föstudagur, apríl 08, 2005

Hægðir

hafa ætíð verið Hali mjög hugleiknar og þá bæði í starfi (hann starfar ekkert) og leik, sem hann sjaldan kemst til vegna kvíða sem magnast við alla leiktilburði. Sum orð tengjast hægðum, önnur ekki. Nú er við hæfi að tengja þetta fráfalli hans heilagleika sem margar stólræður hefur haldið. Enn skemmtilegra er, ef menn hafa eða fá stólpípu í stólræðu (tala í belg og biðu); eiginlegar stólpípur eru þó bráðgóðar við mörgum kvillum og kerlingarkveini, sem nóg er af, hvað þá karlakveini. Margir landar vorir eru haldnir hægðatregðu og vart kemur fyrir að Halur hitti ekki Íslending sem haldinn er slíkri tregðu, jafnvel ofsahægðatregðu; já, ofsahægðatregða er nokkuð sem fáir óska sér, en lesið vel þetta bráðskemmtilega orð sem er í hálfgerðri mótsögn við sjálft sig. All margir landar vorir fá síðan gylliniæð (ekki hollenskt gyllini) sem kvelur og særir sökum hægðatregðunnar. Halur veit að slíkir sjúkdómar hafa margan hestamanninn kvalið.

Halur hefur séð hestamann á góðum aldri, slæman af ofsahægðatregðu og gylliniæð. Hann veit að læknar geta lítið gert við þessu annað en valdið enn meiri tímabundnum sársauka við skoðun. Halur kvað:

Hægðatregðan, hinn óljúfi fengur,
harla slæmur virðist drengur.
En gylliniæðarblæðing
og endaþarmsþræðing
endanlega frá honum gengur.

1 Comments:

At 3:38 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Vont er að vakna úr dvala,
með verki á gyllinnar skala,
þá stólpípu má
við stoppinu fá,
Halur, ef kennir sér kvala.

 

Skrifa ummæli

<< Home