föstudagur, febrúar 29, 2008

Hlaup

og hlaupársdagur hefir ætíð verið í uppáhaldi hjá Hali, allt frá fyrstu tíð og lengi vel óskiljanlegur dagur; kannski það sem hefir gert hann svo eftirminnilegan. Það er erfitt að vera bæði sterkur og frár á fæti, sterkur já, en í tilefni dagsins er gott að vera sterkur á ritvellinum. Sagt hefir verið að enginn verði ódauðlegur nema um hann verði eða hafi verið ritað, helst gefin út bók eða kver um viðkomandi; það er hið eina sem hefur sönnunargildi hérlendis og tekur Halur undir það að mörgu leiti. Ljósmyndir hafa ennfremur visst sönnunargildi og þegar sannað sig víða. Sagan segir okkur að sagan endurtaki sig sí og æ. Alltaf sama sagan. Halur minnist þess hversu gleðilegt var að lesa bækurnar hans Péturs Gunnarssonar, en hann er einn fárra sem ritar texta sem flæðir án vandkvæða, ekki upphafinn eða neitt slíkt, aðeins skemmtilega saman settur og hleypur áfram, vart að lesa þurfi, hann "les sig sjálfur".  Ótrúlegt er að Pétur skuli skrifa í dagblað á Íslandi, en hann hefir skrifað nokkra pistla í Moggann, síðast í dag. Rekur hann sögu góða af Montaigne, sem lagði þá spurningu fyrir indjána frá hinni nýju álfu Ameríku, hver væru forréttindi "kóngsins" í því landi og svar hins innfædda var svohljóðandi:"Hann fær að fara fremstur í stríði". Sögukornið staðfestir að litlar framfarir hafa orðið okkar megin í veröldinni. Að lokum skal nefnt að lífið er of stutt fyrir langlokur! Hlaupársdagurinn er eilífur og hefir sérstöðu, alveg eins og Anton Chigurh; hann sannar eins og svar indjánans að litlar framfarir hafa orðið "vestanhafs".

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home