Rapp-port eða
skýrslugjöf úr norðurhjáleigu er við hæfi að gefa þegar hálfgerðu óveðri er að ljúka norðan heiða, of lítill snjór þó bæst við þar sem þurfa þykir vegna vinda úr norðri. Óveður er nokkuð sem er eða hefur verið fátítt árum saman hér í bæ, minnist þó hins slæma vetrar 1995 þegar vart rofaði til frá því í janúar fram til aprílloka. Ýmislegt hefur þó safnast í hlíðar undanfarið og drengir tveir þegar búnir að prófa brettin í dag sem virka betur en flest annað til orkugjafar á allan hátt. Sjálfur fór ég út á hlað Vinaminnis í morgun og mokaði talsverðum snjósköflum í burtu.
Síðan hefi ég spilað með bros á vör og glaum í eyra "SMILE" Brians gamla Wilsons sem kom mér ánægjulega á óvart hvað gæði varðar, nærri fertugt verk loks á disk komið. Elskuleg eiginkona færði mér hljóðgjöf þessa og kom á óvart sem betur fer. Enn betra varð það þegar ég lagðist til hvílu (nærri laupnum) vel fyrir miðnætti í gær og var að hugsa um bækur sem gaman væri að glugga í (aðrar en í jólapakka voru). Var þá hugsað til Andræðis Sigfúsar Bjartmarssonar (frá Sandi og nágrenni) og viti menn; þegar nýþvegnum sængurfötum var lyft frá rekkjugrunni austan megin í Vinaminnissvefndyngju kom þar í ljós bókarkver sem lagt hafði verið af freyju minni í rekkjuna og var það sjálfur Sigfús með sín Andræði. Það verður enginn verri af því að blaða í gegnum þá bók.
Hér í fámenninu var hins vegar eintóm gleði í gær og heldur hún áfram í dag. Í gær kom ein miðdagsgjöf með kaffinu frá nágranna og vini afar mikið á óvart; nánar um hana síðar.
Gleðileg jól hinir fáu er þetta lesa stöku sinnum.
2 Comments:
Gleðileg jól til ykkar í Vinaminni frá okkur hér á sléttum norður-Ameríku. Þó svo það sé lítill snjór hér, rétt rúmlega grátt í rót eins og tengdafaðir minn segir, þá hefur kuldaboli verið allsráðandi, -27 gráður í gærmorgun og gola en all verulega mikið hlýrra í dag eða -7. Hvít jól fengum við og það afar falleg. Hér voru reyndar engin skíði, bretti eða skautar í pökkum, enda börnin orðin stór, allavega vaxin úr grasi, en hér var i-pod og annað hljóðgefandi, eins og þú kallar það.
Hafið það sem allra best, KogH
-sömuleiðis góðar kveðjur héðan frá bernskuslóðum sumra ykkar. Sendur hefur verið út annáll vestur um haf með pósti (fyrir jól) og vonandi kemst hann í réttar hendur framhjá leyniþjónustu voldugasta ríkis heims, sá er fara átti í fyrra fylgir með sem aukakostur til að villa fyrir leyniþjónustunni, ef vera skyldi að hún skannaði bréfið. Gott að sjá að þið notið ennþá Celsíus gamla í kuldabolagráðum.
Skrifa ummæli
<< Home