miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Loksins fór

Halur að nýju í sínemasjó og þar barði hann augum filmuna "Broken Flowers" eftir J.J. ásamt áhugaverðri tónlist í eyrum - þó ekki Tom Waits í þessari ræmu; margir kvikmyndagerðarmenn velja góða tónlist eins og t. d. Cohen-bræður og Tarantino, þótt sumt verði vinsælt og því nokkuð þvælt á köflum. Þetta var gamaldags vegamynd að nokkru, hugmyndafræðileg úttekt á firringu og skipbroti nútímans, en allt með ánægjulegri framsetningu og misskondnum húmor. Minnti stundum á "Smoke" sem var frábær mynd og hana sá Halur fyrir slysni þar eð handritið var gert eftir sögu rithöfundar sem Halur hafði áður lesið annað efni frá. Það er ekki flókið að velja um sali í þessu sínema bæjarins, tveir salir úr að velja og Halur leit hvorki á miðana né annað, heldur gekk kl. 20.00 beina leið í sal A enda taldi hann þetta aðal myndina og hún ætti að vera í aðal salnum. Þá var myndin byrjuð þar; eftir 1-2 mín. leit Halur á húsfreyju er fylgdi honum, enda ekki gott að láta hann vera einan á ferli að kveldi til, þau horfðu hvort á annað og sögðu: "Þetta er vitlaus mynd". Síðan var haldið í sal B og þar var myndin að hefjast innan um popp og kók, smjatt á nammi og fleiru auk síma af GSM gerð sem aftur eru orðnir plága í sínemasölum. Halur vildi breyta um bekk og fékk því framgengt. Bill Murray fer fyrir liði ágætra leikara, flestir frábærir í raun og eru "ekki-leikarar" öfugt við marga sem á tjaldið komast í dag. Hann var einnig frábær í "Lost in Translation" og sumum öðrum myndum, sem reyndar fengu lélega dóma en Halur skemmti sér konunglega yfir. Sumir gengu út úr salnum í gær og það var áreiðanlegt merki um ágæta mynd, fleiri slíkar mættu hingað berast.

Í minningunni

er margt gott, ef ekki ágætt. Nú fer að hylla undir nýja salernissetu í Vinaminni, en þar mun verða veggfastur örn sem örn í bjargi. Vonast er til að hæðin verði ekki of mikil frá gólfi þannig að fætur eða stubbar Hals nái gólfi og unnt verði að ná spyrnu í harðindum garnarinnar. Gamli kamarinn var svo sem góður þegar hann var sæmilega hreinn, en þess ber að geta að all margir karlkyns þegnar notuðu hann og vissulega gat bunan farið hjá garði, en sjaldnar annað. Þetta var Arabía postulín, sem reyndar var búið að lagfæra á stundum og er þar átt við vaskinn (handlaug!). Hann var kíttaður í árdaga þar sem til stóð að lagfæra þessa sellu, en síðan eru liðin mörg ár, jafnvel tíu. Viðgerðir til bráðabirgða duga stundum betur en aðrar. Í minningunni átti Halur margar ágætar stundir á gamla erninum og með skrifum þessum er honum þakkað sérstaklega fyrir dygga þjónustu.

