laugardagur, janúar 15, 2005

Sá fáheyrði

atburður átti sér stað í Vinaminni í gær, að þar kom í heimsókn tengdamóðir mín ásamt síðari maka (heilögum), eftir að hafa borið með sér heimabakað rúgbrauð í rútunni alla leið að sunnan; smakkaði það í dag eftir skíðaferð og hafði þessi fæða góð áhrif á mig. Hún hefur haft það fyrir sið að bera með sér heimabakað rúgbrauð í ísboxi á síðari tímum, gjarnan smjörafbrigði með. Allt verður ljósara í heimi hér þegar ég hitti hana og má þar nefna vandræðin með brauðristina, sem hafði verið hálf-ónýt mánuðum saman, en loks varð að hætta notkun hennar þar eð rafmagnið sló út ef brauð var ristað í Vinaminni. Ég minntist þá gömlu ristarinnar hennar sem ég hafði gengið frá útí skúr í fyrra þegar ég sló eldhús hennar úr kjallaranum. Gömul Russell & Hobbs rist sem endist ævilangt eins og mörg þessara gömlu rafmagnstækja sem voru framleidd til að duga. Annað benti hún okkur á varðandi frétt um háþrýsting sem væri eða yrði meiri plága en nú er í famtíðinni. Taldi hún ekki ólíklegt að orsaka væri eða leita í geimgeislun. Þetta fannst mér góð tillaga enda læknastéttin algjörlega út að aka í eiginlegum orsökum háþrýstings, nefna ótal faraldsfræðileg atriði en vita ekki hvað veldur eða gerist í mannskepnunni nema í fáeinum prósentum tilfella þegar best lætur. Læknisfræðin hefur mörg tól og tæki til að mæla og skrá, en vitneskjan um það hvað kemur meinsemdum af stað liggur víðast grafin. Nú er í tísku að nefna erfðir og umhverfi, hvað verður næst? Hérlendis er mikilvægast að tolla í tískunni í þessu sem öðru.

1 Comments:

At 11:14 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég er nú orðin illa haldin af heimþrá af skíðalýsingum ykkar Vinaminnisfjölskyldu. Ég sé ekki fram á annað en að ferð í Fjallið góða sé eina lausn á þessu meini mínu, ekki svo að skilja að hér séu ekki nothæf skíðasvæði en þetta sem ég ólst uppí er náttúrulega það eina sem gætt er lækningamátti. Ekki skil ég í henni spúsu þinni að samþykkja ekki alsæl þá tillögu þína að skreppa í skíðafrí, það þarf náttúrulega ekki að fara til Evrópu, Norður-Ameríka hefur þessi líka góðu skíðalönd í Klettafjöllunum einu og sönnu og ef vel er planað þá gætum við nú kannski hist í brekkunum þar! Þú sérð að ég hef ákveðið að koma ykkur hjónunum til Ameríku, hvert tilefni og tækifæri skal notað til að pota ætlun minni í framkvæmd.
Kata

 

Skrifa ummæli

<< Home