mánudagur, júní 06, 2005

Umhverfið

norðan heiða eða náttúran, er ekki beint vorleg. Halur fór í Mývatnssveit nýlega, en þar var fátt er minnti á vorið, snjór í fjöllum, varla grænt lyng að sjá, vorlyktin ókomin, þó stöku fuglar á vatni, á veiðistöðum Laxárinnar og í vogum (ekki Vogum) sem sagði manni að eggja- og útungunartíminn væri í hámarki. Jafn blindur maður og Halur hefði nú "heyrt" árstíðina án aðstoðar sjónarinnar; heyrnin er víst einn aðalvinur fuglaskoðarans, en krefst mikillar þjálfunar. Sá þó allnokkrar fuglategundir, jafnvel flórgoða þrjá að tölu. Óðinshaninn er áreiðanlega einn kærasti fugl landsins og hann heilsaði vel með sínum sérkennilegu háttum. Sennilega hrafnsandarhaus á hreiðri, ekki viss, væntanlega meiri von en vissa hins vitlausa.

Sem sagt gott.

2 Comments:

At 11:58 f.h., Blogger ærir said...

Handa Hali, örvængingarfullu
náttúrubarni, með sjónpípu
magnaða og myndavél á
köldu vori norðanlands


Hrafnsönd á hreiðri lá í fjarska
hani óðins synti á vatni lygnu.
Fögru sundi flórgoðans ei má raska
og festa skal þá náttúru á skyggnu.

Vorlykt góða vantar enn í sveitum
varla sést í græna tuggu á hólum.
Veiðistaðir vakna brátt ef leitum,
vorsins græna nálægt næstu jólum.

Úr eggjum skríða ungar brátt í kulda,
sem alltaf skulu vorsins komu fagna.
Ef skýjin hverfa skín þá sólin hulda,
með skemmtun, þá er vetrarbyljir þagna.

Vaknar þrá er vetur kveður langur,
í veiði fara, við árnar stríðu dvelja.
Á línu grípur lagarbúa slangur,
og lengi verður fiska þá að telja.

 
At 9:45 f.h., Blogger Halur Húfubólguson said...

Af þessum góðu samsetningum Æris sést mætavel, að margir landar vorir tilheyra gamla tímanum og tíkinni Róm, það má telja jákvætt mjög. Að setja saman bögu eða texta er slökun góð, enn betra að lesa utan dyra. Vatnsorkusálsýkin sem Þórbergur hefir lýst manna best hérlendis að ég held og minnir og lesið áður fyrir löngu, mun endurnærast innan tíðar við árbakka.

 

Skrifa ummæli

<< Home