Garðvinna er
eins og góð bók; hægt að iðka hana á eigin hraða, taka til hendinni hér og þar. Eins er með bókina, unnt að fletta hér og þar, lesa sama textann að nýju og endurmeta og hafa gaman af, lesa á hraða eftir getu og tilefni. Garðvinnan er hafin í Vinaminni, nú á eigin hraða og rólegheitum ef mið er tekið af fyrri vinnu sem meir var unnin af krafti en þekkingu, meira strit en vit. Allt sem Halur kann í garðvinnu, hefur hann lært af húsfreyju Vinaminnis, allt er þaðan komið, allt hefur reynst rétt og ekkert brugðist til þessa, jafnvel fyrir algjöran viðvaning sem Halur nú er í þessu sem flestu öðru. Hann tók þó vissa áhættu í dag er hann færði silfurblöðkuna í suðvesturbeðinu um nærri 80 cm til suðausturs í sama reit eða beði, beður er gott orð í mörgu samhengi, (sárbeður), þar sem hann vonar að hún njóti sín enn betur, enda með afbrigðum fallegt tré.
Halur á þó í nokkrum vanda með afurðir sem koma þarf á haugana, þar sem hann er nú króklaus að aftan, ekki kemst allt í safnhauginn (gott að fáir hafa hann séð). Halur biður nú góðar vættir að leysa þennan vanda og sá er fyrstur kemur með krók (ekki á móti keldu) og hvað þá kerru, getur vænst þess að fá "góða skoðun" án endurgjalds. Krók- og kerrulaus er Halur ekki til neinna stórræða líklegur en hann mun hins vegar halda áfram í garðvinnunni, sem er ókeypis meðferð við öllum kvillum mannskepnunnar, jafnt andlegum sem líkamlegum, hvar bilið er þar á milli, veit Halur nú eigi. Best að skrifa ekki meira hér.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home