá einnig þarna neðra að bein tengsl voru milli allra eldstöðva veraldarinnar en hending hvað kæmi upp á yfirborðið hverju sinni - kvika, menn eða úlfar; því réði eigi neinn viskubrunnur.
Halur uppgötvaði síðan að hann væri kominn til mannheima nærri Vinaminni er hann sá freyju sína ágæta og prúðbúna setja tebollann í ísskápinn til upphitunar og næsta dag fann hann gúrkuna í plastpokaskúffunni, klædda plastþynnu.
Halur kvað:
Heimtur úr helju seggur,
hann eins og steggur.
Er tebollans beið
beinust ísaleið
og brátt freyjuna heggur.
Halur beitti vopni sínu og forðaði voðaverkum. Því næst fór hann í haughúsið. Enn heyrði hann hanagal.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home