þriðjudagur, janúar 25, 2005

Sótdrukkin

kona varð á vegi mínum í gær eftirmiðdag er ég var að taka díselolíu á ekki-pallbílinn sem ég fæ á stundum að aka um götur þorpsins. Hún lyktaði vel af vínanda sem er e-r besti andi sem til er ef vel er að gáð nema fyrir allsgáða. Sjálfsagt sérkennilegur staður til að stöðva ferð sína þegar kona er drukkin en hún hefur væntanlega þurft að fylla á tankinn þótt bílinn hafi ég ekki séð í fljótheitum. Hún var fremur breiðnefja af drykkju og með byrjandi brennivínsnef eins og karlar fá frekar og kallast "Rhinophyma" ("whisky nose" eða á íslensku hnúskanef!) og er reyndar ekki alltaf dæmigert brennivínsnef heldur húðsjúkdómur á lokastigi sínu. Nokkra blíðu bauð hún þeim er á bensínstöðinni voru, en samt fannst mér sem henni tækist ekki að kveikja eld (losta) í neinum sem þar voru og var það miður hennar vegna enda nægilegt eldsneyti í tönkunum eftir stoppið þarna. Síðast sá ég hana spegla sig á salerninu og karl á leiðinni þangað. Það var gott að ég dældi sjálfur á tankinn skömmu áður. Sjaldan núorðið að sjá dauðadrukknar konur síðdegis á virkum degi.

Þetta var skrítinn dagur enda e-r sunnanmaður sem átti afmæli eftir því sem best var séð á síðu hans: www.aerir.blogspot.com og smámennið er þetta ritar rakst á sendi tvær ambögur. Þetta var dagurinn sem talinn var versti dagur ársins hvað varðar þunglyndi eða svartsýni eftir því sem ég best gat séð af hlaupabrettinu í gær, a. m. k. hvað Englendinga varðar (las bara neðanmáls texta á sjónvarpinu en heyrði ekkert enda lítt kunnandi í öðrum tungum og nota ekki heyrnartól við ræktun).

1 Comments:

At 10:07 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Í hvaða þorpi býrð þú? Býrð þú utan ár eða ertu brekkusnigill? Síðast þegar ég frétti þá varstu það síðara, og stoltur af því! Ég harðneita að viðurkenna að ég komi frá þorpinu Akureyri, svona móðganir gæti enginn látið frá sér fara nema borgarbarn úr stórborginni Reykjavík!

 

Skrifa ummæli

<< Home