Hreinsunareldurinn
er margslunginn; sjálfur hefir Halur dvalið þar jafnt meðal réttlátra sem ranglátra. Hvenær verður maður ranglátur? -eða réttlátur? Ellin beygir alla og meira að segja páfann, sem minnti alltaf á Michael Jackson undir það síðasta er maður sá myndir af þeim bregða fyrir. Deyjandi gína. Hvor þeirra er réttlátari?
Gömlu hátalarnir mínir, sem ég keypti fyrir sumarlaunin 1979 ef ég man rétt, höfðu skilað hlutverki sínu afar vel á þriðja áratug, með smá viðgerð. Þeir höfðu verið vansælir útí bílskúr innan um aðra hluti sem þeir þekktu ekki, nema ef vera skyldi gamlá súper-magnarann minn sem sat rólegur hjá þeim og beið eftir eldskírn hinni síðari. Hún kom í dag og báðir hafa farið í gegnum hreinsunareldinn og eldskírn og komið nærri óskaddaðir þaðan. Það mátti ekki bíða öllu lengur að tengja þessa gömlu góðu vini mína (annar hátalarinn er reyndar ekki fullkominn, slasaður á bassa), sem svo mörgum desíbilum hafa skilað í gegnum tíðina. Eftir að hafa verið á stökkbrettamóti í Gilinu í gærkvöldi með sonum mínum, já - ég var úti í gær eftir matinn, ótrúlegt, - komst ég að því að gera þyrfti snögga breytingu í skúrnum, þar þyrfti að vera mögulegt að koma gömlum vinum í gang. Ekki hvað síst eftir að ég sá að Neil vinur minn Young (sem er einn örfárra listamanna sem er heill í gegn og stendur uppúr af þeim sem e-r vinsældir hafa öðlast, það er nánast óþekkt) hafði nýverið hlotið alvarlegan en læknanlegan slagæðasjúkdóm í heila; hann þyrfti að komast í skúrinn til mín og ná sér eftir þessi veikindi. Þetta er ruglingslegt, það er gott að skrifa þannig texta á stundum. Jú - nú er búið að tengja græjurnar, AC/DC hafa trukkað í gegn á stuttuxunum, Waits og tónar strandagæjanna í Beach Boys sem alltaf hljóma ótrúlega lifandi og sannir, gera bara það sem þeir eru bestir í, það sést af ánægjunni í tónlist þeirra. Margt af því sem ég hlusta á er annars dæmt þunglyndi en samt öruggt og á eftir að hljóma vel í skúrnum. Hvernig verður Dylan í skúrnum?Næst er bara að koma á fót bílskúrsbandi, veit að ég stend ekki við það nema sem umboðsmaður í besta falli eða hvað? Trommusett er á heila yngsta sonar míns og hvað væri betra en Led Zeppelin í skúrnum og smá ásláttur frá mér; sennilega kæmi Plant (-an) norður ef hann vissi af þessu tækifæri og heyrði þenna hljóm. Veit ekki um Brian Wilson, hann gæti fengið að gista í kjallarunum eins og margir aðrir, nú innan um gömlu bækurnar sem einnig hafa fengið eldskírn.
Þannig er allt meira og minna hjá mér búið að fara í gegnum hreinsunareld og ekki veit ég hvar hann endar eða í honum kulnar. Ellin beygir ekki þann sem skroppið getur útí skúr og fengið eldskírn þar, enda enginn þessa stundina með umboð páfans; best að skjótast milli húsa. Ljóst að tónlistarsmekkur minn er ekki einfaldur, hann líkist hreinsunareldinum, samanber það að Willie Nelson og Waits eru báðir í skúrnum með vinnuvettlinga, tilbúnir að slá tóninn milli verka með mér.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home