þriðjudagur, október 19, 2004

Sartre

varð mér loks ljós eftir að ég tók ljósmynd af konunni minni við eina (eða réttara sagt standandi á einni) af hinum frægu brúm yfir Signu í nýlokinni Parísarferð; hún var þó ekki með pípu við hönd eða í munni. Í sömu ferð ók ég í almenningsvagni nr. 63 framhjá nokkrum menningarstöðum frá síðustu öld, þar sem reykfylltir salir sköpuðu framtíðina, sá einnig hinn rétta bláa lit í safni Pompidus og nokkra klassíkera þar sem lengi hafa beðið mín frá fyrri hluta síðustu aldar. Þeir réttlæta svona ferð einir sér, annað er bónus (alltaf ódýrastir). Feginn að hafa farið slíka ferð og bíð eftir að komast þangað að nýju; sú bið verður vart löng. Vonandi hef ég þá betri tíma og sömuleiðis konan mín þannig að við verðum e-m hundraðköllum fátækari; það hlýtur að vera hræðilegt að vera kona í París (ekki klisja) og sérstaklega frá Íslandi þar sem allar kellíngar kaupa það sama í sömu búðinni og henda eftir eina notkun. Aldrei hef ég séð meira af flottheitum en þar, en sleppti þó að skoða í flesta glugga.

Sjálfum tókst mér ekki að eyða neinu í allri ferðinni og kemur víst engum á óvart, enda vantaði ekkert í sjálfu sér. Ekki var nú erfitt að komast á jörðina, hvað þá eftir að hafa borðað vel steiktar kjötbollur með brúnni sósu, kartöflum og sultu í kvöld. Þetta er einn besti matur sem ég fæ og hafa víst allir heyrt það heima hjá mér.

Það er gott að ég hafði ekkert sérstakt prógramm í ferðinni annað en að fylgja konunni milli staða. Þetta er ein þessara borga sem togar í mann; flestar þær sem ég hef komið í áður skipta mig litlu í dag og oftast verið fegnastur að komast heim aftur (sveitamaðurinn).

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home