laugardagur, september 11, 2004

Það kostar

minna að búa á Akureyri - yfirleitt - og þá sérstaklega þegar mig vantar e-ð sérstakt, sem er nánast aldrei. Um daginn vildi ég kaupa rúm handa Ísaki, hringdi á þá staði sem selja mögulega rúm hér í bæ. Á einum stað var til rúm sem okkur vantaði, fór því í Rúmfatalagerinn (ég fer aldrei á slíka staði nema tilneyddur), keypti gott rúm, tróð því í jeppann og ók heim, setti það á stað hins gamla og ónýta sem fór útí skúr en er á leiðinni uppá hauga. Oftast er það svo að það sem mig vantar fæst yfir höfuð ekki í bænum, varla á landinu, slíkar eru sérþarfir mínar oft á tíðum.

Kosturinn við að búa á Akureyri er því sá að þar fæst afar lítið sem kostar aðeins meira, en er yfirleitt ódýrara þegar upp er staðið, það hef ég sannreynt yfirleitt. Það kostar því minna að búa á Akureyri þegar maður er haldinn þeirri áráttu sem hér hefur verið minnst á. Oftast kemst maður hjá því að kaupa nokkuð þar sem ekkert er til. Hin sparnaðarleiðin er að fara í ímyndunarverlunarferð á netinu, hugsa sig nógu lengi um hlutina og hætta síðan við allt saman. Á þessu ári hef ég sparað "milljónir" með þessum hætti. Eini ókosturinn við netið er sá að þar erfitt um vik að prófa hlutina, en í leiðinni sparar maður enn meira, þar sem ákveðin fjarlægð verður gegnum skjáinn og freistingin verður ekki hættuleg, því freistingarnar eru til þess að falla fyrir.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home