laugardagur, desember 18, 2004

30 ár

eru nokkuð langur tími þegar mannsævin er ríflega hálfnuð ef ekki meira. Í dag var ég kallaður til að flytja gamalt skrifborð út úr húsi hér í götunni, hafði borðið fylgt eiganda frá unglingsárum og síðast verið í barnaherbergi. Varð mér þá hugsað til skrifborðsins sem ég sjálfur keypti fyrir sumarvinnuhýruna 1974 eða um það leiti er ég var að byrja í menntaskóla. Þetta skrifborð hef ég síðan ætíð flutt með mér, hvert sem ég hefi nú farið, land og strönd, innan lands og utan, margsinnis skrúfað saman og sundur; alltaf stendur það fyrir sínu og skúffurnar fullar af mis-ónauðsynlegum hlutum og blöðum. Oft komið til tals að setja það í geymlsu, en alltaf kemst það upp þar eð það hefur staðist tímans tönn. Á borði þessu er æði margt sem ég hefi unnið og skapað (allir eiga að hlægja núna) og gaman væri að vita hversu margar blaðsíður hafa verið lesnar við borðið og í seinni tíð ýmis bréf og prentað efni.

Þrjátíu ára gamalt borð er skemmtilegt að eiga, að hætta notkun þess er svipað og taka eitthvað úr sjálfum sér og kasta því á haugana fyrir lífstíð.

Núna eru góð 30 ár síðan Closing time kom út með Tom gamla Waits, fyrsta skífa hans eins og fyrsta og eina skrifborðið mitt.



3 Comments:

At 12:28 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

30 ár. Þau virðast léttvæg þegar hugsunin snýst um léttari en þí þyngri hluti en skrifborði. Minnumst á tölur þ´þær kunni að vera léttar. Nefnum töluna 1070. Er þetta ártal, upphaf einhvers eða kannski dauðdagi manns - eða hunds? Hvað hefði dr. Persikov sagt í sögunni um Hundshjatað? Hver man lengur eftir skrifborðum? Ekki notaði Snorri í Reykholti skrifborð. En töluglöggur var hann og 1070 hefði örugglega kveikt hjá honum hugrenningartengsl við eitthvað þekkilegt. Tökum bara til að mynda fæðingardag einhvers virðulegs forseta. Eða hljóm í gamalli ræðu á Þingvöllum. Gæti slík hafa ómað þá? Árið 1070? Og þá úr hvaða barka? Spurningarnar eru legio. Og eftir stendur 1070 sem kvatt þennan heim. Blessuð veri minning 1070.

 
At 8:41 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Ég veit ekki betur en Snorri karlinn hafi verið teiknaður sitjandi við borðplötu eða bekk í einhverri bók sem ég las í unglingaskóla. Mér sýnast skrifborð vera á leiðinni út víða, nema kannski sem geymsluborð fyrir tölvur og fylgihluti.

Snorri hefur áreiðanlega haft borð til að leggja allar hugmyndirnar á, slíkar voru þær ef rétt reynist; varla byrði fyrir einn mann að muna eða bera.

 
At 11:27 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Í þau skipti sem Snorri sat við skrifborðsplötuna hefur hann örugglega aldrei haft grun um eða dreymt neina eða viðlíka tölu og 1070.
Ekki fól hún í sér dauðdaga hans heldur hljóm af annarri veröld miklu lengra fram. Og þótt hann hafi skynjað sína veröld sem víðóma með sonum sínum og dætrum og bastörðum - með illyrmum og ódæðismönnum verri en hann sjálfur á flökti- þá hefur skynjun hans varla náð svo langt að hann gæti séð sjálfan sig sitjandi við hversdagslegt skrifborð á fjórum fótum frá ókunnugri húsgagnagerð með Maranzt magnarann 1070 hvílandi á - hlustandi á Doors eða Lennon. En það er auðvitað önnur saga.

 

Skrifa ummæli

<< Home