Fyrsti hausinn,
já, fyrsti hausinn var skorinn af í dag eða réttara sagt fyrir kvöldmatinn sem var fremur seint á ferð ef mið er tekið af venjum Vinaminnisbúa. Fyrsti hausinn af spergilkálinu sem vaxið hefur þokkalega síðustu 2-3 vikurnar og rétt farin að koma blóm, gul að lit, á kálið þannig að best er að eta það reglulega á næstunni. Furða hvað unnt er að rækta án nokkurrar þekkingar eða reynslu af slíku grænmeti eða káli; annað kál er bragðað var í dag var minna vinsælt en Halur lét sig hafa það; hann kastar aldrei kálhaus á haugana nema í neyð. Jarðarberin á leiðinni vonandi. Engin jarðepli eru ræktuð þessi árin í Vinaminnisgarði sökum lítilla vinsælda, nema fyrsta kastið í pottinn. Verkefnin hópast kringum Hal og betra að hann reyni að sýna einhvern lit og frumkvæði ef ekki skal illa fara; það mun þó reynast honum erfitt sem alla jafna.
Suðurför Hals gekk stórslysalaust; sjaldan þurfti að sýna honum gulu eða rauðu spjöldin og húsfreyjan varð vonandi e-s vísari um galla (varla kosti) Hals er hún sá náfrændur og ættmenni honum nærri; enginn flýr ætternið.
Von er á stórveiðimanni í garðinn, þannig að best er að æfa köstin.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home