laugardagur, nóvember 27, 2004

Hættulegasti

maður Íslands er sennilega Fágrímsson Halldór og kjörsveinar hans. Nú hafa skoðanakannanir norðan heiða sýnt að "allir" vilja selja sálu sínu fyrir ál. Ekki bætir úr skák, freyja ein úr firðinum, sem ég hefst við í þessi árin. Því er enn mikilvægara en áður að allir haldi vöku sinni í verndun landsins og ekki hvað síst þar sem hann hefur hugsað sér að biðja um stærri mengunarkvóta; hann sem var einn þeirra sem gaf sjálfum sér fisikimiðin og kvótann.

Ég leit aðeins í bókina "Súperflört" í dag (sjá fyrri blogg mín) og þar koma fyrir sjónir eingöngu karlar og konur, sem hafa útlit þeirra sem passa í gallabuxur óbreyttar; húðin einnig óskemmd af salti og slori. Aumingja allir hinir með hitt útlitið og breytingarfötin, nema þau séu heimatilbúin. Þessi bók sýnir enn og aftur kraft markaðshyggjunnar og sérstaklega það að margir höfundar eru tilbúnir að selja sig eins og hórur; þessi höfundur hefði átt að breyta þessu ef hún (hann) hefði e-n snefil af sjálfsvirðingu, afsakanir eiga ekki við hér. Alvöruhöfundur ræður eða hlýtur að ráða því sem fram skal koma, ekki bara texta, líka öðru sem máli skiptir. Sjálfsagt gefur bókin henni meira í aðra hönd sökum þessa. Það er eins og jafn öflugt tæki og markaðstæknin (eða fræðin) komi helst fram þar sem síst skyldi á stundum. Margt mætti nú draga fram úr skúmaskotum með henni að ósekju.

Önnur bók sem vakti áhuga minn að sönnu, var ljósmyndabók RAX. Hann hefur tekið ljósmyndir sem eru þess eðlis að þær standa einar sem listaverk. Efniviðurinn hinn horfni eða hverfandi heimur norðursins. "Bestu" myndirnar klassískar og batna með tímanum. Langt bil er á milli þessarar bókar og Súperflörtsins, sem svo mjög hefur verið á lofti haldið í blöðum og auglýstu sjónvarpsefni (sem ég hef ekki horft á) uppá síðkastið.

Þetta er annars góður tími, kalt úti og stillur. Tel rétt að benda fólki að fara á listsýningu Hjartar Marteinssonar í galleríi Sævars Karls (Hjörtur kaupir ekki fötin þar!) þar sem hann sýnir öðruvísi verk. Hægt er að sjá hluta þeirra á vefsvæðinu: http://www.saevarkarl.is/hjortur/

Það er sannarlega kominn tími til að huga að listaverkakaupum, sönnum andabæti.

2 Comments:

At 9:53 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

ég spyr? hvenær verður ljósmynd áhugverð? er það þegar hún er svört eða alveg hvít? eða kannski hvort tveggja? auðvitað eru ljósmyndir bestar í hvítu og svörtu og þá án skugga en hann hefur auðvitað ekkert að gera með flörtið sem fer örugglega fram þar. það minnir mig á það að á akureyri er ekkert skuggahverfi. bara lágreist hús við eyri. ýmist máluð í svörtu eða hvítu og svo hæðirnar uppaf sem eru grænar á sumrin

 
At 7:02 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Því er til að svara að enginn dómur er marktækur, engin gagnrýni marktæk heldur, sama hvaða litur er á henni. Engar myndir eru betri en aðrar, einungis spurnig um smekk og um hann þýðir ekki að deila. Stundum líkjast svart-hvítar myndir litmyndum og öfugt. Ég held að Skuggahverfið sé ekki svipur hjá sjón miðað við hvernig það var útlits þegar ég var sendill í því og öðrum gömlum hverfum borgarinnar fyrir svona 35 árum!! Mér finnst sem flest hverfi í höfuðstað norðurlands séu hálf-gerð skuggahvefri, mest skuggar á ferli og á byggingum skuggalegur arkitektúr.

 

Skrifa ummæli

<< Home