fimmtudagur, mars 10, 2005

Halur heim

í hlað hefur riðið eftir för í vesturveg eða það sem kallað var Vínland í einhverjum lygasögum íslenskum að sumra mati. Háðsför munu margir kalla þá för. Halur hélt utan frá norðurlandi og fékk ágætan byr yfir hafið og tók land þar sem ólíklegt er að nokkur manneskja vildi lifa; landið allt slétt og þurrt mjög, hvergi holt eða hæðir, hvað þá hinn íslenski melur með sauðkind. Hafa þurfti Halur höfuðfat úr léttu efni, en það náði hann sér í nálægt haugum þar ytra. Hjálmur og vígaklæði hans hentuðu illa. Í stað hesta og þeirra afla birtust honum einungis hestöfl í málmlíki, mestmegnis með stórum palli en slík tæki hafði Halur aldrei séð en þó svolítið heyrt af. Slíkum sögum trúði hann þó eigi enda með afbrigðum trúlaus maður. Á landssvæði því sem Halur fór um var fátt sem fyrir augu bar annað en skilti með eða án ljósa, en honum var tjáð að þetta væru s. k. auglýsingaskilti sem væru nauðsynleg öllum er þarna vildu búa af e-m ástæðum. Harður melur væri Hali þó skapi nær og hin íslenska sauðkind inná þjóðbrautinni, hvað þá hrossatað í lofti. Þessa stundina heldur Halur hins vegar til í vari í Skagfirðingafjórðungi en þangað var hann kallaður til að taka þátt í nýjum bardaga nærri Örlygsstöðum; nákvæm staðsetning eigi gefin þar sem óvinir gætu sótt að honum í svefni en sú væri þeirra eina von til að ná fram hefndum fyrir fyrri voðaverk Hals hver sem þau kallast. Höfðingjar og leiguliðar þeirra, ójafnaðarmenn og allt tiltækt lið mun væntanlega að honum sækja og því þarf hann halla höfði milli þess sem hann hamrar járn í smiðju. Bleyðimenni verða þar hvergi nærri í hans liði. Hann óttast helst áhlaup á óttunni (ekki nóttunni!). Ekki óttast hann bleyður er í borgum búa hérlendis en svo mun til vera háttað sunnan heiða en þar hefir hann meðvitað eigi numið staðar áratugum saman.

Halur heim, Halur heim, jarm eða vein frá mörgum mun hljóma.

2 Comments:

At 9:34 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Heill frændi. Hefi eg af för þinni til Orl(ofs)lands, haft fregnir handan hóls frá hauki einum en flug hans var napurt. Betr væri ef frændur færðu frændum fregnir svo ekki færust menn á mis. Nokkur tungl eru síðan eg reið daglangt Norður og brynnti ekki hestum fyrr en á bænum Akri við Eyri. Dvaldist eg þar næturlangt og hafði fylgdarlið skipað þekktum köppum. Tilgangur var að hitta frændur og styrkja blóðtengsl Norðan. Var þetta sneipuför því Frændur voru úr garði farnir en Kapparnir sneru heim eftir að hafa drukkið, etið og sofið í húsum annars höfðingja. Veturboð verða ekki þegin gjörla af þessu misseri en frændur þínir vona að þér standi gjörla í minnum höfðinglegar viðtökur sem veittar voru að Gröf í Vogi, Syðra.
kveðja,

Samr Arnar-Landi

 
At 9:55 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Heill bróðir og velkominn til þess ísa lands þar sem landslagið allt virðist vera upp í móti. Betur hefði þó verið að þú hefðir tekið með þér skilti nokkur þeirra auglýsinga úr USA sem þú hefðir síðla getað neglt niður í íslenksan svörð fyrir kindur okkarn að rýna í og skilja hvernig haga eigi ferð sinni sem næst þjóðveginum sem enn ber ekki töluna 66. Vafalaust skilja þær enskuna betur núna en þegar þær komu fyrst til landsins. Ekki
sak(g)aði að negla síðan nokkur skilti niður nærri bænum Akri við Eyri eða þá nærri þeirri heiði sem sumum hér sunnan heiða þykir lítilmótlegri en flesir aðrir hólar á landinu - svo þarbúandi gætu tamið sér sama fróðleikinn og kindurnar í Skag(k)afirði. Auðvitað allt saman vel meint þótt greina megi einhvern snert af derringi hér í en það er auðvitað veðrinu að kenna.
kveðja
HM

 

Skrifa ummæli

<< Home