miðvikudagur, apríl 06, 2005

Iðrun eða yfirbót

er Hali efst í huga er hann hefir rennt yfir Maríukvæði Æris og reynt að ná einhverri sönsun (ekki fölsun), en illa hefur það nú gengið. Heiðinginn Halur er sannarlega enginn æringi í guðspjölllum eða Maríukvæðum; KFUM dugði honum þó lengi framan af. Mörg orð minna hann á sér fremri menn og má þar nefna orðin lin-æri, góð-æri, hall-æri, viður-væri, rass-særi og sam-særi en þar skýtur Ærir sér inn eins og honum einum er lagið. Á hinum páfalausa tíma er rétt að reyna að byrja að nýju með hreint borð ellegar ná sambandi við einhvern sem hefur gerst staðgengill Jesús Krists, þar eð páfalaust er þessa stundina. Einhverjir hafa á seinni tímum snúist til kaþólsku að nýju og Halur hefir það á tilfinningunni að sumir þeirra væru hólpnir. Hann veit þó að hreinsunareldurinn hlífir engum og hitinn frá honum er oft óþægilegur til lengdar. Halur lifir í stöðugum ótta. Halur mun halda áfram að taka við ráðum er hjálpa honum að finna veginn, sjá ljósið sem aðrir hafa séð og horfa í án sólgleraugna.
Halur kvað:
Heiðingjanum Hali sýnist ei,
hvorki páfa né Maríu mey,
takist karli að snúa,
eða kaþólskunni trúa;
við kenningunni segir nei!

Halur er þó trúgjarn maður og trúir á öll góð verk og mannanna gjörðir á hinum staðgengilslausu tímum. Engin framkvæmd eða verknaður á hans vegum gæti gengið nema með hjálp almættisins, en Halur veit ekki til þess að nokkur hafi umboð þess hér á jörðu. Hins vegar virðast margir vera til kallaðir.

1 Comments:

At 11:40 f.h., Blogger ærir said...

Heyrðist að bænirnar bárust,
frá Hali í hjartanu skárust,
boðorðin tíu,
og bænir að nýju,
biður því syndin er sárust.

 

Skrifa ummæli

<< Home