sunnudagur, apríl 10, 2005

Erfðirnar

og erfðaefnið eru víst það eina sem enginn nær að losa sig við í eiginlegri merkingu, veit að út úr þessu má snúa. "Losun erfðanna" er nokkuð sem aldrei verður höndlað - vonandi. Þessa stundina eru gömlu hjónin, foreldrar mínir, að leggja sig í kjallara Vinaminnis, nýbúin að borða vöfflur með gamla laginu, heimabakaðar. Sá gamli varð áttræður í gær og var að heiman með þeim hætti að flýja norður í land. Hann sér fram á bjartari tíma í iðkun frjálsra íþrótta meðal öldunga, en það að verða áttræður flytur hann sjálfkrafa í eldri flokk þar sem möguleikarnir verða meiri og miklir reyndar að setja met ef ekki heimsmet, milli þess sem skrokkurinn þarf að jafna sig. Sumir sem æfa með honum eru hálfpartinn fluttir í kasthringinn í rúminu miðað við lýsingar. Hann hefur verið nokkuð normal fyrir norðan þessa dagana, gengið um húsið og fest nokkra lista sem voru lausir eða ófestir, fest rafmagnssnúrur, mokað snjó, sópað skúrinn og velt öllu þar vendilega fyrir sér, skoðað hvort mála þurfi í sumar, kannað hitann í ofnum, breytt hitanum nokkrum sinnum, farið í gönguferð án vitundar annarra í húsinu (héldu að hann væri sofandi), kom kófsveittur heim eftir 45 mín. hraðgöngu um hálfa Brekkuna; reynt að gefa köttunum en þeir eru matvandir. Þetta er sem sagt allt hefðbundið og sú sem fylgt hefur honum eftir í nokkra áratugi kemur vel út úr ferðinni þótt aldurinn hafi farið aðeins verr með suma hluta hennar, allt er þó afstætt sem sagt og gert er.

"Losun erfðanna" kemur til með að leiða okkur til vitfirringar, það verður einungis að sætta sig við kosti og galla þessa fyrirkomulags sem lagt var í vélina á sínum tíma. Sá gamli áttræði hefur átt góða daga hér fyrir norðan og það er kominn tími til að óska honum til hamingju með gærdaginn, þ. 9da apríl. Apríllinn er nokkuð sérstakur mánuður; grimmur þegar verst er, en ofsabjartur hinn daginn eins og sjá mátti og upplifa í gær hér norðan heiða, hvað þá í hlíðum Hlíðarfjalls.

Saman eru gömlu hjónin 158 ára og það er nokkuð hár aldur þrátt fyrir allt.

Aftur til hamingju með daginn og það er gaman til þess að vita að aldursmunur yngsta barnsins í Vinaminni (Ísaks Freys) og gamla mannsins eru heil 70 ár.

1 Comments:

At 12:57 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Valur minn, þetta er hann Arnaldur frændi þinn. Ég var einmitt hjá gömlu hjónunum fyrr í kvöld og þau voru hress eins og alltaf. Hins vegar færðu þau mér þær slæmu fréttir að þú ætlir að eyða peningum í einhvern rugl-Volvo. Bílamarkaðurinn á Íslandi í dag er nú þannig að hægt er að gera frábær kaup á lítið notuðum lúxusbílum(ekna kannski í kringum 30 þús). Það borgar sig engan veginn að kaupa þennan nýja Volvo á einhverjar 5 milljónir(mín ágiskun) og sjá hann svo hrynja í verði um leið. Mjög hagstættt er einnig að láta flytja inn fyrir sig notaða bíla frá Þýskalandi.Ég held að mín ráð til þín séu að finna lítið ekinn BMW 540i (eða jafnvel 530i) circa módel 2002
og borga fyrir hann um tæpar 3 milljónir, auðvitað kæmi bara mjög vel með farið eintak til greina(hugsanlega í eigu eldri borgara). BMW-inn helst betur í verði. Svo færðu þér einhverja ódýra fjórhjóladrifstík ef þig langar að leika þér í snjónum eða keyrir í vinnuna á vélsleða á veturna;)

Kær kveðja

Arnaldur Hjartarson

 

Skrifa ummæli

<< Home