miðvikudagur, janúar 26, 2005

Lítilmagnar

eins og Halur og frændi hans mega við litlu. Það er nærri ómögulegt fyrir þá að taka gríni hvað þá "þungum" ásökunum borgara lýðveldisins. Halur er enn í sárum sem sjá má af nýlegum skrifum hans og meðferð sú, er hann hefur beitt sjálfan sig, gefur enga raun og engin eða harla lítil von er um bata. Þetta er það sem kallað er "vonlaust tilfelli." Hann hitti konu fyrir nokkru sem er eða var "terapaut" og ráðlagði hún honum að setja á blað ambögur þótt ferlegar væru og alls ekki til sýnis. "Terapaut" þessi hefur farið á mörg sjálfshjálparnámskeið og nærri lætur að þau nálgist hundraðið á fáum árum. Halur spurði hana hvort hún hefði e-a starfsreynslu milli námskeiða, en hún svaraði um hæl með möppur undir hendinni, blautar af svita: "Svona segir viti borinn halur ekki." Halur hélt að hann byggi í þorpi en svo mun nú aldeilis ekki vera; þorpið er þó innan seilingar.

Halur kvað:

Veldur aðeins Halur harmi,
hætta skal þorpsjarmi.
Ella yrði
úr Eyjafirði,
aumum að vísa borgargarmi.

Að óvörum, nokkrum olli harmi,
aumingi með sínu jarmi.
Aðrir segja,
en eigi meyja,
að ágætur reynist þessi barmi.

Hér var komið að vasaklútum í bleijustærð og mörg hlé urðu eins og á Gufunni forðum, en loks kvað Halur:

Demón og dæmalaust illfygli,
dylst í aðfluttum brekkusnigli.
Kallar hann
kaupstaðinn þann:
KEA - með fullri athygli.

Halur mun halda áfram að ná einhverjum bata og öll hjálp er vel þegin og eins og sumir spakir lesendur sjá, þá er þetta ákall um hjálp.

5 Comments:

At 4:41 e.h., Blogger ærir said...

Dæmalaust margt á þér dynur,
en duga skaltu drengurinn góði.
Þess óskar þér frændi og vinur
í litlu en laglegu ljóði.
Æ.

 
At 4:48 e.h., Blogger ærir said...

Því ljóðin þau lina og laga,
og lengi þau geta lifað.
Þó illa sé ort þessi baga,
er betra að hafana skrifað.
Æ

 
At 4:54 e.h., Blogger ærir said...

Burt mun alla bölsótt særa,
ef berst þér kveðjan staka.
Flogin frá frændanum æra
í faðm þinn og aftur til baka.

 
At 8:01 e.h., Blogger Katrin Frimannsdottir said...

Æi, mikið á hann Halur bátt, hann sem býr í einni af fallegustu götum bæjarins með útsýni vesturs sem engu líkist. Mikið vildi ég að ég væri brekkusnigill eins og hann, en efni í þorpara er hvorki hann eða ég! Ég bið forláts ef ég særði tilfinningar sómamannsins í Vinaminni í fyrri skrifum.

 
At 8:53 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Allir fá hugheilar þakkir fyrir þessi góðu skrif sem styrkja smámennið mikið, en sár verður eða varð hann eigi enda allt sem honum er sent hlýtur hann að bæta.

Sérstaklega til Æris:

Halur reyndi hjálp að fá,
hitti "reyndan" terapaut.
Hvorki frægð né framgang sá,
fyrr en vísur Æris hlaut.

Styrk og stuðning sendir Ærir,
styður lítilsgildan frænda.
Lífsins þunga lausn á færir
leysir vanda norðanbænda.

 

Skrifa ummæli

<< Home