sunnudagur, júní 19, 2005

Tveir kappar

úr heimi myndasögunnar hafa Hali verið hugleiknir gegum tíðina; Zorro, Sorró, Zorró og Batman, Battmann, Leðurblökumaðurinn í góðri þýðingu íslenskri. Zorró þarf eiginlega að vera með zetu, setu, annað ótækt. Flest úr dramasmiðjunni vestan hafs fer fyrir ofan garð eða neðan, og talsverðar áhyggjur voru hjá Hali er hann fór með Ísaki í kvikmyndahús að berja Leðurblökumanninn augum og eyrum, enda hljóðið nærri orðið aðalatriðið í mörgum kvikmyndum nútímans. Þetta gekk þó bara bærilega að koma kalli á tjaldið, en nokkrar áhyggjur hafði Halur af því hvort e-r möguleiki væri á myndefni eftir hlé; það gekk sæmilega ef mið er tekið af mörgum myndum síðustu ára. Skemmtilegur var hann Ísak í húsinu (sem og aðrir er með fylgdu í för þessari) og ekki verri er Halur var að velta því fyrir sér hvers vegna hann væri hálf-spar á nammið sem hann hafði náð að punga út, þ. e. ekki mikið fyrir að deila því með þeim er sat honum næst. Hann svaraði um hæl á þann veg, er þetta kom til tals, að Halur hefði bara sjálfur getað keypt sér nammi ef hann vildi eða langaði í. Eftir að kvikmyndin tók enda, var farið út í kalt norðanbálið á Ráðhústorginu, sem aldrei þessu vant var kvikt af lífi, enda frábær rokkgrúppa að spila, allt hrisstist á svæðinu, meira að segja undirlagið, gangstéttin hvar við stóðum og "hlustuðum" hrollkaldir á rokkið ódauðlega, læf tónlist er alltaf sönn.

3 Comments:

At 7:39 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þessi Batman mynd er mjög góð enda hæfur leikstjóri við stjórnvölinn (sá sem leikstýrði Memento). Frábær aðalleikari spillti heldur ekki fyrir. Christian Bale er einn af mínum uppáhaldsleikurum. Mæli með honum í American psycho sem er byggð á bók eftir Bret Easton Ellis. Myndin nær anda bókarinnar mjög vel og Bale er fullkominn í hlutverki Patrick Bateman. Sagan er ádeila á uppa níunda áratugarins (circa 1987) í BNA.

Kveðja

Arnaldur

 
At 11:02 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Halur tekur undir þetta frá frænda, sem segir ekkert nema ígrundað og þá sérlega þegar mið er tekið af ungum aldri. Bale er betri en þessir tannkremsgæjar sem sjálfsagt hafa að aðalatvinnu að láta löðrunga sig og geta allt eins verið á kamrinum daglangt án þess að trufla göngu Hals um kvikmyndahús, en slíkar göngur eru of fáar. Leðurblökumaðurinn stendur alltaf fyrir sínu ef hið táknræna gervi og hjálpartæki fá að njóta sín á hvíta tjaldinu. Verst að hann var ekki á "Bimmanum" á klakanum.

 
At 1:48 e.h., Blogger Elísabet said...

ég hef hingað til verið lítt gefin fyrir leðurblökugæjann, fór þó í bíó með ungum syni (og öldnum kalli). hreifst ákaflega af myndinni - þarna var verið að segja góða sögu en ekki drekkja manni í tæknibrellum og græjusýningum. frábær ræma.

 

Skrifa ummæli

<< Home