föstudagur, apríl 22, 2005

Fæst orð

bera minnsta ábyrgð, stendur e-s staðar skrifað, en þetta hefur Hali stundum komið til hugar þegar hann rekst óvart inn á kvennabloggsíður; þar er víst að sjaldnast hafa þær er þar hafa fingur á borði, talið orðin eða tímann sem tekur að komast yfir ritfjallið. Halur skyldi þó síst gagnrýna aðra, hvað þá konur, sem hann líkist æ meir með aldrinum. Hann getur hins vegar á stundum orðið undrandi þegar hann heyrir konur tala saman tímunum saman án andardráttarhlés. Svo var háttað í Vinaminni í eftirmiðdag er Halur kom þar inn, að þar voru konur í stofu, eigi margar þó og eftir skamma stund urðu þær aðeins tvær auk húsfreyju. Þegar klukkan var orðin nærri sjö (kvöldmatur), taldi Halur að þessu lyki nú brátt, en svo var nú eigi; áfram héldu þessar ágætu konur að tala saman án hlés næsta klukkutímann en þá var Hali orðið svo illt í eyrum að hann lagðist í dyngju skamma stund. Talað höfðu þær í góðar tvær klukkustundir áður en Halur kom til stofu að sníkja gersemar húsfreyju - matarkyns.

Er Halur lá í dyngju, þá dreymdi hann þessa ambögu:

Talað höfðu tvær í lotu
talað karlinn Hal í hrotu.
Tímum saman
tungur lam´ann
þessar tvær með orðagotu.

Halur er með þessu einungis að viðra öfund sína í garð kvenna sem þessum búnaði eru byggðar, þetta mun vera meðfæddur búnaður, en þó er kannski unnt að koma honum fyrir síðar ef á þyrfti að halda. Talað höfðu tungum tveim................

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home