miðvikudagur, júlí 13, 2005

Engin ördeyða

var í veiðinni í Mývatnssveit síðustu daga, enda vel hvasst og hvassviðri gefur oft fyrirheit um góða veiði þótt misjafnt verði nú á stundum flugu að feykja; Halur vill hins vegar ekki í nokkru mæli sér hreykja, það gera eigi smæðarmenni í líkingu við Hal. Halur fór sem sagt í veiðiferð, eina af nokkuð mörgum gegnum tíðina á svæði þetta þar sem hólmar eru taldir í hundruðum. Áin mun kaldari en í fyrra á sama tíma, minna vatn í henni sem kemur sér aldeilis vel fyrir jafn lágvaxinn hal og Halur er, hálfgerður dvergur. Þessa dagana er kvótinn fjórir fiskar á dag; mörgum finnst það alltof lítið, öðrum við hæfi og enn aðrir segjast vilja sleppa öllum fiski eða drepa allt! Ljóst að áin þolir vel að gefa nokkra fiska á dag og aðal rökin kannski Hals megin að þetta er herramannsmatur sem hvergi er fáanlegur lengur (margir mega ekki slíkt heyra og Halur veit að ísbirnir fást ekki í "Klónus") og meðan áin þolir þetta og jafnvel batnar að nokkru þegar mestu er sleppt, þá er Halur fylgjandi því að drepa einhverja fiska sér til matar. Hann veit þó af tilboðum verslana og nægt er framboðið af alls kyns tilbúningi; hreinræktaður villtur fiskur er þó hvergi neitt líkur hinum tilgerða.

Halur kvað við árbakka:

Óljúfur verð, ef urriða meiði,
einstaka þó til matar deyði.
En í hugann greipi,
hjartnæmt skeyti:
"Hámarksgleði yfir lágmarksveiði."

3 Comments:

At 10:22 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

glaðst skal yfir góðri veiði,
og gleðistund við straumsins nið.
veiðisögu vin minn beiði
veita eftir langa bið.

annars bara ein spurning, hvurning mæli gengur halur með til veiða, rectal, oral eða hvorutveggja.

 
At 10:29 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

þetta með hitastigið vakti nokkra athygli, eflaust meiri en halur hefur vænst. þessi limrulíking er því handa honum:

Þó af veiðisögum sér halur hæli,
og í huganum við þann stóra gæli
þykir það títt
og þónokkuð nýtt
að mikið hann veiðir með hitamæli

 
At 7:32 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Halur notar ætíð hendur eða fingur til að finna hita í iðrum eða húð, sama gildir um árvatn og annan vökva. Hann hefir þó nokkrar áhyggjur af óró-rektal mönnum(ekki Lóreal snyrtivörum), veit þó að þeir vilja lítlmagna sem Hali vel. Halur kvað:

Eigi vil ég öðrum hallmæla,
enn síður láta skæla;
veit þó eigi enn,
hvað óró-rektal menn,
eiginlega er´að pæla.

 

Skrifa ummæli

<< Home