Fátt er
um fína drætti hjá Hali þessar stundir, en þó getur hann glaðst yfir því að frændi nokkur í Suðuramti sendi honum góðar línur á síðunni. Á meðan unga kynslóðin les slíkan texta sem Halur setur niður, þá er enn von fyrir hana og Hal. Frændi þessi hefir einnig sent Hali góðar gjafir á kostnað móttakanda, sem er algjört aukaatriði í þessu samhengi. Frændinn er bæði snarpur í hreyfingum og hugsun, sem mikilvægt er á þessum tímum eins og fyrrum þegar sigling á opnum bátum um vog gat verið varhugaverð. Gott er að verða fyrir truflun slíkra manna. Halur, sem bæði er sjálfhverfur, ráðalaus, duglaus og huglaus, þyrfti oftar að fá athugasemdir frá slíkum mönnum; þær gætu kannski smám saman komið honum á réttari brautir.
Halur veit að frændinn er nægjusamur enda Vestfirðingur í kvenlegg og það sterkan og mikinn. Það er því ekki úr vegi að rifja hér upp fleyg úr Gerplu nærri bjargsyllunni:
"Þormóður spyr hvað dvelji hann.
Þorgeir svarar og segir: Litlu máli skiptir hvað mig dvelur. Þormóður spyr hvort hann hafi eigi tekið nógar hvannir. Þá svarar Þorgeir Hávarsson þeim orðum er leingi síðan vóru í minnum höfð um Vestfjörðu: Eg ætla að eg hafi þá nógar, að þessi er uppi er eg held um."
Slíkur texti verður ekki bættur. Það fer illa fyrir okkur Íslendingum ef sams konar texti liggur "ólesinn" hjá garði.
1 Comments:
Úr suðuramti .
Mikið, lítið meyjar rakki,
margt, fátt getur ljóðað,
sigrar, tapar sálu hreinni,
sjaldan, oftast hrekki fremur.
Blíður, reiður bústinn drengur,
byggir, rífur kvæðin niður,
kátur, leiður kemur aftur,
klæmist, lofar góða þulu.
PS. mundu að betra er eitt hross í haga, en volvo heim að draga.
Skrifa ummæli
<< Home