sunnudagur, nóvember 07, 2004

Arafat og Leikhúsið

á Akureyri (LA) eru á margan hátt svipuð; bæði hafa heyrt tilkynningu um andlát sitt. Arafat hefur svo oft verið reynt að ráða af dögum eða myrða að einsdæmi mun vera á síðari tímum. LA hefur verið í tómu basli listrænt séð, hefur maður lesið (er e-ð að marka það sem maður les í dag?) og gott er, ef það nær ekki einnig yfir fjármálin; margsinnis verið sagt dautt hús og úr debet eða var það kredit?

Ég hafði hvílt mig nokkuð á leikhúsinu norðan heiða um stundir, en keypti árskort í haust og þegar séð tvær sýningar sem eru (voru) víst einnig sýndar í Sódómu. Fyrri sýningin hét Brim og fjallaði um skipverja á línubát, besta nýja íslenska verkið í fyrra var það kallað, góðir dómar hjá liðinu; mér fannst þetta vera svipað og fara á landsleik hjá íslenska fótboltalandsliðinu. Öruggur ósigur, ekkert sem hreyfði við manni, burt séð frá því að í sumum leikaranna heyrðist vart í þessu litla húsi, en ég sat á einum fremsta bekknum. Depressívur stúpor. Næst var það verkið Svik eftir sjálfan Pinter, áfram þekktir leikarar að sunnan og ekki eins og venjan var hér í bæ, að allir leikararnir voru alþekktir úr Derrick. Lengd verksins drap engan, vart byrjað þegar það var búið. Var það búið eða byrjaði það nokkru sinni? Minnti á hlaupara sem er hættur að svitna. Eitt var þó afbragð í sýningu þessari; bassaleikarinn sem sá um tónlistina stóð uppúr, hefði líka gert það þótt verkið hefði verið skárra. Best að fá sér bassa.

Brotsjórinn sem LA hefur fengið á sig hefur ekki enn skilað miklu hvað mig varðar annað en úr útsvarinu. Sjálfsagt hefði mátt vera búið að kasta liðinu úr brúnni fyrir löngu. Ég er farinn að halda að leikrit séu bara fyrir "leiklistaráhugafólk sem hefur (á að hafa) vit á leikritum eða leikritun", svipað og "bókmenntafræðingar hafi bara skynbragð á það sem er góður texti". Málið er dautt.

Ég mun samt halda áfram að fara á sýningar vetrarins, þar sem mér finnst gaman að sjá góð verk, en allt orkar tvímælis þá gert er. Ég mun einnig halda áfram að kaupa eina og eina bók sem hvorki hefur orðið vinsæl á torginu né hlotið góða dóma; það er yfirleitt trygging fyrir gæðum.

Best að koma sér í hádegiskaffi með rúgbrauði og reyktum fiski, sem var og er hreinasta afbragð í haust, hann fær nú ágætiseinkunn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home