fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Má ekki Margrét

Danadrottning reykja sínar sígarettur í friði í Japan, án þess að ég þurfi að vita það? Hvers vegna er verið að segja frá ferð hennar í blöðum uppi á Íslandi? Uppeldi sona hennar virðist vera að mestu í reyk skv. slúðurpressunni, þefað og heyrt. Annað sem er skrítið, má lesa hverju sinni í viðskiptablaði moggans; þar eru e-r forstjórar eða framkvæmdastjórar upphafnir í guðatölu fyrir að hafa talið peninga, setið í stjórnum fyrirtækja og skipt hluthafagróðanum (ekki mínum þó!) til vina. Hafðar eru eftir vinum og kunningjum eintómar dýrkunarsögur í anda Kims vinar míns il Súng og félaga, það vantar eingöngu líkneski og málverk, götumyndir og veggspjöld eða lest sem Brésnef(ur) gaf leiðtoganum sem mun vera vel brynvarin með mörgum arðhirslum. Mér finnst að fyrirtækin sem þessir menn hafa "stjórnað", ættu að gera eitthvað slíkt, það er sjálfsagður hlutur; dýrkun, dásemd, draumur um fjármagn, lotning, hræðsla. Allt þetta þarf að koma fram í styttunni úr eðalmálmi. Þetta er náttúrulega bara öfund.

Öfund mín er ekki góð,
undarlega ber.
Þó skal eigi missa móð,
meðan vakað er.

Ég er í góðu skapi sökum margra annarra góðra mála og vonandi snjóar meira. Mér heyrðist Einar Oddur (mun vera alþingismaður) vera búinn að drekka of mikinn tréspíra, þegar ég heyrði rödd hans í útvarpinu þegar maturinn var að byrja í Vinaminni; gott að hafa komist hjá því að sjá hann og enn betra að slökkva á útvarpinu. Hann ætti að fara að skjóta hval á Flateyri.

1 Comments:

At 12:30 e.h., Blogger Guðný Pálína said...

Sammála. Mikið er maður orðinn þreyttur á þessari hetjudýrkun á bissnessmönnum. Ætli það sýni ekki bara að þeir sem ritstýra blöðunum/tímaritunum trúa því að peningar og völd séu það sem knýr heiminn áfram. "Money makes the world go around.." eins og þau í ABBA sungu hér um árið. Ég held við ættum frekar að leggja meiri áherslu á mannrækt, vináttu og umhyggju fyrir þeim sem minna mega sín!

 

Skrifa ummæli

<< Home