Heppnasti maður í heimi?
Enn einu sinni kom minn betri helmingur mér til hærri hæða og það ekki dónalegra. Mér var boðið ásamt nokkrum öðrum, að slást í för með Kvennaklúbbi Akureyrar fram í Öxnadal þar sem heitir að Hálsi og Halastjarnan hefur lent, rétt hjá Hrauni og þar sem háir hólar (Hólar) hálfan dalinn fylla. Halastjarnan er staður sem þú þyrftir að kynnast, staður sem enginn fer samur út af, ef hann er og verður e-ð í líkingu við það sem hann var í gærkvöldi, fagurt veður, rétt yfir frostmarki, smá snjóföl og Hraundrangi kallaði á mann í myrkrinu milli þess sem maður létti af tönkunum. Þarna varð maður fyrir þeirri óvenjulegu lífsreynslu að fá e-ð sem ekki gleymist í bráð; afburða matreiðsla Rúnars Marvinssonar, samsetning sem ekkert fær slegið svo glatt, óvenjulegur borðbúnaður og tilheyrandi, kokkurinn sveittur í eldhúsinu og unnt að taka rabb saman þótt stutt væri, unaðslegar freyjur og sérstaklega eiginkonan mér nærri sem kom mér þangað, borðfélagar og dömur sem höfðu það að markmiði að skemmta sér með gleði en ekki snobbi og leiða, þjónustan vinaleg og ekki þvinguð. Matargerðarlistin er ekki bara skraut, örbylgjuofn, hálftilbúnir og upphitaðir réttir þegar kúnninn kemur, stjörnur og fjöldaframleiðsla eins og á stórum stöðum; á Halastjörnunni er matargerðarlistin komin að hástigi bragðsins; það eitt skiptir máli. Aldrei aftur jólahlaðborð, aldrei aftur jólahlaðborð.
Matseðilinn þarf ég ekkert að nefna í þessu samhengi, hann fer ekkert, en kannski nánar síðar um hann.
Heppnasti maður í heimi? Svari hver fyrir sig. Það kæmi til geina að stelast aftur á Halastjörnuna við tækifæri, en góðir hlutir þola alltaf nokkra bið, þeir batna bara við hana. Ég tel öruggt að maður líti þar inn að nýju þegar tími er til kominn. Halastjarnan er áreiðanlega lent í Öxnadal.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home