Að minningargreinum

undan skyldum, er fátt áhugavert á síðum íslenskra dagblaða. Eitt þeirra reynir að breytast í nútímamiðil með íhaldssamri kjölfestu á kristilegum grunni sem steyptur var í frosti, en verður svipað og þegar hinn rauðhærði gengur í bláum og rauðum fötum. Sorpsíður eru margar, texta- og málfarsvillur óteljandi þótt efnið hafi á stundum meiri þýðingu en málfarslögreglan vill vera láta í réttritunarfræðinni. Blaðamenn á Íslandi sem annars staðar vilja láta taka mark á sér, en hvað þýðir t. d. það að blaðamennska sé ámælisverð að áliti Siðanefndar blaðamanna?! Þetta er loftbóla sem ekkert vægi hefir í þessum geira, en þannig ætti það ekki að vera. Hið opinbera, Landsvirkjun og aðrar stofnanir "Ekki-lýðræðisríkisins" telja oft á tíðum að almenningur geti ekki myndað sér sjálfstæðar (les: réttar) skoðanir nema fyrir tilstuðlan og fræðslu þeirra. Hið sama gildir um dagblöðin. Gott dæmi um það er Kárahnjúkaævintýrið. Jæja, þetta er komið út fyrir það vitræna og venjulega, en þannig mun það ætíð verða. Kona kom nýverið að máli við Hal (ótrúlegt) og færði honum minningargrein um bóndason einn úr Kelduhverfi frá árinu 1997. Mörg gullkornin má þar lesa: ".. fæddist þar fyrir 70 árum og hafði hvergi átt heima annars staðar og langaði ekki að búa annars staðar..............Hann eyddi allri ævi sinni á Auðbjargarstöðum.............fór mjög lítið að heiman..........engar sjúkraskýrslur eru til um hann og hann hafði aldrei tekið inn lyf.........Ég man að hann sagði mér að hann meiddi sig aldrei........Venjulega fór hann út að slá um kl. 4 á morgnana og sat á vélinni sleitulaust í marga klukkutíma en þessar vélar voru nú bara með járnsæti. Bjarni bruðlaði ekki með vélarnar". Margt í athöfnum Bjarna getur Halur tekið sér til fyrirmyndar og sjálfur sér hann ýmislegt sem þeir hafa átt sameiginlegt.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Hjá sumu

verður ekki komist. Ekki hefir Halur það að atvinnu að gægjast á bloggsíður annarra, en hins vegar var tölvuvél húsfreyjunnar opin og þar var texti sem ekki verður hjá komist að minna á; þetta var alls engin hnýsni. Þess má geta að skrifin eru á bloggsíðu menntaskólakennara á Akureyri, sem skyldur er húsfreyju í Vinaminni. Enn mun það vera svo á Akureyri að starfsheitið "menntaskólakennari" hefur yfir sér þægilegan og virðingarverðan blæ. Aftur að hinu er máli skiptir; textinn var þannig (vísan):

Mín að telja afrek öll
ekki er nokkur vegur.
Ég hef ístru, ég hef böll,
ég er guðdómlegur.

Halur spyr: kannast einhver við vísu þessa? eða getur bætt um betur fyrir vetur!?

Venjur

geta ýmist verið ágætar eða slæmar, verri. Halur hefir farið til veiða í Mývatnssveit og Laxárdal í samnefndri á er þar rennur árlega í 11 ár og samanlagt í rúm tuttugu ár. Ferðirnar þangað skipta tugum á þessu tímabili en í seinni tíð reynir Halur að dvelja í sveitinni fjóra daga í senn og þá 2 fastar slíkar ferðir á sumri; stakir dagar stundum á milli ef vel tekst til. Ferðir þessar verða með ári hverju æ mikilvægari og ánægjulegri og ætíð eitthvað nýtt er gerist í ánni, veiðihúsinu, matargerðinni, félagsskap og ekki síst veðrinu. Þessa daga hefði þurft að skrá hitastigið alla dagana með tveimur aukastöfum ef vel ætti að vera, en hitinn var 1-4°C og allar gerðir veðurs sem hugsast getur nema frost við veiðar með frosinni línu. Íslendingar kalla veður það er þessa daga var í sveitinni "skítaveður". Fátt elskar Halur meira en að vera utandyra í vondu veðri og þá rétt klæddur. Aftur að skítaveðri; þar er enn og aftur margt sem leynist í því orði og sumt tengt því er úr görninni kemur. Stjáni fékk sér t. d. þrumara með síld, eggjum og smjöri í morgunmat ásamt asídófílus áður en hann hélt í Brotaflóann. Halur var við veiðar hinum megin í Helluvaðslandi og kölluðumst við á stöku sinnum og tjáði hann Hali að hann hefði losað sig áður en hann hélt til veiða í kjölfar morgunverðar og góður vindur léki um vöðlurnar, reyndar talsverð hlýindi. Í þessari ferð sannaðist enn einu sinni að í veiðum gilda einungis almennar reglur en ekki lögmál eins og í stærðfræði. Veiðin sjaldan eða aldrei glæsilegri og ánægjulegri með öllu sem tilheyrði.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Embættismannabúningar

