föstudagur, janúar 07, 2005

Ljósmyndaflóðið

hefur verið mér nokkuð hugleikið lengi og ekki batnaði það þegar keypt var ódýr stafræn myndavél í fyrra; fyrr má nú rota en dauðrota. Ein ljósmynd nægir mörgum af einstökum hlutum eða atburðum. Í ferðum mínum um heiminn og landið, klæddur og auðþekktur sem algjör sveitamaður eða utanbæjarmaður, hef ég lengi tekið e-r ljósmyndir og bestu myndirnar alltaf teknar þegar filmukaup og framköllun var (og er) kostnaðarsöm fyrir mig; árum saman lá Canon ljósmyndavél í hólfi milli framsæta bifreiðar heimilisins, hún tekin upp þegar síst skyldi og oft skilaði þessi árátta góðum myndum og eftirminnilegum en ætíð á slæður. Nú hellast yfir mann myndir af engu, 235 myndir teknar ef ekki "neinu", ekkert valið úr eða sett til hliðar, magnið yfirgengilegt. Sjálfur hef ég freistast til að taka margar myndir af ekki neinu með því fororði að þessar myndir verði e-r þakklátir fyrir síðar! Ég hef einu sinni séð eða komið á merkan stað í útlöndum (alhæfing slæm) þar sem óþarfi var að taka myndir. Hvar var nú það? Jú, í landi Egyptans við pýramíðana; þá þarf ekki að mynda, eitt af fáu sem tók sér bólfestu til eilífðar í sjónhluta heilans.

Það er sjaldan að e-ð fréttnæmt gerist útí heimi eða um það sé skrifað. Gleðin var því ósvikin þegar ég las um frumbyggja (?) eða ættbálka sem hafa þá skoðun (hvernig sem hún verður skilin til hlítar) að vilja ekki láta taka af sér myndir og segjst þá verða fyrir veikindum í kjölfarið. Þetta er ekki Hollívúdd-liðið í heiminum og á Íslandi sem reynir að forðast ljósmyndara þegar því hentar en óskar eftir papparassí-myndum þegar hentar til auglýsinga fyrir sjálft sig. Kannski geta þessar kenningar hjálpað okkur við að skilja síþreytu, slen, nútímasjúkdóma og annað sem enginn veit hvað er. Kannski eru ýmis veikindi sökum alls kyns geislunar eða slæmra orkuafla frá tækjum og tólum; blossar og flöss, sjónvörp, tölvur, símar, örbylgjuofnar, ritvélar, rafmagnsstaurar, segulbönd, ipod, hvað fleira?

Örfáar myndir komast á vegg eða verða minnisstæðar. Ein þeirra verður hér nefnd og er alls ekki í neinni mótsögn við það sem að ofan hefur verið skrifað. Ég nefndi það í einu sinni í fyrra að mér hefði áskotnast miðdagsgjöf með kaffinu sem kom mér í opna skjöldu. Þetta er mynd af mér útí garði með vinnuvettlinga, gamla Bulls-húfu og skóflu og hjólbörur nærri. Með mér á myndinni er Tom Waits með hatt og heldur hann á ljóskeri enda er myndin greinilega tekin að næturlagi. Það vita sjálfsagt fáir hérlendis að hann hafi hjálpað mér í garðinum (ekki við að jarðsetja eða grafa upp lík) en við það tækifæri hefur greinilega náðst ein ljósmynd og eftir því sem ég veit best er þetta eina myndin sem til er.

Það er þó jákvætt að allir - ég meðtalinn - sem hafa myndatökuáráttu á köflum, hafi komist í kynni við stafrænu veröldina þar sem hún getur sparað mikil óþarfa útgjöld og kennt okkur að magn er ekki sama og gæði. Best að fá sér almennilega stafræna myndavél.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home