laugardagur, nóvember 06, 2004

Almenn lögmál

gilda um alla hluti, hvort sem það eru uppfinningar eða lög. Þannig er einnig háttað um hringana sem nefndir voru hér um daginn, en einn lesandi (sennilega sá eini sem les síðuna) hefur komið með fyrirspurn varðandi hjúskap sinn, þar sem hvorugur aðilinn ber giftingarhring. Þessum skal bent á aðra kosti, en þeir eru m. a. þessir:
Hjón við sjávarsíðuna eða ef annar aðilinn stundar fiskveiðar (úr gjafakvótanum) geta notast við roð af fiski. Konan skal þá eiga ýsuroð og karlinn steinbítsroð, reyna með sér einu sinni í viku eða mánuði þannig að þau toga í roðið og sjá hvort það heldur eða slitnar. Slitið roð þýðir skipbrot í húskapnum. Bannað er að skerða roðið með eggjárni í leyni. Það má einnig notast við t. d. hnífa í eldhúsinu, sem missa jafnfljótt bitið og þeir eru stálaðir eða brýndir. Fólk sem vill ekki bera hringa að staðaldri, getur orðið sér úti um rær á haugunum (ókeypis), rúnað þær aðeins og slétt, sett á fingur endrum og sinnum og séð hvað gerist; gæta þó að alls kyns ofnæmi í málmhlutum. Bændur og þeir sem yrkja jörðina geta grafið hluti í jörð, þá bæði sprek og annað endingarbetra, allt eftir því hvert hugurinn stefnir í framtíðinni, því margir virðast tjalda til einnar nætur í hjúskaparmálum. Fúin spýta flýr ekki örlög sín fremur en fúið hjónaband.

Heilindi eru best í þessu sem öðru, en þau virðast eiga undir högg að sækja í nútímanum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home