eru nokkuð sem Halur hefir ætíð verið spenntur fyrir þar eð hann klæðist venjulega sömu fötunum, hvort heldur heima fyrir (sem hann er iðulegast) ellegar fjarri garði. Hann vill kalla klæðnað þennan hinn nýja þjóðbúning en hann saman stendur af: blárri flíspeysu frá 66°N, þunnum bol innan undir, þunnur vindjakki yfir flísið eftir þörfum eða þykkari jakki, helst regnheldur alveg ef því er að skipta, gamlir vettlingar eða hanskar sem unnt er að nota bæði til hjólreiða og eða útivistar ef napurt skyldi vera, sem er oftast á landi hér, grænar buxur, útivistarbuxur (helst sænskar), sem því miður hafa verið nokkuð í tísku s. l. ár eða svipaðar, Halur á tvennar alveg eins þannig að ekki þarf hann að hafa áhyggjur ef aðrar óhreinkast um of, sokkar þunnir eða þykkir eftir því hvað gert er ásamt leistum þegar gengið er í gúmmístígvélum sem er oft og iðulega, aukalega gönguskór eða strigaskór að sumri, gúmmíúr í vætu eða við veiðar, húfa eða derhúfa. Þannig að ef karlmaður sést á víðavangi eða villtur innanbæjar klæddur þessum fötum, þá má gera fastlega ráð fyrir því að þar fari Halur hjá. Halur mun enn og aftur halda austur yfir heiðar og verða þar við veiðar og veðurathuganir næstu daga og hann mun vera í þjóðbúningnum að hluta auk vaðfata.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Einstök orð

geta vafist fyrir Hali en önnur geysast fram í réttu samhengi og nýyrði gerð í framhaldinu eins og þegar hugsað er til orðanna að þjóta, þytur og þota svo einfalt dæmi sé tekið. Lengi hefir Halur velt orðunum fnjóskur, Fnjóská og Fnjóskadalur fyrir sér og ekki batnaði það er hann var að veiðum í ánni sem kennd er við þennan langa og fjölbreytilega dal, þar sem vöxtur gróðurs og trjáa er sérlega mikill svæðisbundið. Svipuð, en einfaldari eru t.d. orðin hnjóskur, hnjótur, að hnjóta, hnjóskulegur. Nokkur orð byrja á fn- og fnj- í íslensku máli, en þau eru fá. Hin íslenska orðsifjabók Ásgeirs Blöndals kemur oft að góðu gagni er uppruni orða er athugaður. Vissulega koma þar fram ágætar skýringar og tengsl milli t. d. orðanna fnjóskur ("þurr og feyskinn trjábútur, fúið viðarsprek") og fnjóskþurr ("skraufþurr") sem og tengsl þeirra við hljómlík norræn nöfn eða heiti. Eftir að Halur er nokkuð sáttur við sennilegustu skýringar á orðinu Fnjóská, vill hann við bæta að þar er á ferðinni fljót er einna hentugast verður að teljast til að læra fluguköst og annað er að þeirri athöfn eða íþrótt viðkemur; langar og styttri lygnur, strengir misstríðir, flúðir, fossar, hyljir, steinar, enginn botngróður til trafala, nærri engar botnfestur, fáir bakkar til að festa bakköstin fyrir óvana, unnt að veiða vestan og austan ár eftir vindi, góðir steinar að setjast á og borða nestið sem þúfur og trjálundir, fjölbreytt landslag, gljúfur, háir og lágir bakkar. Mikill viðauki verður er fiskur tekur fluguna.

