fimmtudagur, maí 26, 2005

Hinn ágæti

musculus cremaster hefur vitjað Hals í svefni, jafnt í bundnu máli og óbundnu, eigin snertingu sem hugarvíl. Halur hefir hins vegar aldrei haft nein not af vöðvanum eða látið á hann reyna, enda einmenningur og stundar skírlífi algjört. Eina undantekningin er kannski sú er hann hljóp á eftir skepnum til sveita og heiða forðum, en hlaupageta hans er engin núorðið fremur en önnur. Vinur hans reynir þó að upplýsa hann um misgjörðir þessa vöðva er kyndjörfung áhrærir meðal fullsterkra manna, en sumum hefir hann komið óorð á fremur en bónorð(i).
Halur kvað eftir vin sinn er hafði nýlega legið hjá kerlu og orðið undir:

Herra cremaster, hann er snúinn
og höndum strýkur algóð frúin;
en einmitt núna
og eftir frúna,
auminginn virðist búinn.

Halur tekur að sér að gefa mönnum ráð til að þjálfa cremaster-inn, en einungis ef gild rök fylgja og nánari vísbendingar eða annað er staðfestir þjálfunarskort eða vanhæfni mikla.

2 Comments:

At 10:50 f.h., Blogger ærir said...

Vini mínum í norðuramti, þeim er lifir skírlífi á laun, er umhugað um kremastervöðva. Margt verður mér að innblæstri, en undirritaður veit lítið um antatomíu og sálarfræði þessa líkamshluta. Þó sendist norðuramtsins limruhöfundi og lífskúnstner þessar rímur, sem má kveða með þeim hætti sem hver vill. Þær eru ekki fyrir viðkvæma.

Engin not ég af þér hef,
útí horni einn ég sef.
Kremaster og kvennaþref,
hvorugt lengi nú við tef.

Átti stundir uppi sveit,
ekki þar á konu leit.
Inn í grónum grænum reit,
gekk þar fé og var beit.

Lögðust þar í lautu sátt,
lengi stóð en gerðist fátt.
Síðar hann þó dreymdi um drátt,
og dapurlegt kom sáðlát brátt.

Aftur stóð þar upp á hól,
út í vestrið hneig nú sól.
Áður en haninn aftur gól,
aftur fór að kitla tól.

Míkið reyndi við master kre,
mátulega vildi hlé.
Vöðvi litli vesæll hné,
varla er nú hvorki né.

Langtum best í lífi skír,
lifa skaltu drengur hlýr.
Alltaf verður eins og nýr,
enda margt sem í þér býr.

# posted by ÆRIR @ 27.5.05 0 comments

 
At 8:30 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Stundum góðar strákur hafði,
stundir "einn" í haga.
Heimasætur ljúfar lagði,
langa sumardaga.

 

Skrifa ummæli

<< Home