sunnudagur, febrúar 13, 2005

Fjölmenningarhyggja

er nokkuð sem ég hefi lítið velt fyrir mér, en hugmyndir komust á flug eftir að hafa heyrt Kristján Kristjánsson fjalla örlítið um efnið í erindi sem hét "Huglæg eða hlutlæg gæði" nýverið, en ég er spenntari fyrir erindum þessa stundina um efni alls endis óskyld mínu fagi; fyrirlestraþreyta, fundarþreyta, fræðsluþræta eða hvað sem það kallast. Það er orðið svo langt síðan ég heyrði e-n fagmann tala sem fangaði athygli mína með efninu eða framsetningunni að ég er búinn að gleyma því hvenær það var. Erindi á vinnustaðnum eru flest hver geld enda er vísindavinna þar í algjöru lágmarki og frumleg hugsun ekkert sem maður rekst á nema kannski í stiganum milli hæða; eitt aðal málverkið eða listaverkið á staðnum (stór mynd eftir Karl Kvaran sem Dr. Gunnlaugur gaf!) er hengt upp í þröngum stigatröppum sem engir ganga um nema örfáar hræður sem nota ekki lyftuna. Eftir erindi Kristjáns var ég enn sannfærðari en áður að forræðishyggja er ríkjandi og lýðræðið er löngu dautt.

Það var annars fínt að lofta sig í dag með göngu um Innbæinn, fórum upp gamla gilið og leið sem endaði nærri í ógöngum, framhjá kirkjugarðinum, sem ætíð er sérstakt að ganga hjá, jafnvel fyrir mig sem verð jafnaðarlega var við dauðann gegnum sjúklinga mína; fórum niður brekkuna og enduðum hjá Nonnahúsi þar sem ein ljótasta myndastytta sem ég man eftir að hafa séð er staðsett nálægt fögrum gömlum húsum, mörg þessara húsa í Innbænum eru gersemar og mæli sérstaklega með bók um Innbæinn eftir Hjörleif Stefánsson (?) sem ég eignaðist fyrir löngu síðan.

Eftir hádegið var meira súrefni að fá er ég skrapp á gönguskíði í eina snjógilinu (vestan við gönguskíðahúsið í Hlíðarfjalli) í fjallinu, meira og minna gangur uppí móti og rennsli niður á eftir og þá var gott að vera á Telemark búnaði. Heima beið nýbakað marsipan vínarbrauð sem konan bakaði og það má koma fram hér að þetta er besta bakkelsi sem ég fæ og hæfilega langt á milli þess sem það er bakað. Sterkt French roast drukkið með, vel sterkt kaffi er alltaf sígilt og sérstaklega með svona fínu bakkelsi konunnar.

Í þann mund sem þetta er skrifað horfi ég á bækur er ég keypti áðan á útsölu í Pennanum og það skrítnasta við það var er mér var boðinn plastpoki til sölu til að hylja bækurnar; er einokuninni engin takmörk sett hér á landi?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home