sunnudagur, maí 08, 2005

Tilbreyting

í lífinu skiptir sjálfsagt mismiklu máli. Hvað er nægileg eða nauðsynleg tilbreyting er breytilegt, það sést einnig vel ef borinn er saman gamli tíminn og sá er nú tröllríður fólki; tilbreytingin þarf að vera "meiri og meiri", helst þannig að unnt verði að státa sig af einhverri rándýrri ferð eða athöfn ef marka skal það sem fyrir augu ber í les- og myndmáli, ekki sjónvarpi. Nægjusemi verður fátíðari en flest annað nú til dags. Í gamla daga var "þetta" nokkuð þannig milli mánaða á venjulegu sauðfjárbúi hvað verkþætti varðaði en flest miðaðist við árstíðir og skepnur (Halur hefði átt að gerast bóndi, en meðvituð leti og ódugur forðaði skepnum og dýrum frá honum):

Janúar - fengitíð og fóðrun; febrúar - meiri fóðrun og beit; mars - enn meiri fóðrun og beit; apríl - enn frekari fóðrun og rúningur; maí - áfram fóðrun, sauðburður hefst vonandi, farfuglar streyma til sveita og varptíminn byrjar; júní - áfram sauðburður, fénu sleppt, dún- og eggjatekja, áburðardreifing (sem minnst af honum vonandi í dag, þ.e. kemískum), frekari jarðrækt, silungsveiði í net, draga fyrir ósinn að næturlagi, jafnvel heyannir, borgardrengur kemur á býlið til sumarvinnu; júlí - heyannir byrja fyrir alvöru, áfram silungsveiði í net, endurnýjun húsakosts, viðgerðir, heimsóknir bæjarbúa, næturgistingar ættingja ef e-r eru eftir; ágúst - heyannir, klára verkin sem ókláruð voru síðasta haust; september - göngur og réttir, drukkið af pela, frægðarsögur, söngur, kveðskapur; október- meiri göngur og réttir með tilheyrandi; nóvember - ljúka ýmsu fyrir veturinn, ákveða með kaupstaðaferð fyrir jólin; desember - fé hýst, baka laufabrauð og bragða á heimaslátruðu, ganga frá uppgjöri við Kaupfélagið.

Halur sér ekki betur en flestir bændur og búalið hafi komist meira og minna óskaddaðir frá þessum tíma og áratugum, allt þar til nútíminn fór að skipta sér meira af þessu en góðu hófi gegnir.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home