Halur hyggur að fáir hafi velt þessum orðstofni fyrir sér og þar fer hann fyrst og fremst eftir ókunnugleika þeirra er voru við veiðar í Fnjóská fyrir skömmu, allt prýðilegir veiðimenn og vanir ánni, en ekki grunur um þýðingu orðsins, sem var upphafið að þessum pistili með þýskum útskotum. Pistillinn var eingöngu skrifaður til að upplýsa vandamál er Halur getur glímt við árum saman, þótt þau virðist ekki miklu máli skipta suma aðra. Þannig er líf Hals og að lifa með Hali.

Stöku sinnum

rekst Halur á eitthvað sem minnir hann á gamla tíð eða tíma og jafnvel er hann var yngri. Flestir lestir manna á almannafæri eru illa séðir nú til dags. Einn þeirra bar þó fyrir sjónu Hals norðan gömlu verksmiðjusvæðanna í dag, þar sem nú er óhugnaður í verslunarlíki. Rétt við árbakka Glerár er biðskýli fyrir þá er taka strætisvagn milli staða. Fyrir nokkru las Halur í enskri skáldsögu (skemmtilegri) að þeir einir notuðu almennissamgöngur og vagna er annað hvort væru fatlaðir, þroskaheftir, á vergangi, heimilislausir, dópistar, ellilífeyrisþegar, öryrkjar og bílprófslausir eða nýlega fullir undir stýri. Þessi upptalning sýnir að illa er komið fyrir hinum er ekki nota t. d. strætisvagna. Einn hópur kannski til viðbótar eru stjórnmálamenn í kosningabaráttu. En aftur að lestinum góða er Halur varð vitni að; miðaldra maður, sennilega Hali ókunnugur, en ekki öruggt þar eða Halur sá ekki "allt" sem sjá þurfti til að þekkja viðkomandi, stóð aftan við biðskýlið og var að míga. Alltof margir eru væntanlega búnir að gleyma því hversu gott það er að míga utan dyra og Halur hlakkar ætíð til ferðalaga (sem ekki eru mörg) eða veiðiferða þar sem hann getur óhikað og án afskipta mígið hvar sem er. Í framhjáhlaupi má nefna að Halur meig nokkrum sinnum á Melarakkasléttu í gær og það einnig norðan 66° sem ver ekki leiðinlegt.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Beitiskipið

Pótemkín eða hvað það hét nú, hvað þá Pótemkín tjöld koma upp í hugann er Halur flettir í myndaröðum teknum s.l. ár eða tvö og Halur kemur fyrir á nokkrum (ekki mörgum) myndum. Hann er alltaf í sömu fötunum, hinum sömu og hann gengur enn þann dag í dag, sömu fötin í París, Reykjavík, Orlando og Akureyri. Hið eina sem skilur á milli er klæðnaður sem ekki sést á myndunum; nærbuxur og sokkar. Myndirnar gætu allt eins verið teknar allar með tölu í Vinaminni með leiktjöld (Pótemkín tjöld) að baki Hali. Þessu mun Halur huga að næst.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Gengið í bæinn

á Akureyri, lítið nýtt að sjá eða heyra, enda fáir á ferli. Farið hjá gamalli verslun, dyrnar eru opnar, kannast vel við kaupmanninn er situr á stól innan við búðarborðið eins og hann hefir gert áratugum saman að ég held. Þetta er ekki lágvöruverslun en hins vegar fæst allt þarna milli himins og jarðar, en lítið af hverri sort; fetaostur í krukku, grjón, hafragrjón, sælgæti, sósur, matarlitur, mjólk, ávextir, brugggerðarefni sem er komið fram yfir eindaga og bruggast því hratt og vel, allt milli himins og jarðar. Hann segir mér af konu sem þyrfti að eiga hjól til að fara á klósettið að nóttu, því svo oft fer hún þangað. Í efstu hillu er gult spjald þar sem á stendur: "Þær pípur sem hér eru fyrir aftan mega ekki sjást". Hann rabbar við Hal eftir að hafa fært syninum gotterí eftir vali, sem ekki var óvinsælt, allt ókeypis. Í búðinni voru tveir góðkunningjar, annar með "SOL GRYN" pakka á borðinu og nýbúinn að opna bjórflösku sem hann drakk af í búðinni meðan hann hlustaði á samræður Hals við búðarmanninn; annar góðkunningi bað okkur vel að lifa og sagðist þurfa að skreppa heim. Hið sama gerði Halur. Þessir menn eru hverfandi list.

