fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Líf á undan dauðanum

Það er greinilega líf utan Vinaminnis og mér finnst ég þekkja norðlenskan hreim með norsku ívafi í kommentum; varla var þetta gaur og reyndar ekki frá Dalvík eða Dalbæ eða Dagverðareyri heldur nærri Ljósavatni. Hver man ekki eftir goðanum Þorgeiri og drumbunum sem hann kastaði í fossinn eða hvað? Bestu málshættirnir á ensku voru þeir sem Jón Páll heitinn kom með í beinni og ég veit að Baldur (ef þetta er Baldur) kann marga eftir hann.

Ég er að hugsa um að senda gömlum og gleymdum vinum (ég átti einu sinni marga vini þótt þið trúið mér vart) tilboð um að kíkja á bloggið og senda mér línu, það er ekkert vit í öðru. Aðrir mega gjarnan gera slíkt hið sama. Gott að "dokker" eruð í góðu formi.

Var annars að koma heim eftir viðkomu í e-s konar "paradís" en ég var við síðdegisveiðar í Eyjafjarðará (sá enga aðra veiðimenn) og umhverfið og náttúran í dag í sérstöku formi eftir óendanleg hlýindi og sól í sumar. Gekk eftir öllu veiðisvæðinu t.a. kynnast því nákvæmlega og skrái punkta í Veiði-Þór síðar. Sem betur fer þurfti ég ekki að taka mikinn afla með mér heim þar sem frystikistan er þegar full af fiski og veiðiferðum alls ekki lokið í sumar eða haust, flestu verður sleppt og reyndar þegar búið að vera mikið af slíku. Það borgar sig vart að fara í gæsina í haust, þetta er orðið hálfget Víetnam-dæmi eða álíka og ekkert nema boð og bönn, allt leigt út eða selt og lítið hægt að banka uppá á bæi eins og var þegar ég var yngri í þessu. Þá sáust þéttbýlingar vart til sveita (þoli ekki orðið dreifbýli) og veitingarnar voru þannig að þeim verður ekki gerð nein skil með orðum.

Vonandi sökkar þessi síða ekki alveg en þegar ég kom heim í kvöld hitti ég eldri son minn útivið, en hann er með það verkefni að skrapa glugga fyrir málningu, hjá honum er miður dagur um kl. 20-22:00.

Fer á Sauðárkrók á morgun að öllu óbreyttu með liðið.

Í lokin má nefna að ég kem vart til að ræða dægurmál eða það sem er talið fréttnæmt af fólki flestu eða hitt sem kemur fram í sjónvarpsfréttum þar eð ég hef ekki horft á þær á fjórða ár eins og fram hefur komið - eða var þetta orðinn lengri tími?!.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home