sunnudagur, janúar 09, 2005

Prentun ljósmynda

er ekki alltaf einföld; hvenær er myndin nægilega góð á pappír? Eða nægir að hafa myndina á pappír óháð skýrleika? Þessi vandamál hafa komið upp hjá mér margsinnis eftir að prentarinn kom í kjallarann þar sem parketið var lagt í sumar til endurnýjunar og lyktbætandi verkefni var það. Sennilega er best að fá sér gamla Kodak imbamatikk vél eða þá sem nú hefur verið költ-vél lengi, þ.e. LOMO-vél austur-þýska að uppruna; myndirnar úr þeim lifa víst sjálfstæðu lífi.

Milli þess sem ég var að dunda í prentuninni (fyrir ófróða má nefna að ég vann á sínum tíma sem sendill í Gutenberg þegar enn var handsett og blýsetning ekki alveg dauð) og ekkert nægilega gott sem stórt var prentað, las ég aftur nokkra vel valda kafla í Fluguveiðibók Péturs í Laxárnesi sem út kom árið 2003, en ekki 1903 eins og sumir gætu haldið þegar textinn er lesinn. Þar eru myndirnar afar skýrar, prentunin góð, margt fróðlegt og "skemmtilegt", en ummælin sem hann lætur flakka um ónefnda menn (allir mega hafa skoðanir!) eru áreiðanlega einsdæmi á síðari tímum og merkilegt að bókin hafi ekki verið ofsótt af einhverjum ónefndum aðilum eða krafist lögbanns á hana. Það hefði sjálfsagt verið búið að gera, ef um konur væri fjallað í bókinni, en þeirra hlutur er rýr mjög eins og gefur að skilja (verð ég kærður fyrir þetta?); þær fóru ekki að ganga með ám og vötnum í vöðlum eða stígvélum með stöng í hendi neitt að ráði fyrr en síðasta áratuginn eða svo. Pétur talar um "þjóninn" og "húsbóndann", dregur menn í dilka, verstir eru Belgar, Frakkar og Svíar ef ég man rétt að "ormaskaulunum" undanskildum. Bók þessi varð ekki mjög vinsæl (held ég). Og sökum þessara norðlensku skrifa nærri Laxá með alla sína hólma og eyjar, vil ég nefna aðra bókarglætu sem varð eftir á milli stæða í bókaflóðinu fyrir e-m árum, 2001 ef ég man rétt. Þar var m.a. skrifað um veiðiferð í Laxá í Laxárdal af talsverðri kunnáttu þess sem var að hefja fluguveiðar, enda "fýsir asna oft í ófæru" eins og ég sjálfur þekki vel frá mörgum veiðiferðum; ótrúlegt að maður hefur "alltaf" komist lifandi heim úr öllum þessum ferðum. Bókina gaf út Gísli Sigurðsson, sem ég held að hafi verið mér samferða í menntaskóla en á annarri fluguveiðibraut (þessar upplýsingar voru staðfestar af "Frater in canto et laboro" sem mun hafa verið að veiðum á sama tíma og Gísli, "frater" fákunnandi að sögn enda í sinni fyrstu eða annarri veiðför). Gísli á þakkir skildar fyrir bók þessa, sem ég reyndar eignaðist eigi, en hefi lesið suma kaflana oftar en einu sinni í bókabúðum og á safninu, en fáar bækur hljóta slíka yfirferð af minni hálfu. Þessi bók er afar ólík bók Péturs, en báðar góðar á sinn hátt. Ég held að ég reyni að kaupa bók Gísla þar sem fáar slíkar hafa út verið gefnar og mæli með henni (nú er botninum náð eins og hjá Sirrý og Ljósa-Ó-peru). Konur fá ágæta yfirferð í bók hans.

Þetta er áreiðanlega skitsófreníueinkenni að skrifa svona, en ég ætla í lokin að nefna það, að ég mun leita að gömlum veiðimyndum af sjálfum mér og öðrum sem teknar voru á filmu fyrir löngu síðan, skanna þær inn og prenta óháð því hvort þær verða skýrar eður ei.

Ljósmyndaþættinum er lokið. Náð og miskunn megi vera með yður.



2 Comments:

At 10:10 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

,,Það hefði sjálfsagt verið búið að gera, ef um konur væri fjallað í bókinni, en þeirra hlutur er rýr mjög eins og gefur að skilja (verð ég kærður fyrir þetta?); þær fóru ekki að ganga með ám og vötnum í vöðlum eða stígvélum með stöng í hendi neitt að ráði fyrr en síðasta áratuginn eða svo."

Ekki verða allir tilbúnir að skrifa undir þessi ummæli því hver man ekki eftir hinni ágætu abbadís og veiðimanni, Dame Julyana Bernes sem sögð var bæði fögur og göfug. Árið 1496 skrifaði hún líklega fyrstu kunnu bók um fluguveiðar á ensku. Ber bókin nafnið The Treatyse of Fysshynge wyth an Angle. Í bókarkorni þessu er fjallað um gerð stanga, lína og flugna. Að auki segir þar af því hvenær best á veiðitímabilinu er að nota þau tólf afbrigiði flugna sem fjallað er um í bókinni.
Vert er að geta þess að á seinni tímum hafa reyndar verið settar fram kenningar um að hin eðla frú hafi í raun aldrei verið til nema í huga prentarns sem stóð að gerð bókarinnar en hann hét Wynkyn deWorde. En um það atriði verður aldrei neitt vitað með vissu og því skulum við láta hina eðlu frú njóta vafans enn um sinn.
Kveðja
HM

 
At 7:37 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Satt er það (nema "að ráði") og svolítið hefi ég gluggað í bók þessa, séð forsíðuna og valdar blaðsíður birtar í öðrum bókum; var reyndar bent á þetta í bréfkorni frá þér þegar ég var að byrja fluguhnýtingar og bréfið er e-s staðar í gamla skrifborðinu sem geymir hnýtingarefnin og annað tengt hnýtingum og er sennilega að nálgast hundrað árin. Góð ábending til allra sem halda að hlutirnir hafi verið fundnir upp á síðustu áratugum eða öld.

 

Skrifa ummæli

<< Home