Þau undur

og stórmerki gerðust fyrir nokkru, að Halur fór til veiða í Fnjóská, en þar hefir hann aldrei feykt flugu í fljót; fljót er sumir hafa nefnt "Dauðafljótið". Ekki er það ætlan hans að stæra sig af veiðisögum, það er honum fjarri, enda var hann síðasti maður inn í hollið, er skipað var stórum veiðimönnum og afreksdrengjum á bökkum árinnar. Hann heyrði því fleygt að hann hafi fengið boð um veiðiferð þessa eftir að búið var að hafa samband við alla veiðimenn norðanlands og marga þar af á Fjórðungshælinu. Síðar komst hann betur að því hvers vegna sumir komust ekki.

Aðalupplifun Hals í ferð þessari var sú að kynnast algjörlega nýrri hlið á karlmönnum er hrjóta; áður hélt hann að það væru aðallega konur sem hrytu, en svo er margt hjá Hali og einfeldni hans ríður ekki við einteyming eða hvað? Hrotur hefir Halur skilgreint að nýju eftir ákveðnum kvarða eða stigakerfi sem er þannig (miðað við átta klukkustunda svefn að nóttu eða degi):
Stig 1: 1 klst. svefnleysi fyrir hrotum
Stig 2: 2 klst. " " "
Stig 7: 7 klst. " " "
Stig 8: 8 klst. " " "

Halur komst nefnilega að því að í för þessari var maður nokkur af Hælinu er hraut svo að fjölkunnugt var meðal veiðimanna. Talið er víst að einn hafi hætt við för sökum hættunnar á að lenda með honum í herbergi en það mun hann margsinnis hafi áður gert og brotið veiðistangir við að ýta við honum, öllu lauslegu kastað áður að honum án árangurs. Hann hrýtur í öllum stellingum, jafnt á grúfu sem baki, vinstri sem hægri hlið. Fyrri nóttina vorum við tveir með honum í herbergi, Halur og gamall innflytjandi að vestan með ítalskan bakgrunn. Um miðja nótt reistum við báðir höfuð frá svæfli og horfðum hver á annan og sögðum samhljóða: "Er hann dauður!". Ástæðan vár sú að hann hætti hrotum í 2-3 mínútur og ekki stóð til að endurlífga hann ef svo hefði verið. Fyrri nóttin var uppá 7-8 stig á hinum nýja kvarða, en hin seinni 5-6 stig eftir atvikum þar eð innflytjandinn svaf í stofunni hálfa nóttina. Annan daginn stóð til að leggja sig eftir matinn, en viti menn. Kappinn vildi leggja sig og eftir 3 mínútur var hann byrjaður að nýju að hrjóta. Í framhjáhlaupi skal nefna að maður þessi er ýmsum öðrum kostum búinn og er ágætur vinur Hals, frábær veiðifélagi, kurteis og tillitssamur í öllu er á bakkann er komið.

