laugardagur, september 04, 2004

Jábræður

eru æði misjafnir til orðs og æðis. Mig langar til að vekja athygli á einum sérstaklega góðum penna sem skrifar pistla í Fréttablaðið af og til, en það er Andri Snær Magnason. Kannski er hann einungis góður þar sem við deilum skoðunum um hluti eins og virkjanamál, náttúruna og Landsvirkjun, sem ég las um í barnaskóla að væri eitt merkilegasta og besta fyrirtæki á Íslandi. Hún hefur ásamt iðnaðarráðuneytinu gefið út eina af fáum ófáanlegum bókum á Íslandi, sem heitir "Lowest energy prices" og fjallar um það hversu gott er fyrir stórfyrirtæki að fjárfesta í íslenskri orku sem er ódýrari en ókeypis ef einhver skilur. Þessi bók mun vera geymd í hirslum seðlabankans, en er ekki til sýnis eða aflestrar. Bókin er þó varla í sama flokki og allir hinar fjölmörgu jólabækur sem fara í jólaköttinn og sennilega er það þannig með margt sem nýtur vinsælda að þar eru gæðin afstæð. Sumir segja að vinsældir þýði lágkúru, ekkert vinsælt geti verið gæðalegt. Þetta er kannski bara þunglyndistal en horfið í kringum ykkur eða á sjónvarpið eða sjónsarpinn. Allt orkar tvímælis þá gert er.


Annars er málningarvinnu svo gott sem lokið eftir nokkurra daga hlé, var eiginlega lokið, en smáræði bætt við og rifsberin komin í krukkur, svolítið þunnt í krukkunum en bragðið í lagi, erfitt að halda þeim á brauðinu. Meira er til og spurning um að sjóða aðra umferð aðeins lengur, en vinsældir mauksins eru minni en t.d. hindberjasultu sem við vöndumst í Noregi og ekki tekist að slíta tengslin við.

Þessari soðningu er samt sem áður lokið, en þorskurinn (eða urriðinn) hefur ekki verið soðinn í langan tíma, sumir segja að maður eigi ekki að sjóða fisk í vatni, kannski gufu, en ég kýs aðrar aðferðir. Ég þarf að fara að velja fisk í taðreykingu, en ég hef orðið aðhlátursefni sunnan heiða vegna taðreykingaráráttu, ekki áráttu kannski, fremur áhuga á fornum venjum og bragði, sem margir ekki þekkja lengur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home