þriðjudagur, desember 28, 2004

Jón á Móti

er sjötugur í dag. Jón hefur búið á næsta bæ við Vinaminni allt frá því húsið var reist á sjöunda áratugnum og verið nágranni minn síðan ég flutttist til Akureyrar í síðara skiptið fyrir 10 árum. Á þeim tímum byggðu menn húsin sín sjálfir í aukavinnu með annarra aðstoð. Hann er náttúrulega faðir Rósu sem er vinkona freyju minnar, en þær hafa verið vinkonur frá forskólaaldri og eru enn; það mátti heyra er ég sat í kjallaranum í gærkvöldi og hlátrasköllin heyrðust niður og vægur púrtvínsilmur var í lofti. Jón hefur aldrei slegið slöku við í hjálpsemi við mig fremur en aðra sjálfsagt enda af þeirri kynslóð manna sem mega ekki vamm sitt vita. Hann er sístarfandi, iðinn og laghentur, þó rólegur að eðlisfari, en gigtin farin að segja til sín. Ekki sá hlutur til sem hann lánar manni ef því er að skipta. Það er merkilegt til þess að vita að maður ræðir fremur við hann en marga aðra miklu yngri hér á slóðum þegar svo ber við að menn mætast á förnum vegi.

Vonandi á Jón á Móti mörg góð og gild ár framundan og er honum óskað heilla á þessum ágæta og bjarta degi, þegar sjá má birtuna læðast á suðurhimninum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home