fimmtudagur, september 16, 2004

Skagafjörðurinn

er langur mjög . Ók hluta hans í blíðviðri - eins og ætíð - milli kl. sjö og átta í gærmorgun, mun minna af gæs en venjulegast á þessum árstíma á túnum Skagfirðinga sem voru ekki mjög svo illa farin eftir þurrka sumarsins eins og víða annars staðar, allir (en fáir) fóru fram úr Subaru leigubifreið minni sem er ótrúlega illa hljóðvarin frá vegi, á 90 km hraða, sem ég ek nærri alltaf á, heyrist vart í Rás eitt. Eftir að hafa talað við sextíu skjólstæðinga á þremur dögum í þessari viku, finnst mér gott að vera í hljóðinu innan um kettina.

Sat á kaffihúsi í hádeginu þar sem þrír Skagfirðingar sátu sinn á hverju borði og drukku kaffi og meðí, ég var fjórði maðurinn. Það var reyndar ekki fyrr en sá þriðji kom inn að þeir tóku tal saman milli borðanna, þeir settust ekki hver hjá öðrum. Töluðu um gamlan bónda sem ég þekkti úr sveitinni, voru að velta fyrir sér öldrun hans eða frískleika, þekktu hann allir. Þeir voru sennilega 48, 56 og 67 ára gamlir og allir útiteknir. Ég sat á milli þeirra og allt barst í eyru. Skrítið að þeir sátu ekki saman, en ekki hálf-skrítið að það þurfti þriðja manninn til að þeir færu í gang með rabbið; allt er þegar þrennt er, þrír hrafnar flugu, í heimspekinni er margt þrennt og ekkert nýtt.

Fjóspúkinn lyktaði vel á heimleiðinni.




1 Comments:

At 3:47 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Í Skagafirði.

Í blíðviðrinu berst um vitin,
svitinn.
Fjórði maðurinn finnur fnykinn,
fallegur á litinn.


Í blíðviðrinu berst svitinn
um vitin.
Fjóspúkinn finnur fnykinn,
fallegur á litinn.

besta kveðja
frændi

 

Skrifa ummæli

<< Home