föstudagur, desember 17, 2004

Gælunöfn

eru hluti tilverunnar í heimi hér. Önnur regla og skemmtileg er sú að kenna karla og konur við maka sinn, hvort sem það er Árni Sínu eða Árni hennar Sínu og öfugt. Þetta er víst algengast var mér sagt í sjávarplássum, en þó eru nú flest hver að líða undir lok. Sumir fá gælunöfn við hæfi en aðrir öfugsnúin nöfn. Ég minnst eins sem var með mér í barnaskóla og var ætíð nefndur Eiki feiti. Stundum birtast myndir af honum í blöðum og auglýsingum og þá er hann enn Eiki feiti, dæmigerður holdgervingur feitmetisins (ekkert slæmt um það að segja), en sjálfur hefur hann m.a. rekið saltbar. Öll familían var feitlagin og er víst enn; hvernig getur maður nú flúið erfðirnar? Eiki feiti var (og sjálfsagt ennþá) mjög glaðvær náungi og alltaf nóg að éta heima hjá honum man ég eftir þegar hann var heimsóttur. Hann brosir sama góðlátlega brosinu í auglýsingum dagsins. Á sínum tíma hefði verið óþarfi að uppnefna hann með þessu gælunafni (bar það með sér í bekkinn, aðfluttur í hverfinu!), þar sem yfirleitt voru ekki nema 2-3 af hverjum 30 strákum feitir í þá daga.

Aðrir sálmar. Gerði kjarakaup í gær sem "aldrei" er unnt að gera á Akureyri. Sparaði 10 þúsund krónur á einu símtali suður. Keypti síðan jólatré á útsölu í verslun sem er rekin af sunnanmönnum. Útsölur á Akureyri minna enn á Sölu varnarliðseigna, enda löngu hættur að reyna við útsölur almennt talað í bæ þessum þar sem Metrópólis er að rísa. Ég veit ekki hvaðan allt þetta fólk kemur sem ætlar að kaupa þessar íbúðir þar sem nærri lætur að engir englar flytja í bæinn svo að segja til frambúðar.

Legg til að Akureyri - öll lífsins gæði - ætluð útvöldum, verði nefnd Metrópólis norðursins. Hér blasa þegar við fjölmörg háhýsi, hvert öðru sviplausara. Heyr himna smiður eða smiðir; varla á færi eins manns. Halelúja! Álfadrottning er að beisla (beizla) gandinn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home