sunnudagur, nóvember 14, 2004

Vaskurinn

er bilaður í Vinaminni, vaskurinn uppi á efri hæðinni á græna Arabia-salerninum, sem er orðinn svo aldraður að hann er kominn aftur í tísku að ég held. Vaskurinn hefur áður lekið og límdi ég hann til bráðabirgða, síðan eru liðin mörg ár enda með ógeð á endurbótum sem kalla á aðra en mig að lagfæra. Nú er verra við raksturinn að morgni til, þar sem lokinn sem hindrar tæmingu úr vaskinum er brotinn og bilaður, þarf að sjóða eða fá nýjan, sem örugglega fæst ekki nokkurs staðar. Ég klára þetta þó (ótrúlegt finnst flestum), en kannski er þessi bilun merki (sign) um að taka sig saman í andlitinu (höndunum) og klára fjárans baðið uppi, en í Vinaminni eru þrír ernir. Eina sem mig skortir er smá tími í þetta.

Hef engar áhyggjur af þessu og ekki ætla ég að vera með neina flottmennskustæla í endurbótum ef af verður, góður örn og vaskur er það sem til þarf með nægum birgðum af góðum rúllum, allt hitt smekksatriði. Ég hef séð hvernig Íslendingar byggja og endurbæta (í tímaritum og myndum, auglýsingum). Það er með ólíkindum og sérstaklega finnst mér undarlegt hvernig nútíma eldhús eru gerilsneidd allri tilfinningu og mýkt, þessi eldhús minna mörg hver, frekar á skurðstofur eða rannsóknastofur þar sem eyðing gerla fer fram. Spurning hversu oft lærið fer í ofninn víða, ofnar sem nema sjálfir hvaða mat er verið að elda og hringja þegar búnir; pottarnir víst svipaðir. Hverjir hafa gaman af slíkri eldamennsku?

Næst á dagskrá: afmæli hjá Hrefnu litlu (gervi-pappi hennar) sem er komin á þrítugsaldurinn, ég þarf víst að taka með mér kaffi. Hélt nú að ég gæti sparað mér það í dag.

1 Comments:

At 12:14 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

ég var nú að vonast til að sjá hann Val skrifa um kennaradeiluna og þessi ágætu lög sem á kennarana var sett. Ég geri fastlega ráð fyrir að hann hafi skoðun á málinu. Við hér í Ameríkunni fáum nefnilega vel sigtaðar fréttir, RÚV, Vísir og mbl og það er ekki alveg alltaf að marka. Ég á reyndar fjölskyldumeðlimi í faginu en þeir mega ekki segja neitt sem styggt gæti stéttina þá eru þeir vondar manneskjur á Íslandi. kata

 

Skrifa ummæli

<< Home