Kannski verður fleira sagt frá ferð þessari síðar.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Ómetanlegir

hlutir eru sjálfsagt afstæðir; náttúran við Kárahnjúka er út af fyrir sig ómetanleg þótt alltof fáir hugsi (finnst Hali) til enda hvað felst í því að vera ómetanlegur. Sumir hlutir sem eru mikilvægir en ekki ómetanlegir, koma alltaf fyrir öðru hvoru. Nú væri til dæmis ómetanlegt ef einhver gæti sagt Hali reynslu sín af gerð tortillas, tortillur, hveitikökur mexíkanskar að uppruna þótt sumar aðrar gerðir finnist og gerðar eru úr mismunandi hveititegundum og maísmjöli. Einnig eru til slíkar kökur á Spáni, en þær hefur Halur ekki étið með vissu í herförum þangað. Einnig væri gott að vita hvernig fræðingar matreiða þessar kökur, þ. e. hvort þeir grilli þær, steiki eða hiti á pönnu eða öðru, jafnvel djúpsteiki en það gerir Halur aldrei. Kökurnar sem fást í búðunum eru í raun óætar þótt Halur hafi látið sig hafa það að gleypa þær, en vissulega væri ómetanlegt í þessu samhengi að fá "orígínal" kökur og leiðbeiningar um gerð þeirra.

Ómetanlegt var einnig að fá aðstoð nágranna við að fara á haugana rétt fyrir lokun.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Nýtt spjald

eða merki, teikn - var tekið í notkun í dag í Vinaminni; áður kannaðist Halur við litina þrjá sem allir þekkja og hann einnig. Nú er ennfremur unnt að beita "tæm-át" merkinu, sem unglingar kalla í dag, tíminn búinn, leikhlé, pása eða hvað eina sem við viljum kalla það. Tafarlaust verður Halur að stöðva tunguna er frúin sýnir honum þetta tákn eða merki og ekki má hann byrja aftur fyrr en hún segir eða gefur merki um slíkt. Halur er þakklátur þessu nýja tákni og telur að það verði honum til framdráttar með árunum því hver man ekki eftir hinum ofnotaða frasa: "Góðir hlutir gerast hægt". Halur hefir það á tilfinningunni að þeir noti þennan frasa mest er minnst þurfa að bíða. Margt er ofnotað á landi voru, margt er orðið þreytt.

Eitt nýtt, en þó gamalt í minningunni, sá Halur í dag, en það voru unglingar í vinnuskólanum að borða nesti og drekka vökva; það sem var gamalt og gott var hins vegar aðferð sú er þeir beittu til að hvílast. Notuðust þeir við hjólbörur uppá endann og sátu í börunum, þannig að úr varð hægindastóll, ekki ólíkur hinum ofnotaða (upprunalega ágætur sjálfsagt) Le Korbúsíér, en helstu arftakar hans hérlendis eru stólarnir dönsku sem nánast eru komnir inná salerni Íslendinga. Annars er Halur (jafnvel) aldrei þessu vant í ákveðnu átaki fyrir andann, annarra vegna!

mánudagur, ágúst 08, 2005

Fyrsti hausinn,

já, fyrsti hausinn var skorinn af í dag eða réttara sagt fyrir kvöldmatinn sem var fremur seint á ferð ef mið er tekið af venjum Vinaminnisbúa. Fyrsti hausinn af spergilkálinu sem vaxið hefur þokkalega síðustu 2-3 vikurnar og rétt farin að koma blóm, gul að lit, á kálið þannig að best er að eta það reglulega á næstunni. Furða hvað unnt er að rækta án nokkurrar þekkingar eða reynslu af slíku grænmeti eða káli; annað kál er bragðað var í dag var minna vinsælt en Halur lét sig hafa það; hann kastar aldrei kálhaus á haugana nema í neyð. Jarðarberin á leiðinni vonandi. Engin jarðepli eru ræktuð þessi árin í Vinaminnisgarði sökum lítilla vinsælda, nema fyrsta kastið í pottinn. Verkefnin hópast kringum Hal og betra að hann reyni að sýna einhvern lit og frumkvæði ef ekki skal illa fara; það mun þó reynast honum erfitt sem alla jafna.

Suðurför Hals gekk stórslysalaust; sjaldan þurfti að sýna honum gulu eða rauðu spjöldin og húsfreyjan varð vonandi e-s vísari um galla (varla kosti) Hals er hún sá náfrændur og ættmenni honum nærri; enginn flýr ætternið.

Von er á stórveiðimanni í garðinn, þannig að best er að æfa köstin.