miðvikudagur, september 22, 2004

Munaðarharðlífi

er nokkuð sem sumir halda að ég sé haldinn, en þeir hinir sömu þekkja mig eigi. Þótt ég hafi verið með sama nestið í vinnunni á annan áratug (svo dæmi sé tekið), drukkið vatn eða svolítið kaffi með og borðað banana í eftirrétt, þá er ég ekki að missa af neinu. Ekki fæ ég harðlífi af mötuneytis- eða sjálfssalafæðu. Þetta nesti kennir manni ýmislegt um lífið og tilveruna og sérsataklega hitt að engin þörf er að breyta því sem vel virkar. Margir matmálstímar hefðu farið fyrir lítið ef ég hefði ekki haft slíkan nestispoka með mér, en plastpokinn er ókeypis; hann fæ ég þegar ég fer í búðir eða konan mín, það er þessi grái þunni sem auðvelt er að eyðileggja ef ekki er vel með farið. Stundum tek ég einn eða tvo aukapoka í Bónus. Oft get ég notað þannig poka dögum saman, nema óhapp skeði með hnútinn, sem er sjaldgæft. Það er engin þörf á því að vera með það sama og aðrir, en í dag er afar algengt að lesa eða heyra um hluti sem "allir" verða að eignast eða framkvæma, þótt flestir geti sennilega vel án þeirra verið. Það sannast einnig iðulega í veiðinni hjá mér, að ég þarf ekki að vera með það sama og aðrir, engin þörf á að apa eftir öðrum nema ef vera skyldi ánægjunnar vegna að breyta til þegar það á við; það er gaman. Ég lifi samt sem áður engu harðlífi í sjálfu sér og munaður er víða mér nærri í Vinaminni, þótt hann sé ekki nauðsynlega eftir því sem tíðarandinn segir til um, en sá andi minnir mig fremur á andremmu en hitt. Ég held að margir gætu haft gagn af góðum venjum, þótt þær falli ekki inní mynstur dagsins í dag, en ég minnist þó að illt er vondum vana að kasta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home