sunnudagur, maí 15, 2005

Draumur mannsins

(Homo sapiens) um að geta flogið sem fuglinn eða vespur háloftanna er varla nýr af nálinni. Flugið er heillandi í sinni fjölbreyttustu mynd sem og tegundirnar allar. Halur tók sér stöðu í morgun við Leirurnar nærri flugvellinum norðan heiða og fylgdist með vaðfuglum af öllum helstu tegundum í blíðunni en nokkrum norðan andardrætti er kældi fingur á sjónauka. Halur var þar svo heppinn að sjá meðal annars jaðrakanapör (Limosa limosa islandica), sennilega pör þar eð þau voru samstíga og jafnvel annað þeirra á flugi saman sem mun vera háttur marga fugla. Það er gaman að velta fyrir sér íslenskum og erlendum fuglsheitum, þ. e. þeim er fest hafa í dægurmálinu, máli sem allir skilja; þessi heiti eiga sjaldnast nokkuð skylt við fræðiheitin nema að hluta til, nema íslensku heitin hafi latneskan grunn sem er eða var nothæfur. Í nýlegu ársriti Fuglaverndar, "Fuglar", er gerð grein fyrir sambúðarmálum og skilnaðartíðni jaðrakana og fleiri fugla lítillega. Rætt er um samband skilnaðartíðni og komutíma parsins á varpóðul, en hjá íslenskum fuglum mun sú tíðni vera um tíu prósent ef bæði pörin koma að nýju á varpstöðvarnar. Afar áhugavert væri að fá nánari vitneskju um fleiri íslenskar tegundir, og ekki hvað síst eiginleika farfugla að koma að nýju á sama eða svipuðum tíma til landsins, jafnvel þótt dagleiðir séu á milli para erlendis eins og oft á tíðum mun vera. Einkvæni mun vera stundað hjá tíunda hluta spendýrategunda en hjá níu af hverjum tíu fuglategunda. Erfðafræðin hefir reyndar komið hér til skjalanna með nýjar upplýsingar er segja að iðulega stundi fuglar framhjáhald og jafnvel 3/4 hlutar stundi slíkt og því margur fuglinn eigi rétt feðraður (fiðraður).

Á sama tíma og Halur sat í fjöru fóru flugvélar um völlinn, tveir fokkerar lentu og tóku sig á loft að nýju á einni klukkustund og Hali fannst það undarlegt á hinum hvíta degi kristninnar; í innskoti má ekki gleyma Hvíta-kristi úr Eyjafirði er meðal annars barmi hefur gert góða grein fyrir í listaverkum sem eru einstök en sennilega enn fáanleg hjá listamanninum. Þeir bestu hafa aldrei selt list sína í lifanda lífi. Mikil umferð fór hjá og jafnvel langferðabílar með fólki. Skýringin var víst sú að þotulið listarinnar var að koma norður t.a. heilsa uppá "þreytt" vélindadæmi í listasafninu, vélindað er líffæri sem best er að láta óhreyft. Margt í myndlistinni er jafn þreytt og leikhúsið. Dögurður var þar i boði fyrir innabæjarkróníkerana sem geta þá vonandi komið sér blað listaþotunnar eða jafnvel um borð. Rétt í lokin sá Halur undarlegt flugfar hefja sig á loft, flugfar með hreyfil að aftan og spöðum og einn maður sat í lausu lofti, nokkurs konar vespa háloftanna.

Það er þó umhugsunarefni hvernig fuglaáhugi Hals birtist eftir að hafa lesið þetta og enn ein tilviljunin gerðist fyrir skömmu er Halur fjárfesti í hljómdiski með Antony and the Johnsons er heitir "I am a bird now" en Antony (ekki Anthony) minnir á gamla takta Brjáns gamla Ferju og nokkurra annarra sem gamlir eru orðnir eða dauðir.

Nóg af skitsi í bili.

2 Comments:

At 11:17 f.h., Blogger ærir said...

Vinir mínir allir sem einn dást að fuglaáhuga Hals frænda okkar. Þannig senda Skammkell og Fimbulfambi Hali norðan kveðjur sínar, og óska honum góðrar heilsu og langlífis. Enda er einn laukur í ætt hverri, sbr. lögmál erfðavísindanna.

Annars er með hálfum hug sem við stingum penna og tjáum okkur um fugla á þessari síðu. Þannig hafa virkjast lögspekingar sem hafa tjáð sig um meint lögbrot Æris og frúæris, þar sem af tilefnislausu Ærir vildi geta um varpóðul jaðrakans á jörðs sinni. En í ríki náttúrunnar, en þau bæði eru mikil nátturubörn, er óðalsgerð sjálfsagður hlutur, sbr lærðan pistil Hals í dag um varpóðul.

En Ærir er illa að sér í bókmenntum og mun verri en lögspekingar sem vitna í góðbókmenntir og nota kenningar í prósum sínum. Allt er þetta framandi fyrir Æri og vini hans sem eru einfaldirí hugsun. Hins vegar hefur hann það fyrir sið að eigi skuli sitja á friðarstóli bjóðist ófriður og þakkar ábendingu um að auðvelt muni að hefja deilur við óbyggðanefnd.

Taka skal fram að jörð Æris og frúæris er hvorki almenningur né afrétt. Um er að ræða eignarland en óvíst er um afréttareignir og afréttarítök. Þar eru varpóðul jaðrakapars amk eins og telst því af náttúrunnar hendi óðalsjörð og þar má beita hrossum og því beitarland. En þetta er auðvitan utan allra lögfræðihugtaka.

Þakkir og kveðjur skuli Hali færðar enn á ný.

 
At 9:04 e.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Halur biður fyrir Æri og "Frúæris" vísar til skrifa á síðu hans til hughreystingar (ekki hughreistingar)!

 

Skrifa ummæli

<< Home