Rafkort og póstkort
eru víst ekki hið sama og verða aldrei; það sannaðist enn einu sinni er ég fékk póstkort frá Arnaldi laganema á öðru ári þar sem hann var að segja mér frá ýmsu, m. a. því að hafa verið fyrir norðan og ekið framhjá Vinaminni en allt var slökkt, reyndar kl. 2 að nóttu. Hann ætti að vita betur og gerir sjálfsagt, húsið er stórt og iðulega ljóstýrur e-s staðar þótt ég sé kannski iðulegast dauður á þeim tíma, sérstaklega á föstudögum. Ég hélt reyndar að kortið væri frá föður hans, svo lík er skriftin, smágerðari kannski en svipaður blær á öllu letri í stækkunargleri. Hann sagði einn brandara sem bíður betri tíma sem var bara vel góður.
Það kom reyndar nokkuð á óvart þegar hann innritaði sig í eina af geldingsdeildum HÍ þ.e. lagadeildina (lög- og læknisfræði og sennilega margar fleiri eru geldar). Hann á samt Mecredes og áður átti hann Bimma (sem ég vissi ekki hvað var, heimskur svolítið) þannig að hann kemst a.m.k. í skólann þar sem bílar sýnast vera fleiri en nemendur og yfirleitt einn í bíl, það sá ég þegar ég neydddist að fara til borgarinnar um daginn. Hann á sannarlega þakkir skildar fyrir að muna eftir frænda sínum í Gúlagi norðursins og er alltaf velkominn í húsið er hann á leið framhjá á Bimmanum eða öðru farartæki.
1 Comments:
Þetta er alveg rétt hjá þér. Það er miklu skemmtilegra að fá póstkort heldur en rafkort. Og maður er næstum búinn að gleyma hvernig það er að fá sendibréf í póstinum. Tilfinningin að velta fyrir sér umslaginu, skoða rithöndina, spá í hvort bréfið sé þykkt ( = mikið að lesa) eða þunnt og svo unaðurinn sem fylgir því að opna umslagið, halda á bréfinu í höndunum og drekka í sig hvert orð sem þar stendur.
Skrifa ummæli
<< Home