sunnudagur, júní 19, 2005

Dauði

síðunnar er nærri, en Halur mun reyna að blása lífi í skrifin að nýju eftir fremsta mætti, sem eins og allir vita, er af mjög svo skornum skammti. Allt er gjöf sem höndin gjörir (nýr málsháttur Hals) og skiptir þar engu hvort rakað er með hrífu, sleginn garðurinn, kastað flugu eða gengið með árbakka með stöng í hönd; horft á gæfar mjög straumendur við bakkann milli þess sem sóleyjar eru geislandi af þrótti og birtu í þessu nokkuð samlita landslagi sem er þeim nærri. Laxárdalurinn er ekki svipmikill í sjálfu sér, en fagur þó og sérlega í landi Ljótsstaða (kannski vegna einangrunar staðarins og nærri umferðarleysis), en bakkarnir þar geyma einhverja glæsilegustu urriða veraldarinnar sem og bakkarnir austan megin ofan Ferjuflóa, við Húsapolla og Hjallsendabakka; að vestanverðu eru glæsilegir staðir sem ekki var unnt að fleyta línu um í ferð þessari, Ljótsstaðabakkar hinir eiginlegu sem mest eru veiddir í dag, Syðri-Eyri, Nauthellir og Ytri-Eyri, en þar fékk Halur einhverja fallegustu fiska úr fljótinu á sínum tíma á "minni gerðirnar" af flugum. Fiskurinn reyndar fremur magur sumur, ef mið er tekið af meðaltalinu, allt er breytingum undirorpið. Lítils virði væri að ganga meðfram ánni, ef öll staðarheiti eða örnefni væru gleymd og tröllum gefin, öll meira og minna tengd landbúnaði gegnum aldirnar, ferðum, vöðum, gönguleiðum og öðru slíku. Sumt breytist lítið þarna í dalnum eins og skiltið í matsal Rauðhóla, en þar stendur (sennilega skrifað af Mæju): "Vinsamlegast stillið reykingum í hóf á matmálstímum!"

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home